[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ákvörðun kjararáðs um að greiða skuli dómurum við Hæstarétt Íslands og Héraðsdóm Reykjavíkur tímabundið álag á laun, um 101 þúsund kr.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ákvörðun kjararáðs um að greiða skuli dómurum við Hæstarétt Íslands og Héraðsdóm Reykjavíkur tímabundið álag á laun, um 101 þúsund kr. á mánuði, vegna aukins álags, nær ekki að vega upp kjaraskerðinguna sem dómarar urðu fyrir, þegar laun þeirra voru lækkuð fyrir tæpum tveimur árum.

Í framhaldi af lagasetningu Alþingis 2008 ákvað Kjararáð lækkun launa þingmanna og ráðherra, embættismanna sem undir það heyra og dómara. Við það lækkuðu heildarlaun dómara um 10-14%, mest hjá þeim sem höfðu hæst heildarlaun. Þannig lækkuðu t.d. laun hæstaréttardómara um tæplega 160 þúsund kr. á mánuði (í rúmar 890 þús. kr að meðtöldu álagi vegna yfirvinnu).

Með hækkuninni nú fá hæstaréttardómarar til baka tæplega 2/3 hluta af þeirri skerðingu sem þeir urðu fyrir fyrir tæpum tveimur árum. Á sama tíma hefur málafjöldi við réttinn hins vegar stóraukist. Meginrökstuðningur ráðsins fyrir hækkuninni nú er aukið álag á dómstólana.

Það var Dómarafélag Íslands sem vakti athygli kjararáðs á því í september sl. að álag á dómstóla landsins hefði aldrei verið eins mikið og nú og væri fyrirséð að það mundi aukast verulega á næstu mánuðum og árum. Ríkt tilefni væri til endurskoðunar á launum dómara.

Þegar samþykkt var tímabundin fjölgun dómara á Alþingi lá fyrir að skráðum málum við Hæstarétt hafði fjölgað um 57% frá árinu 2003 og skráð mál aldrei verið fleiri en á árinu 2009, eða 782. Nýjar tölur sýna að álagið var engu minna í fyrra. Þó skráðum málum hafi fækkað frá árinu á undan um 56, er þetta engu að síður annar mesti málafjöldi sem borist hefur Hæstarétti á einu ári. Kærumálum fjölgaði um 53 eða 14% í fyrra. Munnlega fluttum einkamálum fækkaði um 101 frá árinu áður. Einkamálum þar sem um kærur var að ræða fjölgaði verulega en þau eru yfirleitt mun flóknari úrlausnar.

Dómum Hæstaréttar fjölgaði mikið í fyrra. Var meðferð 710 mála lokið á árinu, og voru dómar 56 fleiri en á árinu 2009 og 160 fleiri en meðaltal áranna 2004 – 2008. Hafa aldrei verið afgreidd fleiri mál á einu ári í sögu réttarins.

Kjararáðsfulltrúarnir Svanhildur Kaaber, núverandi formaður ráðsins, og Rannveig Sigurðardóttir vísa til þess í sératkvæði sínu að vegna fjölgunar dómara til að mæta auknu álagi, sé launahækkunin ekki tímabær. Meirihluti kjararáðs víkur einnig að þessu en segir að lykilatriði sé að dómstólar séu í stakk búnir til þess að mæta auknu álagi þannig að mál dragist ekki á langinn og réttarspjöll hljótist af. „Er því mikilvægt að reyndir og hæfir lögfræðingar sæki um embætti dómara,“ segir kjararáð.

Óróleiki vegna vaxandi misræmis launa lögfræðinga

Kjararáð er ekki lengur bundið af fyrirmælum laga um lækkun launa æðstu embættismanna. Eftir því sem næst verður komist eru þó ekki fleiri mál af þessum toga í undirbúningi hjá kjararáði.

En skv. heimildum blaðsins fer óróleiki í launamálum hjá ríkinu vaxandi. Sérstaklega vegna síaukins launamisræmis á milli annars vegar þeirra embættismanna og dómara, sem hafi búið við launaskerðingu frá 2009 og svo lögfræðinga sem séu á svimandi háum launum í samanburði og starfa margir hverjir á vegum ríkisins við uppgjör mála eftir bankahrunið, s.s. í skilanefndum bankanna, slitastjórnum og víðar. Þeir fái greidd mun hærri laun en t.a.m. dómarar, sem skjóti skökku við þar sem dómarar fá í fangið sífellt fleiri og erfiðari mál sem rekja má til efnahagshrunsins.

GAGNRÝNA HÆKKUNINA

Út fyrir valdsvið sitt

„Eins og þetta blasir við mér er kjararáð að fara út fyrir valdsvið sitt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í tilkynningu í gær. „Alþingi er nýbúið að taka ákvörðun um fjölgun dómara og aðstoðarmanna til þess einmitt að mæta auknu álagi. Því hlýtur maður að spyrja sig hvort kjararáð hafi yfirhöfuð umboð til að fara gegn þeirri ákvörðun Alþingis? Ég sé ekki betur en að með þessu þurfi dómstólarnir að fækka dómurum aftur til að mæta þessari launahækkun.“

Stjórn BSRB átelur hækkunina og segir að ákvörðun kjararáðs hljóti að slá tóninn í yfirstandandi kjaraviðræðum „og þær stéttir sem búa við mikið álag hljóta að vænta sömu uppbótar. Það er ólíðandi að á meðan ríkisvaldið fæst ekki til að ganga frá kjarasamningum við starfsmenn sína skuli kjararáð hækka laun dómara.“