Gjaldeyrishöft Fjárfestar bíða nú eftir skýrslu Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál og gera margir þeirra sér vonir um að í henni felist leiðarvísir um afléttingu hafta, eða að minnsta kosti að þeim verði létt að hluta til.
Gjaldeyrishöft Fjárfestar bíða nú eftir skýrslu Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál og gera margir þeirra sér vonir um að í henni felist leiðarvísir um afléttingu hafta, eða að minnsta kosti að þeim verði létt að hluta til. — Morgunblaðið/Ernir
Bjarni Ólafsson bjarni@mbl.is Óverðtryggð ríkisskuldabréf, en langflest skuldabréf íslenska ríkisins eru óverðtryggð, hafa fallið umtalsvert í verði frá áramótum og hefur stærstur hluti lækkunarinnar orðið í febrúarmánuði.

Bjarni Ólafsson

bjarni@mbl.is

Óverðtryggð ríkisskuldabréf, en langflest skuldabréf íslenska ríkisins eru óverðtryggð, hafa fallið umtalsvert í verði frá áramótum og hefur stærstur hluti lækkunarinnar orðið í febrúarmánuði.

Frá áramótum hefur óverðtryggði hluti GAMMA skuldabréfavísitölunnar lækkað um 2,65 prósent og lækkunin frá febrúarbyrjun nemur 1,96 prósentum.

Hins vegar hefur verðtryggði hluti vísitölunnar hækkað um 1,19 prósent frá áramótum og um 0,6 prósent frá febrúarbyrjun. Hafa flokkarnir tveir því fjarlægst töluvert á þessum tíma.

Nokkrar skýringar eru á þessari þróun, að sögn Gísla Haukssonar, framkvæmdastjóra GAM Management. Í fyrsta lagi segir hann að eðlileg verðleiðrétting sé í gangi, að hluta til að minnsta kosti. „Þegar ákveðið var að taka útvarpsgjald út úr neysluverðsvísitölunni hafði það áhrif á vísitöluna og þar með á það hvernig verðbólga er reiknuð. Á skuldabréfamarkaði brugðust menn við með því að kaupa óverðtryggð bréf, en verð hækkaði töluvert umfram það sem þessi breyting gat réttlætt. Þess vegna er ekkert undarlegt við það að verðið lækki á ný.“

Þá segir Gísli að búist sé við töluverðri verðbólgu næstu þrjá mánuði, eða um tveggja prósenta hækkun á almennu verðlagi á tímabilinu, og við slíkar aðstæður verði verðtryggðar eignir eftirsóttari.

Gjaldeyrishöft og verðbólga

„Þá má ekki gleyma því að von er á skýrslu Seðlabankans um gjaldeyrishöft og vonast menn til að í henni sé eitthvað að finna um slökun á höftunum. Erlendir krónueigendur eru nánast eingöngu í óverðtryggðum ríkisbréfum og ef þeir munu geta losað hluta af sínu fé og flutt út mun það hafa áhrif á verð á bréfunum.“ Segir hann að innlendir fjárfestar séu að búa sig undir þessa hugsanlegu breytingu með því að losa sig við óverðtryggð bréf áður en að þessu kemur.

„Fari svo að liðkað verði um fjármagnsflutning út úr landinu getur það haft áhrif til veikingar á gengi krónunnar, sem aftur mun geta leitt til meiri verðbólgu. Við slíkar aðstæður verða verðtryggðar eignir verðmætari,“ segir Gísli.

Ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf á gjalddaga árið 2019 hefur í febrúar hækkað úr 5,8 prósentum í 6,38 prósent.

Skuldabréf
» Skuldabréf útgefin af íslenska ríkinu eru almennt óverðtryggð, að einum skuldabréfaflokki undanskildum.
» Óverðtryggð bréf eru langflest gefin út af Íbúðalánasjóði.
» Þegar verð lækkar á skuldabréfi hækkar ávöxtunarkrafan, þ.e. að fjárfestar vilja fá meira fyrir fé sitt.