Gos Fréttaflutningurinn af gosunum tveimur var tilnefndur í flokkinum Umfjöllun árins.
Gos Fréttaflutningurinn af gosunum tveimur var tilnefndur í flokkinum Umfjöllun árins. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Ritstjórn Morgunblaðsins, Fréttastofa RÚV og Fréttastofa Stöðvar 2 hlutu sameiginlega tilnefningu fyrir bestu umfjöllun ársins þegar tilkynnt var um Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir árið 2010 í nótt.

Ritstjórn Morgunblaðsins, Fréttastofa RÚV og Fréttastofa Stöðvar 2 hlutu sameiginlega tilnefningu fyrir bestu umfjöllun ársins þegar tilkynnt var um Blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir árið 2010 í nótt. Tilnefningarnar voru birtar á vefsíðu BÍ og kom þá í ljós að fjölmiðlarnir þrír höfðu verið tilnefndir sameiginlega fyrir umfangsmikla og vandaða en ólíka umfjöllun um eldgosin á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli.

Pétur Blöndal, blaðamaður á Morgunblaðinu, var tilnefndur til Blaðamannaverðlauna ársins fyrir fróðlegar og sérstaklega vel skrifaðar greinar um læknavísindi í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins. Aðrir tilnefndir í þeim flokki voru Kristinn Hrafnsson, fréttamaður á RÚV og talsmaður Wikileaks, fyrir framúrskarandi úrvinnslu á myndbandi um þyrluárás í Bagdad og fyrir störf sín sem fulltrúi Wikileaks, og ritstjórn DV fyrir Stjórnlagaþingsvef sinn.

Í flokknum Rannsóknarblaðamennska ársins hlutu tilnefningar Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, blaðamaður á DV, fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál, Stígur Helgason og Trausti Hafliðason, blaðamenn á Fréttablaðinu, fyrir greinargóða og upplýsandi umfjöllun um málefni velferðarheimilisins Árbótar, og Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, fyrir skilmerkilegan fréttaflutning af viðskipta- og fjármálum.

Til verðlauna fyrir bestu umfjöllun ársins voru, auk fjölmiðlanna þriggja sem hlutu sameiginlega tilnefningu, tilnefnd Magnús Halldórsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, fyrir skýra umfjöllun um fjármál sveitarfélaga í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, og Sigríður H. Björnsdóttir og Þóra Arnórsdóttir ásamt fréttamönnum fréttastofu RÚV, fyrir sérstakan þátt með greinargóðri og viðamikilli umfjöllun um Rannsóknarskýrslu Alþingis, daginn sem hún kom út.