Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu eru iðnir við að stofna samtök, ekki síst svokölluð þverpólitísk samtök. Ein slík litu dagsins ljós í vikunni og eru kölluð Já Ísland, en ættu frekar að heita Nei Ísland, eða að minnsta kosti Já Evrópa.

Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu eru iðnir við að stofna samtök, ekki síst svokölluð þverpólitísk samtök.

Ein slík litu dagsins ljós í vikunni og eru kölluð Já Ísland, en ættu frekar að heita Nei Ísland, eða að minnsta kosti Já Evrópa. Eiginlega allt annað en Já Ísland.

Þessum já-Evrópusambandssamtökum er ætlað að vera „samnefnari fyrir málefnalega umfjöllun og upplýsingamiðlun um aðild Íslands að ESB og leggja þannig grunn að því að Íslendingar geti tekið upplýsta ákvörðun þegar aðildarsamningur liggur fyrir,“ að því er segir í frétt frá samtökunum.

Þetta er auðvitað mjög trúverðugt, sérstaklega í ljósi heilsíðuauglýsingar samtakanna, þar sem innantómum frösum og öfugmælum var slett fram án nokkurs rökstuðnings.

Öfugmælin „Við lækkum vexti“ eru að mati samtakanna málefnaleg umfjöllun.

Hið sama má segja um öfugmælin „Við eflum raunverulegt fullveldi“.

Vissulega má segja að samtök sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB og telja slík öfugmæli flokkast undir málefnalega umfjöllun, geti vel heitið Já Ísland.

Það er fullkomið samræmi á milli nafngiftarinnar og áróðursfrasanna, en barátta samtakanna verður ekki trúverðugri fyrir vikið.