Banki Málinu var vísað frá dómi.
Banki Málinu var vísað frá dómi. — Morgunblaðið/Golli
Andri Karl andri@mbl.

Andri Karl

andri@mbl.is

„Við samtökin þurfum að taka afstöðu til þess í samráði við okkar lögmann hver næstu skref verða,“ segir Guðrún Pétursdóttir, formaður Styrktarsjóðs hjartveikra barna, en í gær staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá dómi skaðabótamáli, sem sjóðurinn höfðaði gegn Landsbankanum og Landsvaka, dótturfélagi bankans, vegna tapaðra fjármuna, rúmra 20 milljóna króna, í peningamarkaðssjóðum bankans við hrun.

Styrktarsjóðurinn taldi, að stýring Landsbankans á fjármunum sjóðsins hefði verið í ósamræmi við fyrirfram samþykkta fjárfestingarstefnu sem gerð hafði verið. „Í mínum huga er það mikið atriði fyrir viðskiptavini banka að fá á hreint hvort undirskrifaður gjörningur af bankanum sé pappírsins virði eða ekki,“ segir Guðrún og bætir við að skýr og undirskrifaður samningur um fjárfestingarstefnu hafi verið þverbrotinn. „Og svo sleppur bankinn á þeirri forsendu að menn taka ekki afstöðu til málsins.“

Málið talið vanreifað

Hæstiréttur vísaði til forsendna úrskurðar héraðsdóms um að málatilbúnaður styrktarsjóðsins hefði verið óskýr og hann ekki getað skýrt út hvert nákvæmt tjón hans gæti talist. Meðal annars af þeim ástæðum var ekki lagður efnisdómur á aðalkröfuna.

Þá var styrktarsjóðurinn ekki talinn hafa afmarkað saknæma og ólögmæta háttsemi sem varakrafan um viðurkenningu skaðabótaskyldu byggðist á. Var ekki heldur lagður efnisdómur á hana.