Metúsalem Kjerúlf Björgvinsson fæddist á Þorgerðarstöðum í Fljótsdal 7. desember 1929. Hann lést á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum 9. febrúar 2011. Foreldrar hans voru hjónin Aðalbjörg Metúsalemsdóttir Kjerúlf og Níels Björgvin Sigfinnsson.

Útför Metúsalems fer fram frá Þingmúlakirkju í dag, 19. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Frá Þingmúlakirkju er í dag, 19. febrúar, til moldar borinn hann Metúsalem bróðir minn. Hann átti heima hér á Víðilæk nær allt sitt líf en sótti vinnu utan heimilis tíma og tíma fyrr á árum. Var á vertíð í Vestmannaeyjum, vann við Grímsárvirkjun meðan á byggingu hennar stóð og byggði íbúðar- og gripahús á nokkrum bæjum, m.a. byggði hann hér á Víðilæk öll útihús og íbúðarhús frá grunni. Smíðaði glugga og hurðir, múraði, lagði pípulagnir, m.ö.o. vann allt það sem gerði hús íbúðarhæft. Metúsalem dvaldi nokkra mánuði á Smíðaskólanum á Hólmi í Landbroti í kringum árið 1950, nýttist honum það nám ákaflega vel. Hann var mjög vandvirkur og samviskusamur við hvaðeina það sem hann tók sér fyrir hendur og var trúað fyrir. Hann var einlægur dýravinur og sárnaði og tók mjög nærri sér ef hann frétti af því að skepnum væri ekki sinnt svo sem vera bar. Metúsalem hafði mikið yndi af því að umgangast hesta og eftir að hann hætti að halda hross fyrir nokkrum árum tók hann til vetrarfóðrunar fáein hross og sinnti um þau sem um kornabörn væri fjallað. Þegar farga þurfti hrossum treysti Metúsalem sér ekki til að gera það heldur fékk aðra til og ekki kom til greina að nýta kjötið heldur var hrossunum búinn hvíldarstaður þar sem þurrt var og jarðvegur góður. Um nokkurra áratuga skeið átti Metúsalem við allmikið áfengisvandamál að stríða sem olli hans nánustu angri og kvíða. Þetta vandamál leysti hann með 10 daga dvöl á Vogi og bragðaði Metúsalem ekki áfengi næstu u.þ.b. 20 árin en hóf aftur að neyta þess fyrir tveimur árum en í mjög litlum mæli sem engum óþægindum olli. Það má með sanni segja að Metúsalem hafi verið traustur og góður maður. Hann var ókvæntur og barnlaus en ákaflega barngóður. Hann tók systrabörnin á heimilinu oft á hné sér og söng fyrir þau. Metúsalem hafði góða söngrödd og nýtti hana til hins ýtrasta þegar vínið vermdi sál.

Við eftirlifandi systkin hans færum bróður okkar hlýjar kveðjur með þakklæti fyrir hjálpsemina á vegferð lífsins. Þar sem góðir fara eru Guðsvegir.

Bragi Björgvinsson, Víðilæk.