Endurkoma Gretu Mjallar Samúelsdóttur í íslenska landsliðið í knattspyrnu eftir þriggja ára fjarveru vekur mikla athygli í skóla hennar í Bandaríkjunum.

Endurkoma Gretu Mjallar Samúelsdóttur í íslenska landsliðið í knattspyrnu eftir þriggja ára fjarveru vekur mikla athygli í skóla hennar í Bandaríkjunum. Greta stundar nám við Northeastern University, háskóla í Boston, og var þar í stóru hlutverki með kvennaliði skólans í vetur.

„Við erum geysilega ánægð fyrir hönd Gretu, að hún hafi fengið þetta magnaða tækifæri til að spila fyrir þjóð sína í þessu geysisterka alþjóðlega móti. Hún hefur lagt á sig gífurlega vinnu og mun spila gegn nokkrum af bestu liðum heims,“ segir þjálfari hennar, Tracey Leone, í umfjöllun um Gretu á vef skólans.

Greta er á leið með íslenska landsliðinu í Algarve-bikarinn í Portúgal þar sem liðið er í riðli með Svíþjóð, Kína og Danmörku. Bandaríkjamenn eru ávallt með sitt landslið í Algarve-bikarnum, sem er sterkasta mót heims ár hvert fyrir utan stórmótin hefðbundnu.

Greta hefur ekkert leikið með landsliðinu síðan hún sleit krossband í hné sumarið 2008. Hún komst aftur af stað með Breiðabliki síðasta sumar og í vetur skoraði hún 8 mörk og átti 5 stoðsendingar með sterku liði Northeastern í bandarísku háskólakeppninni, sem jafnast á við ágæta deildakeppni í Evrópu að styrkleika. vs@mbl.is