Namm Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra leggur mat á köku ársins 2011. Sigurður M. Guðjónsson, bakarameistari í Bernhöftsbakaríi og sigurvegari keppninnar, stendur lengst til hægri. Kakan fer í almenna sölu nú um konudagshelgina í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara.
Namm Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra leggur mat á köku ársins 2011. Sigurður M. Guðjónsson, bakarameistari í Bernhöftsbakaríi og sigurvegari keppninnar, stendur lengst til hægri. Kakan fer í almenna sölu nú um konudagshelgina í bakaríum félagsmanna Landssambands bakarameistara. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is „Þetta er kaka sem er í stíl við það besta sem fólk fær úti í heimi, en úr íslensku hráefni,“ segir Sigurður M. Guðjónsson bakarameistari.

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

„Þetta er kaka sem er í stíl við það besta sem fólk fær úti í heimi, en úr íslensku hráefni,“ segir Sigurður M. Guðjónsson bakarameistari. Hann fór með sigur af hólmi í árlegri keppni Landssambands bakarameistara um köku ársins og afhenti Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra kökuna við hátíðlega athöfn á dvalarheimili Hrafnistu í Reykjavík í gær.

En hvernig kaka er þetta? „Þetta er svona frekar nútímaleg frönsk kaka en í henni er íslenskt smjör og íslenskt skyr. Hún er sett saman úr frönskum kexbotni, skyrmús með sítrónu og vanillu, hindberjakjarna og efst er möndlubotn,“ segir Sigurður. Hann segir helstu nýjungina við sigurkökuna vera hinn snjóhvíta súkkulaðihjúp. Uppskriftinni verður hins vegar ekki dreift til annarra en félagsmanna Landssambands bakarameistara til að byrja með. „Ég miðla allri þeirri fagþekkingu til kollega sem hringja. Oft er það þannig að þegar ný kaka ársins er valin er verið að kynna nýjar vinnuaðferðir,“ segir Sigurður.

Kakan er skreytt með makkarónukökum, sem gerðar eru úr möndlumjöli og eggjahvítum, og fylltar með hindberjasultu.

Hjátrúarfullur bakari

„Mig hefur nú ekki mikið dreymt kökur, eins og sumir tala um,“ segir Sigurður spurður að því hvernig ný kaka verður til. „Ég leita eftir ákveðinni áferð á botni, og ákveðinni áferð á frauði. Svo er það hjúpurinn og skreytingin, þetta þarf allt að harmónera saman,“ segir hann.

Þetta var í annað sinn sem Sigurður tók þátt í keppninni, en alls bárust 16 kökur. Hann hafði áður sigrað í Kahlúa-kökukeppninni árið 2009. Sigurður segist ekki hafa gengið með hugmyndina að nýju kökunni lengi. „Ég er nú frekar hjátrúarfullur og byrja aldrei á þessum kökum fyrr en viku áður. Ég bakaði þrisvar í þessa köku, þrjár mismunandi útfærslur, áður en hún small saman,“ segir Sigurður.

Hann kveðst hafa prófað kökuna á sjálfum sér og samstarfsmönnum í Bernhöftsbakaríi, fjölskyldufyrirtækinu, en hann er af þriðja ættlið rekstraraðila. „Það gildir það sama um alla vöru sem ég sel hér í bakaríinu. Ég prófa þetta allt og sel ekki neitt sem ég borða ekki sjálfur. Það er mín heimspeki: ef ég borða það ekki þá sel ég það ekki.“

Dómnefndin metur innsendar kökur út frá því hversu vel bragð og útlit fellur saman, auk þess sem lagt er á það mat hversu líklegt sé að hún falli sem flestum í geð. Fólki gefst færi á að bragða á köku Sigurðar nú um konudagshelgina, en þá fer hún í almenna sölu í bakaríum félagsmanna landssambandsins og verður þar út árið.

LEYNDARMÁL

Hvíti hjúpurinn nýjung

Sigurður segist nota íslenskt gæðahráefni í baksturinn, en í sigurköku hans er til dæmis íslenskt skyr og smjör. Aðferðin við gerð hins snjóhvíta súkkulaðihjúps utan um köku Sigurðar, sem er helsta nýjungin, er hins vegar „iðnaðarleyndarmál“ eins og er.

Hann ljóstrar þó upp aðferðum sínum við aðra bakarameistara sem setja sig í samband við hann.