Vinsæl Josefin Winther gerir það gott í heimalandi sínu Noregi.
Vinsæl Josefin Winther gerir það gott í heimalandi sínu Noregi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helga Mjöll Stefánsdóttir hms6@hi.is Íris Stefanía Skúladóttir stendur í ströngu þessa dagana við að skipuleggja tónlistarhátíðina Bergen-Reykjavík-Nuuk, sem fer fram dagana 24.-25. febrúar.

Helga Mjöll Stefánsdóttir

hms6@hi.is

Íris Stefanía Skúladóttir stendur í ströngu þessa dagana við að skipuleggja tónlistarhátíðina Bergen-Reykjavík-Nuuk, sem fer fram dagana 24.-25. febrúar. „Þetta er hrærigrautur af listamönnum frá fjórum borgum: Bergen, Reykjavík og Nuuk og svo Bretlandi. Í grunninn er þetta ólík tónlist sem á sér samt samhljóm,“ segir Íris. Meðal þeirra sem spila á hátíðinni eru Samúel Jón Samúelsson með stórsveit sinni, Davíð Þór Jónsson, Ragnheiður Gröndal, Moses Hightower og Mr. Silla.

Æskuvinkona kemur fram á hátíðinni

Josefin Winther, tónlistarkona og æskuvinkona Írisar frá Bergen, kemur fram á hátíðinni og óskaði Íris eftir aðstoð hennar við skipulagningu hátíðinnar. „Það vill svo skemmtilega til að ég bjó í Bergen sem unglingur og Josefin kom og heimsótti mig á Íslandi í sumar. Hún endaði svo á því að flytja hingað vegna ástar sinnar á landinu. Í dag erum við á fullu að skipuleggja hátíðina.“

Þær stöllur vildu efla samstarfið milli þessara ólíku landa og borga en Josefin mun sjálf koma fram á hátíðinni, enda að gera góða hluti í Bergen með aðra plötu sína, Raising Armies. Josefin mun vera þekkt af tónlist sinni í Noregi en hún leikur rólegt rokk og hefur m.a. verið líkt við P.J. Harvey, að sögn Írisar.

Listamenn syngi á móðurmálinu

Josefin og Íris hittu fyrir tilviljun í sumar þekktan umboðsmann í Noregi, Mikael Telle, sem er m.a. með Kings of Convenience á sínum snærum. Hann vildi ólmur fá að senda ungt og nýtt tónlistarfólk á hátíðina og fyrir hans tilstuðlan mun hljómsveitin John Olav Nilsen & Gjenge koma fram á hátíðinni. Í kjölfarið var ákveðið að hafa það að leiðarljósi að listamennirnir syngju á sínu móðurmáli. „Við ætlum að gera tilraun með það og mun allavega helmingur hljómsveitanna syngja á sinni tungu,“ segir Íris. Hún lofar mikilli skemmtun og hvetur alla til þess að mæta. Hægt er að nálgast miða á vefsíðunni midi.is.og er verðið 2.500 kr. fyrir eitt kvöld en 4.000 kr. fyrir bæði kvöldin.

Höfundur er meistaranemi í blaða- og fréttamennsku.