Vísindamenn víða um heim fylgdust í gær með áhrifum mesta sólblossa sem orðið hefur í fjögur ár. Slíkir blossar geta truflað gervihnetti, fjarskipti og rafveitunet á jörðinni.
Vísindamenn víða um heim fylgdust í gær með áhrifum mesta sólblossa sem orðið hefur í fjögur ár. Slíkir blossar geta truflað gervihnetti, fjarskipti og rafveitunet á jörðinni. Sólblossar geta einnig valdið mikilli norðurljósadýrð og orðið til þess að norðurljós sjáist mun sunnar en venjulega. Alls urðu þrír sólblossar dagana 13., 14. og 15. febrúar og einn þeirra var sá sterkasti í fjögur ár. Sólblossar, eða sólgos, eru snögg orkulosun í lofthjúpi sólar sem veldur firnamikilli aukningu birtu á sólinni og straumi hlaðinna gasagna út í geiminn. Fjallað er um sólblossa og áhrif þeirra á jörðinni á stjörnufræðivefnum: www.stjornuskodun.is/solkerfid/solin/solblossar. Þar kemur meðal annars fram að orkan sem losnar við öflugustu blossana jafngilti því að milljónir 100 megatonna vetnissprengjur væru sprengdar samtímis.