Blíðviðri Þorrinn hefur farið mjúkum höndum um Skagfirðinga. Það þóttu nýverið fréttir er spáð var næturfrosti, slík hefur verðurblíðan verið.
Blíðviðri Þorrinn hefur farið mjúkum höndum um Skagfirðinga. Það þóttu nýverið fréttir er spáð var næturfrosti, slík hefur verðurblíðan verið. — Morgunblaðið/ Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Björn Björnsson Sauðárkrókur Nú fer að síga á seinni hluta þorra og hefur hann farið mjúkum höndum um Skagfirðinga og þarf að róta djúpt í það „sem elstu menn muna“ til að finna samanburð við veðurblíðuna á þessum árstíma.

ÚR BÆJARLÍFINU

Björn Björnsson

Sauðárkrókur

Nú fer að síga á seinni hluta þorra og hefur hann farið mjúkum höndum um Skagfirðinga og þarf að róta djúpt í það „sem elstu menn muna“ til að finna samanburð við veðurblíðuna á þessum árstíma. Svo langt hefur gengið að fyrir nokkru heyrðist í veðurfregnum að búast mætti við næturfrosti, sem er líklega einsdæmi á þorranum. Hins vegar eru þorrablótin að renna sitt skeið þetta árið og mun fólk hér hafa blótað af sama krafti og undanfarin ár.

Gamalt hús í bænum sem í áranna rás hefur verið m.a. sláturhús, klakstöð og verkstæði, hefur enn fengið nýtt hlutverk. Þar er nú innanveggja klasastarf þar sem nokkrir aðilar hafa komið sér þægilega fyrir og sinna störfum tengdum listsköpun. Nefna má Kvikmyndafélagið Skottu, ljósa- og hljóðkerfaleiguna Sviðsljós og Bennemann stúdíó. Svo á myndlistin sinn fulltrúa og innan tíðar mun væntanlega áhugaljósmyndari bætast í hópinn. Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður sagði hópinn nú vera með hálft húsið undir, en væntanlega mundi rýmkast svo til innan tíðar að fleiri aðilar í þessum geira gætu fengið inni.

Meistaradeild Norðurlands – KS-deildin hélt sitt fyrsta mót í síðustu viku í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki. Í fjórða sinn fer nú þessi mótaröð fram en í henni keppa 18 knapar af Norðurlandi. Eftir fjögur mót þar sem keppt er í fjór- og fimmgangi, tölti, skeiði og smala, en þar reynir á samspil manns og hests, lipurð og snerpu, þá skapar samanlagður árangur þeirra 12 bestu, sæti í mótaröðinni að ári. Í janúar nk. mun svo keppt um þau 6 sæti sem laus eru.

Nýlega voru Héraðssafninu afhentar „Raddir fólksins“, 115 klst. af upptökum Kára Steinssonar vélamanns af röddum fólks í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum. Kári sem var hugmyndaríkur og lífsglaður lést fyrir fáum misserum, en það voru börn hans sem létu hreinsa upptökurnar og setja á stafrænt form. Unnar Ingvarsson skjalavörður sagði hér um efni að ræða sem mikill fengur væri að og stefnt yrði að því að gera þetta góða safn öllum aðgengilegt.