Í sviðsljósinu Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir við fjölmiðla í kjölfar afhendingar undirskriftanna.
Í sviðsljósinu Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræðir við fjölmiðla í kjölfar afhendingar undirskriftanna. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Aðstandendur vefsíðunnar kjosum.is afhentu í gær Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, lista með nöfnum þeirra 37.

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Aðstandendur vefsíðunnar kjosum.is afhentu í gær Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, lista með nöfnum þeirra 37.488 Íslendinga sem skrifað höfðu undir yfirlýsingu þar sem forsetinn er hvattur til þess að synja nýsamþykktum lögum um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum ríkisins staðfestingar, og vísa þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu. Um var að ræða undirskriftir sem borist höfðu fyrir klukkan 10 síðastliðinn fimmtudag. Einnig var Ólafi fenginn í hendur minnislykill með nöfnun þeirra sem bættust í hópinn, eða til kl. 10 í gærmorgun. Alls voru því um 41 þúsund undirskriftir afhentar.

Vildu stærra úrtak

Nokkur styr hefur staðið um undirskriftasöfnunina, og það meðal annars gagnrýnt að fólk geti ekki athugað hvort það hafi verið skráð. Brugðið var á það ráð að fá óháða aðila til þess að samkeyra undirskriftalistann með þjóðskrá annars vegar, og hins vegar að hringja í slembiúrtak fólks af listanum. Hundrað manns voru í úrtakinu, en vonir höfðu staðið til að hægt yrði að hringja í 800 manns. Að sögn Frosta Sigurjónssonar, eins aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar, gafst hins vegar ekki tími til þess. Af þeim 74 sem svöruðu staðfestu 69 það að hafa kosið, eða 93,2%. Þá var það skoðað hversu margar kennitölur voru skráðar frá hverri IP-tölu, en þegar tölvur tengjast netinu fá þær slíkri tölu úthlutað. Í sumum tilfellum, geta hins vegar margar tölur verið „á bak við“hverja IP-tölu, en 1,8 kennitölur voru skráðar af hverri. Að prófunum loknum fækkaði undirskriftum um 187.

Hópurinn ræddi aðferðafræðina við forsetann, og farið var yfir hugsanlega vankanta á framkvæmdinni. „Við ræddum kosti og galla og þær takmarkanir sem við bjuggum við, og hann sýndi því bæði skilning og áhuga,“ segir Frosti. „Ég heyrði ekki á honum að hann væri að velta fyrir sér 10 atkvæðum til eða frá, heldur horfir hann á stóru tölurnar. Hann var ekki tortrygginn heldur hafði hann áhuga á að skilja hvers vegna við völdum þessa aðferðafræði. Þegar við skildum við hann hafði hann mjög góðan skilning á þessu og hafði spurt alls sem hann vildi.“

FORSETI ÍSLANDS

Sýnir ekki á spilin

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir málið erfitt og flókið. Alþingi hafi fjallað um málið vikum og mánuðum saman, og því eðlilegt að hann taki sér nokkurra daga umþóttunartíma. Hann lét ekkert uppi um áform sín á fundinum í gær.

„Hann gefur ekkert upp um það,“ sagði Jón Helgi Egilsson, einn aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar og einn þeirra sem ræddu söfnunina við forsetann. „Hann tekur sér einhvern tíma í það að íhuga þetta, enda stórt og mikilvægt mál. Þjóðin hefur brugðist þannig við að á innan við viku hafa safnast yfir 40 þúsund undirskriftir,“ segir Jón Helgi Egilsson. Ljóst sé að þjóðin vilji eiga lokaorðið.