Svalur Einar Baldvin á heimili sínu í Los Angeles. Hann hefur lokið námi í tilraunakenndri teikni- og hreyfimyndagerð í CalArts.
Svalur Einar Baldvin á heimili sínu í Los Angeles. Hann hefur lokið námi í tilraunakenndri teikni- og hreyfimyndagerð í CalArts. — Ljósmynd/Jovanna Rebecca Tosello
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Stutt-teiknimyndin Catatonic eftir Einar Baldvin Árnason var í upphafi mánaðar tekin til sérstakrar umfjöllunar á vefnum Cartoon Brew sem helgaður er teikni- og stuttmyndum og fréttum úr þeim geira kvikmynda og mun sá vefur vera mikilvægur í þeim geira. Um myndina segir m.a. á vefsíðunni að aðdráttarafl hennar megi þakka djarfri notkun á úrklippu-teiknimyndastíl og þá sérstaklega undir lok myndar, þar sem barn bregst með krampakenndum hætti við áreiti. Catatonic er lokaverkefni Einars við hinn þekkta lista- og hönnunarháskóla CalArts í Kaliforníu, en hann lauk námi nýverið við deild sem nefnist Experimental Animation, eða tilraunakennd hreyfimyndagerð.

„Catatonic fjallar um geðveiki, misnotkun á valdi, kynferðislega brenglun og flennistóra flugu,“ svarar Einar, spurður að því um hvað myndin fjalli. Vinnslan á myndinni hafi tekið sjö mánuði, frá skrifum til lokahljóðvinnslu. „Myndin er að

miklu leyti handunnin en allar teikningar voru gerðar með pastelkrít en síðan settar saman í tölvu. Ég hef sýnt hana töluvert og hún hefur

alltaf vakið mikil viðbrögð en nýlega var hún valin til þess að vera

fulltrúi skólans á kvikmyndahátíð í Argentínu. Áður en ég vann að Catatonic eyddi ég tveimur og hálfu ári í gerð Moon Into Blood, einnig á meðan á náminu stóð. Hún er unnin á svipaðan hátt nema hvað hún er lituð í tölvu,“ segir Einar.

Disney stofnaði skólann

-Þú varst að læra við deildina Experimental Animation í CalArts sem tengist Walt Disney-fyrirtækinu, ekki satt? Hvernig nám er þetta? Geturðu lýst því hvernig það er uppbyggt?

„Walt Disney sjálfur stofnaði skólann með áherslu á það að allar listgreinar yrðu undir sama þaki en skólinn tengist fyrirtækinu ekki beint nema að því leyti að þeir hafa áhuga á nemendum, styrkja suma til náms og skoða verk nemenda. Disney sjálfur lést áður en skólinn var opnaður en hann hafði víst í hyggju að kenna við hann. Námið í Experimental Animation-deildinni er nokkuð frjálslegt enda nær hugtakið „experimental animation“ yfir marga, mismunandi hluti. Það eru fáir skylduáfangar en margir valáfangar sem maður getur tekið í öðrum deildum og því byggt upp námið eftir eigin höfði. Ég tók t.d. marga áfanga í Character Animation-deildinni sem er hefðbundnari teiknimyndakennsla þar sem menn skemmta sér helst við það að horfa á gömlu Disney-myndirnar, ramma fyrir ramma.“

Stefnir á Íslandsmeistaratitil

-Þú ert að vinna sjálfstætt við teiknimyndagerð núna og ert að vinna að mynd um hnefaleikamann. Hvers konar mynd er það og hvaða tækni beitirðu við gerð hennar? Hún er væntanlega teiknimynd?

„Ég veit ekki ennþá nákvæmlega hver áherslan í myndinni er því ég er að vinna rannsóknarvinnu eins og er, m.a. með því að ræða við fólk og finna áhugaverðar sögur og svo með því að gera allskyns prufur. Myndin verður handteiknuð.“

-Þú hefur æft hnefaleika til að öðlast skilning á íþróttinni og ætlar þér að keppa í þeim. Er þetta ekki óvenjulegur undirbúningur fyrir teiknimynd?

„Jú, flestir myndu láta sér nægja að horfa á það sem þeir vilja gera mynd um, t.d. með því að fara í dýragarð og horfa á ljón eða eitthvað álíka. Slík nálgun nægir mér ekki því ég vil aðeins gera hluti ef ég get ég gert þá eins vel og mögulegt er.

Teiknimyndir byggjast á því að hafa skilning á því sem maður er að túlka hvort sem það eru hreyfingar eða hugarfar. Sá sem gerir teiknimyndir er einnig leikari nema hvað hann teiknar í stað þess að leika á sviði eða fyrir framan myndavél. Ég get því varla gert góða teiknimynd um hnefaleika nema upplifa þá sjálfur. Ég stefni vissulega á að keppa og gott betur en það, ég ætla mér að verða Íslandsmeistari í þungavigt ásamt því að keppa í Suður-Kaliforníu þegar nær dregur hausti.“

Vill vinna að eigin hugmyndum

-Hverjar eru framtíðaráætlanirnar, ætlar þú að vinna sjálfstætt eða reyna að komast á samning hjá fyrirtæki sem framleiðir teiknimyndir?

„Ég vil vinna að eigin hugmyndum eða með fólki sem að ég ber virðingu fyrir, mér er sama hvernig framleiðsluumhverfið er, þ.e hvort það er innan stórs eða lítils fyrirtækis eða í bílskúr einhvers staðar svo lengi sem um er að ræða metnaðarfulla og áhugaverða vinnu.“

Catatonic má finna á vef Einars, einarbaldvin.com. Moon into Blood má finna á slóðinni vimeo.com/user1459291.