Fagnar Sveinbjörn Pétursson á stuttbuxunum umtöluðu fagnar innilega sigri Akureyringa á FH í bikarnum síðasta mánudagskvöld.
Fagnar Sveinbjörn Pétursson á stuttbuxunum umtöluðu fagnar innilega sigri Akureyringa á FH í bikarnum síðasta mánudagskvöld. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markmenn Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Þeir sem hafa séð til karlaliðs Akureyrar í handbolta nú eftir áramótin hafa eflaust tekið eftir því að Sveinbjörn Pétursson, markvörðurinn snjalli, hefur staðið á milli stanganna berleggjaður.

Markmenn

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Þeir sem hafa séð til karlaliðs Akureyrar í handbolta nú eftir áramótin hafa eflaust tekið eftir því að Sveinbjörn Pétursson, markvörðurinn snjalli, hefur staðið á milli stanganna berleggjaður. Sveinbjörn hefur valið að kasta af sér klæðum og í stað þess að vera í síðbuxum í rammanum er hann í stuttbuxum og er óhræddur að mæta skotmönnum andstæðinganna þannig búinn.

Leikur sama leik og Hjalti og Óli Ben.

Þeir sem eru komnir til ára sinna minnast þess að Hjalti Einarsson, sem garðinn frægan með FH og íslenska landsliðinu á árum áður, átti það til að verja markið klæddur í stuttbuxur sem og Valsmaðurinn og landsliðsmaðurinn Ólafur Benediktsson og Eyjamaðurinn Sigmar Þröstur Óskarsson þegar hann lék með ÍBV og Stjörnunni.

Fólki, sumu hverju allavega, brá örugglega í brún þegar það sá Sveinbjörn hlaupa inn á völlinn í stuttbuxunum enda afar sjaldgæf sjón að sjá handboltamarkverði nú til dags spila nema í síðbuxum. En hvað varð til þess að Sveinbjörn ákvað að taka upp á því að spila berleggjaður?

Í stuttum á æfingum

„Í fyrsta leiknum eftir HM-fríið þegar við tókum á móti Val ákvað ég að slá til og spila í stuttbuxunum. Ég er yfirleitt í stuttbuxum á æfingum og mig langaði til prófa að gera það í leik. Það gekk fínt svo ég hef haldið mig við stuttbuxurnar síðan. Mér finnst ég vera léttari á mér, er frjálsari og líður bara betur. Ég hef fengið skot í lærin en í hita leiksins finnur maður ekkert fyrir þeim,“ sagði Sveinbjörn við Morgunblaðið í gær en fáir efast um að hann hafi leikið best allra markvarða á Íslandsmótinu.

„Mér finnst bara fínt að vera sá markvörður sem hefur tekið það upp aftur að spila í stuttbuxum. Það væri ekki gaman ef allir væru eins. Á meðan þetta gengur svona vel sé ég enga ástæðu til að fara aftur í síðbrækurnar,“ sagði Sveinbjörn.

Sveinbjörn segist ekki hafa séð neinn markvörð á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Svíþjóð sem spilaði í stuttbuxum. „Ég hef séð markvörð spila í stuttbuxum, Þjóðverjann Chrischa Hannawald. Hann tók sig vel út í þeim.“

Sveinbjörn er í láni hjá Akureyrarliðinu frá HK en hann er samningsbundinn Kópavogsliðinu út næstu leiktíð. Spurður hvað taki við hjá honum eftir þetta tímabil sagði Sveinbjörn: „Ég hugsa sem allra minnst um það. Ég tek bara einn leik í einu og sé svo bara til hvað verður.“