Gústaf Adolf Skúlason
Gústaf Adolf Skúlason
Eftir Gústaf Adolf Skúlason: "Grundvöllur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu hefur frá öndverðu verið í sjálfheldu vegna eina stefnumáls ríkisstjórnarinnar."

Verði Icesave-krafa Breta og Hollendinga lögleidd á Íslandi eins og meirihluti þingmanna vill, verður ekki ofan af samningnum snúið. Ný ríkisstjórn gæti ekki breytt samningi eftir á eins og t.d. hefði verið hægt gagnvart fjölmiðlalögunum með einfaldri lagabreytingu á Alþingi. Þetta hafa mætir menn eins og Björn Bjarnason fyrrv. dómsmálaráðherra bent á.

Núverandi staða Icesave-málsins er sönn birtingarmynd þess ákvæðis stjórnarskrárinnar, sem kveður á um að við mikilvægar breytingar skuli kosið til Alþingis í millitíðinni, svo þjóðin fái tækifæri til að skipta út þingliði og tryggja þannig vilja þjóðarinnar í málinu. Það er eitt af ólánseinkennum Icesave-deilunnar, að sama ríkisstjórnin reynir enn á ný að keyra í sama farinu eftir að tveir þriðju hluta þjóðarinnar hafa hafnað aðkomu hennar að málinu með afgerandi hætti.

Grundvöllur og nálgun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í Icesave-málinu hefur frá öndverðu verið í sjálfheldu vegna eina stefnumáls ríkisstjórnarinnar: að láta Ísland ganga í ESB. Þetta stefnumál hefur stjórnað aðkomunni að Icesave. Ekki hefur mátt styggja kröfuhafa, sem eru með ákvörðunarvald í sínum höndum um hverjum verður veitt heimild til þátttöku í ESB. Ríkisstjórnin er þannig beinn aðili málsins á grundvelli stjórnmálastefnu sinnar og þar af leiðandi vanhæf til að leiða Icesave til lykta fyrir landsmenn.

Landsmenn hafa á afdráttarlausan hátt sýnt vilja sinn. Það er óviðunandi að ríkisstjórnin komi enn eina ferðina með málið, sem þjóðin hafnaði. Slíkt er reyndar siður ESB, að ekki hlíta úrskurði þegna sinna, heldur reyna og reyna enn á ný að koma sínum málum að, þrátt fyrir að þegnarnir vilji eitthvað allt annað. Þess ber þar að gæta, að þar eru þegnarnir ekki að fást við lýðræðislega kjörna fulltrúa sína, sem hægt er að skipta út í lýðræðislegum kosningum, heldur skipaða embættismenn, sem eru engu valdaminni en embættismenn Friðriks sjöunda Danakonungs forðum. Friðrik kom á fullveldi þegna sinna og eyddi guðlegum völdum embættismannanna en ekki er við því að búast, að framkvæmdastjórn ESB fylgi því fordæmi.

Hugurinn er hjá forseta vorum. Hann þarf einn að axla þá óheyrilegu og stóru ábyrgð að velja milli ákvörðunar Alþingis í annað sinn og frelsis- og lýðræðisleitar þjóðar sinnar. Ef einhver hefur léð fjallkonuninni okkar rödd er það hin áttræða Guðrún, sem hringdi í Útvarp Sögu og lýsti tilfinningum sínum í málinu á svo eftirminnilegan hátt, að seint mun gleymast. Boðskapur hennar var skýr:

„Ég hef aldrei upplifað annað eins á minni áttatíu ára ævi. Ég er búin að leggja fyrir mína afkomendur að koma sér í burtu og helmingurinn af þeim er þegar farinn. Ef eftir gengur, að þingmenn vogi sér að fylla út óútfylltan víxil fyrir komandi framtíð – börnin okkar, þá óska ég eftir að hin fari, því ég á ekki það mikið eftir sjálf.“

Guðrún er ekki ein. Samstaða þjóðar gegn Icesave hefur í alvöru hafist og yfir 40 þúsund manns hafa á örfáum dögum hlýtt kallinu með því að heita á forsetann að gefa þjóð sinni vald til eigin ákörðunar.

Guð blessi forsetann, Guðrúnu og alla aðra þegna Íslands, sem eiga það eitt skilið, að málstaður þeirra sé varðveittur í höndum þeirra.

Höfundur er smáfyrirtækjarekandi og er fyrrverandi ritari Evrópubandalags smáfyrirtækja.

Höf.: Gústaf Adolf Skúlason