Líf Magneudóttir
Líf Magneudóttir
Eftir Líf Magneudóttur: "Öðru máli gegnir um konur því skotveiðileyfi hefur verið gefið út á þær því þær eru skepnur og annars flokks."

Formaður Samtaka iðnaðarins fékk birta eftir sig grein í Morgunblaðinu 16. febrúar þar sem hann hnýtir í umhverfisráðherra. Sér hann reyndar sérstaka ástæðu til þess að taka það fram að það sé gert án þess að hann hafi ráðfært sig við félagsmenn sína. Miðað við útkomuna hefði hann e.t.v. átt að gera það því hinn ódýri orðaleikur sem birtist í fyrirsögn Helga er nefnilega afar ósmekklegur sem virðist ekki hafa annan tilgang en að lítillækka umhverfisráðherrann og er manni í stöðu Helga ekki sæmandi.

Það virðist vera segin saga að tekið er á kvenkyns stjórnmálamönnum með öðrum hætti en karlkyns. Ég minnist þess a.m.k. ekki að hafa séð því haldið fram á prenti að karlar í stjórnmálastétt séu einhverrar annarrar gerðar en mennskir. Öðru máli gegnir um konur því skotveiðileyfi hefur verið gefið út á þær því þær eru skepnur og annars flokks.

Þrátt fyrir að formaður Samtaka iðnaðarins hafi ekki ráðfært sig við félagsmenn sína hefur hann vonandi gefið sér tíma til þess að lesa dóminn sem hann gagnrýndi í grein sinni. Sá lestur gefur að mínu viti skýrlega til kynna að full ástæða hafi verið til þess að draga í efa lögmæti ákvörðunar Flóahrepps. Það þarf að vanda vel til verka við undirbúning stórra framkvæmda sem geta haft varanleg áhrif á landið okkar. Ef það ríkir lagaleg óvissa þarf að eyða henni. Í því ljósi get ég ekki komist að annarri niðurstöðu en að sú ákvörðun umhverfisráðherra, að fá úrskurð dómstóla, hafi verið í alla staði eðlileg.

Hún er að minnsta kosti ekki með þeim hætti að hún kalli á uppnefni og svívirðingar. Eins mætti spyrja Helga hvort hann hafi á sínum tíma, þegar mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp sinn dóm í iðnaðarmálagjaldinu, þurft að sitja undir svívirðingum í fjölmiðlum með sama hætti og umhverfisráðherra gerir nú, þótt hann hafi kostað fyrirtæki og skattborgara skildinginn. Hefðu menn þá átt að skrifa blaðagreinar með fyrirsögninni: „Helgi er rándýr“?

Höfundur er vefstjóri í fæðingarorlofi.