— Morgunblaðið/Ómar
Vinnumálastofnun býður atvinnuleitendum margvíslega þjónustu og finna má upplýsingar þar um á vef stofnunarinnar, www.vinnumalastofnun.is.

Vinnumálastofnun býður atvinnuleitendum margvíslega þjónustu og finna má upplýsingar þar um á vef stofnunarinnar, www.vinnumalastofnun.is.

Þar segir að þjónustuskrifstofur aðstoði fólk við leit að starfi og þar sé hægt að nálgast upplýsingar um laus störf um allt land. Boðið sé upp á aðstoð við gerð atvinnuumsóknar og ferilskrár, eða undirbúning fyrir starfsviðtal ef þess sé óskað.

Ferilskráin mikilvæg

Mikilvægt er talið að sá sem er að leita að vinnu hafi útbúið skýra og vandaða ferilskrá til að láta fylgja með umsóknum, enda er slík ferilskrá það fyrsta sem mögulegur vinnuveitandi sér frá umsækjanda. Sé ferilskráin ófullnægjandi eru allar líkur á að hún sé það eina sem þessi vinnuveitandi mun sjá frá þessum atvinnuleitanda, enda oftast margir um hituna og ófullnægjandi ferilskrá verður þá til þess að umsækjandi á nánast enga möguleika, hversu hæfur sem hann er.

Á þjónustuskrifstofum eru starfandi náms- og starfsráðgjafar, sem aðstoða við starfsval og nám, auk þess að veita almenna ráðgjöf og aðstoð við atvinnuleit.