Noregur Guðmundur Kristjánsson reynir fyrir sér hjá Brann.
Noregur Guðmundur Kristjánsson reynir fyrir sér hjá Brann. — Morgunblaðið/Eggert
Guðmundur Kristjánsson, miðjumaður úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks í knattspyrnu, verður til skoðunar hjá norska úrvalsdeildarliðinu Brann í næstu viku.

Guðmundur Kristjánsson, miðjumaður úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks í knattspyrnu, verður til skoðunar hjá norska úrvalsdeildarliðinu Brann í næstu viku. Guðmundur heldur til Bergen á morgun og mun síðan fara í æfinga- og keppnisferð með Brann til La Manga á Spáni og taka þátt í tveimur leikjum með liðinu.

„Hann er einn hæfileikaríkra leikmanna á Íslandi og við höfum góða reynslu af íslenskum leikmönnum hjá Brann. Hann er á þeim aldri sem hentar okkar liði og gæti passað vel inn á miðjuna,“ segir Odd Einar Fossum, framkvæmdastjóri Brann, á vef félagsins.

Guðmundur er 21 árs gamall kraftmikill og sterkur miðjuspilari sem hefur átt fast sæti í Blikaliðinu undanfarin ár. Hann er í 21 árs landsliðinu sem tekur þátt í úrslitakeppni EM í sumar og þá hefur hann fjórum sinnum fengið að spreyta sig með A-landsliðinu.

Einn Íslendingur er á mála hjá Brann, Birkir Már Sævarsson, sem í vikunni framlengdi samning sinn við liðið til ársins 2013,en á tímabili voru fimm íslenskir knattspyrnumenn sem léku á sama tíma með liðinu, Birkir Már, Ólafur Örn Bjarnason, Ármann Smári Björnsson, Kristján Örn Sigursson og Gylfi Einarsson.

gummih@mbl.is