Guðríður Anna Guðjónsdóttir fæddist á Nýlendi í Deildardal í Skagafjarðarsýslu 4. febrúar 1920. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 12. febrúar 2011. Foreldrar hennar voru hjónin Guðjón Jóhannsson, f. 10. ágúst 1887, d. 27. júní 1972, og Ingibjörg Sveinsdóttir, f. 26. nóv. 1887, d. 6. sept. 1954. Systkini Guðríðar; Fanney, f. 19. sept. 1916, d. 17. sept. 1937, Jóhann, f. 17. nóv. 1917, d. 30. nóv. 1984, Sveinn, f. 8. mars 1922, d. 18. júlí 1946, Þorkell, f. 26. febr. 1924, og Svanhildur, f. 12. febr. 1926.

Hinn 17. apríl 1954 giftist Guðríður Geirmundi Jónssyni frá Grafargerði, f. 19. júlí 1912, d. 12. mars 1999. Synir þeirra eru; 1) Sveinn, vélstjóri, f. 29. nóv. 1953, eiginkona Anna Sigurveig Pálsdóttir, þau eiga tvö börn, Sigurpál Geir og Guðríði. Fyrir átti Sveinn Sigurjón Geir. 2) Jón pípulagningameistari, f. 16. júlí 1956, eiginkona Anna Björk Arnardóttir, þau eiga þrjá syni, Örn Friðhólm, Tjörva Geir og Sævar Hlyn. 3) Guðjón Ingvi læknir, eiginkona Halla Kristín Tulinius, þau eiga fjögur börn; Önnu Nidiu, Agnesi Yolöndu, Otto Fernando og Helgu Sóleyju. Fyrir átti Geirmundur, 1) Ernu, f. 23. júlí 1939, maki Einar Jóhannsson, f. 1933, d. 1999. Þeirra börn, Sveinn, Hólmgeir, Einar Örn og Sigurlaug, 2) Vilhjálm Hólm, f. 19. des. 1943, sambýliskona Freygerður S. Jónsdóttir, dóttir Vilhjálms, Hulda.

Guðríður ólst upp á Nýlendi og gekk í barna- og unglingaskóla á Hofsósi. Hún lærði ung fatasaum á Siglufirði. Mikill samgangur var á milli heimilanna í Nýlendi og Grafargerði og nokkru eftir að Geirmundur missti fyrri konu sína hófu þau sambúð, fyrst í Nýlendi og síðar á Hofsósi. Þar fæddust synir þeirra þrír. Vilhjálmur ólst einnig upp hjá þeim. Fjölskyldan flutti síðan yfir á Sauðárkrók 1966. Eftir að þau Geirmundur giftust 1954 helgaði Guðríður sig heimili og uppeldi. Börn hændust að henni og oft var margt um manninn hjá Guðríði. Bæði á Túngötunni á Hofsósi og á Hólmagrundinni á Sauðárkróki þar sem börn nágrannanna urðu heimagangar og barnabörnin áttu öruggt skjól. Guðríður varð þeirrar gæfu aðnjótandi að geta búið heima allt fram í andlátið.

Útför Guðríðar verður frá Sauðárkrókskirkju í dag, 19. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma, þá er komið að kveðjustund. Ótal minningar streyma fram í hugann á þessari stundu. Þegar þið pabbi fóruð að búa helgaðir þú þig uppeldi okkar bræðra og heimilinu. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur. Lítill drengur á Hofsósi kom heim, blautur upp fyrir haus, var að vaða í ánni en datt. Þú tókst á móti stráksa, sagðir ekki margt en klæddir hann úr blautum spjörunum og í þurrt. Svona heimkomur voru algengar, fötin rifin og óhrein, því margt var brallað en alltaf hægt að koma heim, í öruggt skjól. Helga frænka, sem passaði mig stundum, sagði að ef ég var spurður að nafni hefði ég sagst heita Jón Gujuson Geirmundsson, sem sýnir vel hversu mikill mömmustrákur ég var. Árið 1966 fluttum við á Krókinn. Það var erfitt fyrir 10 ára strák að skilja við alla vini sína á Hofsósi. Það virtist vera mun lengra á milli þessara staða þá en nú og ekki mikið ferðast. En þú varst alltaf til staðar fyrir drenginn þinn þegar heimþráin heltók hann. Árin liðu, drengurinn hennar mömmu varð unglingur og síðar fullorðinn. Þegar við Anna Björk tókum saman átti hún árs gamlan strák, Örn Friðhólm. Í fyrstu heimsókn þeirra mæðginanna á Hólmagrundina tókst þú Erni opnum örmum og hann varð þitt barnabarn upp frá þeim degi. Síðar eignuðumst við Tjörva Geir og Sævar Hlyn. Þeir hændust fljótt að þér eins og öll börn sem til þín komu. Við Anna og strákarnir þökkum þér fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur. „Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.“

Jón, Anna Björk, Örn,

Tjörvi og Sævar.

Elsku amma. Nú ert þú farin frá okkur en til afa Geirmundar. Við tengjum alltaf Sauðárkrók við húsið á Hólmagrundinni, húsið ykkar afa þar sem við munum ávallt minnast þín. Það var alltaf jafn gott að koma í heimsókn til þín. Þegar við vorum yngri nutum við okkar alltaf hjá ömmu að leika með dótið hennar inni í stofu; púslin, spilin, dýrin, kubbana og að lita í litabækurnar. Upp á síðkastið hefur það verið Helga Sóley sem lék með dótið á meðan við eldri börnin þín spjölluðum við þig eða létum fara vel um okkur við lestur bóka eða við að teikna. Ekki síst munum við minnast áhuga þíns á íþróttum. Það voru margir handboltaleikirnir sem við horfðum á með þér í sjónvarpinu. Þú varst alltaf jafn áhugasöm og spennt yfir gangi leiksins. Það hefur líka alltaf verið vinsælt að leika í garðinum þínum og rólan góða verið mikið notuð. Alltaf máttum við fá okkur rabarbara. Þegar við komum inn fengum við vænan skammt af sykri í skál hjá þér amma mín til að dýfa honum í. Þú varst alltaf indæl og hlý manneskja, elsku amman okkar. Anna Nidia er stolt af að bera Önnunafnið þitt. Við eigum margar góðar og hlýjar minningar um þig sem við varðveitum í hjörtum okkar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Hvíl þú í friði.

Anna Nidia, Agnes

Yolanda, Otto Fernando og Helga Sóley.

Sestu hérna hjá mér,

systir mín góð.

Í kvöld skulum við vera

kyrrlát og hljóð.

Í kvöld skulum við vera

kyrrlát og hljóð.

Mamma ætlar að sofna,

systir mín góð.

(Davíð Stefánsson)

Hún Guja systir mín kvaddi lífið á friðsælan hátt, en þannig hafði hún lifað því alla tíð. Hún hafði átt við veikindi og þrekleysi að stríða nokkur undanfarin ár. Það fyrsta sem kemur í hugann þegar ég minnist samskipta okkar er þakklæti. Ég var ung að árum er ég hóf minn búskap og barneignir full af bjartsýni, en fákunnandi um margt sem viðkom heimilishaldi. Þar kom hún systir mín til hjálpar ásamt okkar góðu móður. Fallegu sparifötin á elstu börnin mín saumaði hún og meira en það, hún dekraði við þau á allan hátt. Guja var á Siglufirði nokkra vetur og lærði þar kjóla- og kápusaum sem hún starfaði við þegar heim var komið að Nýlendi, en þar var hún öll sumur. Í eðli sínu var Guja náttúrubarn sem vildi helst vinna útivið, t.d. við heyskapinn, einnig hafði hún gaman af að fara á hestbak og gönguskíði.

Guja giftist Geirmundi Jónssyni frá Grafargerði. Í nokkur ár bjuggu þau þau hjónin á Hofsósi þar sem Geirmundur var kaupfélagsstjóri. Húsið sem þau bjuggu í var stórt og varð fljótt draumastaður barna í næsta nágrenni. Í augum barna var þetta ævintýrahús. Herbergin voru mörg og ótal skápar þar sem hægt var að fela sig. Guja hafði ótrúlegt umburðarlyndi gagnvart börnum á öllum aldri, hún talaði þau til, leysti vandamálin og sagði þeim sögur. Hún var mamman sem var heima, þá með unga syni sína. Þegar synir hennar voru litlir var ég svo heppin að eiga barnfóstrur sem gættu þeirra. Þegar þau hjónin fluttu til Sauðárkróks byggðu þau sér gott hús á Hólmagrund 24. Þangað var gott að koma og þar hefur Guja búið æ síðan, en 12 ár eru síðan Geirmundur lést.

Um miðbik ævinnar veiktist hún af slæmum astma og ofnæmi sem háði henni mjög. Urðu þessi veikindi til þess að hún dró sig í hlé frá félagsskap og mannamótum. Þegar ný og betri lyf komu fór henni að líða betur en þá fór líkaminn að gefa sig en hugurinn var skýr og hreinn. Hún hafði skoðanir á hlutunum en var ekki alltaf að deila þeim með öðrum, hún sagði fátt en hugsaði margt. Hún undi sér við lestur bóka og blaða. Það sem hún las gat hún vitnað í löngu seinna. Eins var með sjónvarp, hún mátti helst ekki missa af íþróttaþáttum, það gat verið að hún kannaðist við einhvern sem var henni tengdur.

Áður en heilsan fór að bila naut hún þess að vinna í garðinum við húsið og þaðan held ég að margir muni hana. Hún naut þess líka að ganga í fjörunni og horfa yfir til æskuslóðanna handan fjarðar.

Þar kom að hún fór að þiggja þjónustu frá Heilbrigðisstofnuninni. Allir sem önnuðust þessa þjónustu urðu vinir hennar og var hún þeim mjög þakklát. Þessi þjónusta gerði henni kleift að búa á heimili sínu alla tíð. Guja átti góða fjölskyldu sem hugsaði vel um hana og hún naut þess að fylgjast með öllu sínu fólki og var stolt af því.

Ástvinum sendi ég samúðarkveðjur.

Svanhildur Guðjónsdóttir.

Lokið er vöku langri

liðinn er þessi dagur.

Morgunsins röðulroði

rennur upp nýr og fagur.

Miskunnarandinn mikli

metur þitt veganesti.

Breiðir út ferskan faðminn

fagnandi nýjum gesti.

(Hákon Aðalsteinsson)

Hún Guja frænka okkar hefur lokið jarðvist sinni.

Við systkinin minnumst hennar með þakklæti, fyrir umhyggju á æskudögum okkar og góða vináttu á fullorðinsárum. Til hennar var alltaf gaman að koma.

Guja hafði einstaklega skarpa og skýra hugsun og það var gaman að spjalla við hana um menn og málefni líðandi stundar og liðna tíð. Einnig hafði hún brennandi áhuga á íþróttum og gladdist þegar vel gekk hjá hennar liði, Tindastóli. Þá fylgdist hún líka vel með gangi barnabarna sinna og sagði stolt frá.

Mæt kona er fallin frá, blessuð veri minning hennar.

Við sendum ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur.

Ingi, Helga, Fanney,

Þórdís og Ingibjörg Rósa.