[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Sigurbjörn Þorgrímsson fæddist í Reykjavík 24. febrúar 1976. Hann lést 7. febrúar 2011.

Útför Sigurbjörns var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík 18. febrúar 2011.

Elsku yndislegi Bjössi okkar. Hvað getur verið erfiðara en að kveðja son sinn í hinsta sinn, þennan einstaka ljúfling og gleðigjafa sem öllum vildi vel. Þetta getur ekki verið satt, að við eigum aldrei aftur eftir að heyra rödd þína og hláturinn, faðma þig og kyssa létt á kinn. Sorgin nístir og tómið er heldjúpt. Við vildum bara segja þér Bjössi að við elskum þig meira en orð fá lýst og við vonum að þér líði betur í ljósinu þar sem þú ert núna. Því viljum við trúa okkar ástkæri sonur.

„Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan. Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“

(Khalil Gibran)

Hvíl í friði.

Mamma og pabbi.