Bylgja Björnsdóttir
Bylgja Björnsdóttir
Eftir Bylgju Björnsdóttur: "Markmið ráðamanna virðist vera að útrýma millistéttinni og menntafólki."

Í október síðastliðnum skrifaði ég ykkur ráðherrum og þingmönnum uppsagnarbréf sem skattborgari þessa lands en þið hafið þrjóskast við og eruð enn að störfum. Hvernig stendur á því? Á meðan skattar og önnur gjöld eru lögð á fólkið endalaust og niðurskurðarhnífnum beitt ótæpilega hækka launin ekki neitt, heldur dragast bara saman. Mér finnst orðið skuggalegt hvað landið líkist æ meir Kambódíu á tímum Rauðu kmeranna. Rauðu khmerarnir voru kommúnískir skæruliðar í Kambódíu sem náðu völdum í landinu árið 1975 undir forystu Pol Pots. Markmið þeirra var að koma á kommúnísku bændasamfélagi en hafði þær skelfilegu afleiðingar að fjórðungur íbúa Kambódíu dó úr harðræði, hungri og vosbúð eða var tekinn af lífi. Pol Pot lýsti því yfir þegar hann hafði tekið völdin að nú væri árið 0 runnið upp og að hreinsa ætti samfélagið af allri óværu. Þeim sem þóttu óæskilegir í hinu nýja samfélagi var útrýmt. Í hópi þeirra voru menntamenn, læknar, kennarar, sjúkir, aldraðir, lögreglumenn og fleiri.

Er þetta ekki bara lýsing á Íslandi í dag? Markmið ráðamanna virðist vera að útrýma millistéttinni og menntafólki. Ríkisstjórnin hefur skorið ótæpilega niður í heilbrigðiskerfinu þannig að t.d. læknar streyma úr landi til að leita sér að nýjum störfum. Sveitarstjórnir hafa gert það sama við skólakerfið undanfarin ár og framundan er enn meiri niðurskurður. Þróunin er því alveg skelfileg.

Í Reykjavík t.d. er talað um sameiningu skóla og leikskóla og þar með er unnið gegn faglegu starfi á þessum stöðum. Niðurskurðurinn býður upp á fjölgun í bekkjum, færri kennslustundir, list- og verkgreinar minnka og sérkennslan. Hvernig á kennari að fara að því að kenna 30 manna bekk og veita öllum menntun við hæfi, því skólakerfi okkar er jú „skóli án aðgreiningar“. Það sér hver heilvita maður að þetta er ekki hægt en samt virðast borgar-, bæjar- og sveitarstjórnarmenn ekki sjá þetta. Hvað um alla yfirbyggingu stjórnsýslunnar? Er hún nauðsynleg? Hvernig stendur á því að laun kennara og leikskólakennara eru miklu lægri en laun þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa? Við sem störfum sem kennarar, hvort sem er í grunn- eða leikskóla, erum að vinna með það dýrmætasta sem fólk á, börnin ! Hvernig væri að laun ráðamanna væru lækkuð niður í kennaralaun og þau hækkuð að sama skapi? Eflaust brygði þeim í brún að þurfa að lifa af um 200 þús. kr. á mánuði.

Slagorðinu „Nýtt Ísland“ hafa ráðamenn haldið ótæpilega á lofti en hvað þýðir það eiginlega? Rauðu khmerarnir fluttu fólkið úr borgunum út í sveit og létu það þræla á hrísgrjónaökrum og launin voru 90 g af hrísgrjónum á dag! Þetta er kannski það sem stefnt er að hér á landi? Það þarf ekkert menntakerfi til að mennta fólkið til slíkra starfa og ef fólk veikist er það bara látið veslast upp og deyja og því þarf ekki að halda uppi heilbrigðiskerfi. Þetta virðist vera hið nýja Ísland, rústa mennta- og heilbrigðiskerfið og láta fólkið þræla.

Nú eru kjarasamningar lausir hjá velflestum stéttarfélögum og ekkert gengur að semja um kaup og kjör. Atvinnurekendur segja að ekki sé hægt að hækka launin því að það kalli á verðbólgu sem aftur hækki verð á vörum og öðru. Þetta er því allt hinum venjulega launamanni að kenna, hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu í dag! Og við eigum að sjálfsögðu að bera allar byrðarnar.

Það er komin tími til að ráðamenn hysji upp um sig buxurnar og fari að vinna fyrir fólkið, til þess voruð þið kosin. Hættið þessum sandkassaleik og skítkasti hvert við annað. Þið berið ábyrgð á að skapa þetta umhverfi og viðhalda því og ykkur virðist vera alveg sama um velferð fólksins í landinu. Öll eigum við rétt á mannsæmandi lífi, ekki bara þið. Farið að horfa til framtíðar og lærið í leiðinni af fortíðinni og reynslu annarra þjóða. Setjið fjármuni í það sem skiptir máli, eins og mennta- og heilbrigðiskerfið. Látið nýtt Ísland ekki vera gömlu Kambódíu.

Höfundur er sagnfræðingur, kennari og móðir sem ekur um á gömlum bíl, á ekki flatskjá og hefur alltaf greitt skuldir sínar.