Dæmi eru um að lögreglan sé kölluð á vettvang vegna ósættis foreldra og barna um netnotkun.

Dæmi eru um að lögreglan sé kölluð á vettvang vegna ósættis foreldra og barna um netnotkun. Yfirleitt er staðan sú að börnin eru of mikið í tölvunni að mati foreldranna en börnin vilja auðvitað meina að þeirra netnotkun sé eðlileg, sérstaklega í samanburði við jafnaldrana.

Víkverji þekkir vel af eigin reynslu þessa baráttu. Unglingurinn hans átti til að setja í brýrnar og nota einmitt samanburðinn við jafnaldrana. Allir fengu að vera meira í tölvunni en hann, allir áttu sanngjarnari foreldra, allir höfðu það í raun miklu betra en hann. Baráttan tapaðist eiginlega þegar unglingurinn fékk sína eigin tölvu í framhaldsskóla. Þá brá Víkverji reyndar annað slagið á það ráð að taka beininn (e. router) úr sambandi og sofa með hann í fanginu. Það virkar ágætlega, vanti einhvern góð ráð.

Nú er svo komið að foreldrar sem lenda í þessum deilum við börn sín eru farnir að hóta börnunum því að hringja í lögregluna hætti þau ekki í tölvunni. Víkverji veit sem er að börn og unglingar hlusta ekki á innantómar hótanir og því þýðir ekkert að segja þetta nema gjörðir fylgi orði. Og það er víst tilfellið. Lögreglan kemur þá á staðinn og ræðir við heimilisfólk.

Víkverja finnst þetta svo frábært að hann telur að þarna sem komin góð tekjulind fyrir fjársvelta lögregluna. Getur lögreglan ekki búið til sérstaka deild sem sinnir svona útköllum gegn gjaldi? Svona svipað og sumir setja upp jólasveinaleigur í desember.

Um daginn voru framkvæmdir við hús Víkverja og ekki vildi betur til en svo að skorið var á víra inn í húsið svo allt varð rafmagnslaust og netsambandslaust. Og unglingurinn hringdi í Víkverja. „Hvað á ég að gera?“ spurði unglingurinn. „Lestu bók,“ svaraði Víkverji. „Ég ætla að leggja mig,“ sagði þá unglingurinn eftir nokkra umhugsun.