Icelandair Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Icelandair Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group. — Morgunblaðið/Golli
Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Aukin alþjóðleg samkeppni á flugleiðum milli Norður-Ameríku og Evrópu mun höggva skarð í tekjur Icelandair á þessu ári. Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri samstæðu Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið.

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Aukin alþjóðleg samkeppni á flugleiðum milli Norður-Ameríku og Evrópu mun höggva skarð í tekjur Icelandair á þessu ári. Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri samstæðu Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið. Björgólfur ýjaði að því að þessarar þróunar væri að vænta í kauphallartilkynningu vegna ársuppgjörs félagsins, sem birt var fyrir skömmu. „Framboð á flugleiðum yfir Atlantshafið minnkaði almennt í kjölfar þess að fjármálakreppan gerði vart við sig af alvöru. Við bættum hins vegar í á þessu tímabili, tókum inn leiðina til Seattle 2009 og erum að bæta Washington við núna. Ágæti þeirrar ákvörðunar að draga ekki úr okkar framboði á þessum flugleiðum skilaði sér í uppgjöri síðasta árs,“ segir hann.

Framboð eykst á ný

Björgólfur segir að framboðið á flugleiðum yfir Atlantshafið sé nú aftur að aukast. Það muni skila sér í lægra verði. „Núna eru þegar margir sem fljúga yfir Atlantshafið. Til viðbótar við það mun samkeppni í flugi til Íslands aukast yfir sumartímann. Við reiknum því ekki með öðru en að meðalfargjaldið lækki af þeim sökum.“ Áður hefur komið fram í fréttum að alls 13 flugfélög muni bjóða upp á áætlunarflug til Íslands í sumar. Þetta er náttúrlega algert met og mun að sjálfsögðu hafa einhver áhrif á okkar rekstur,“ segir Björgólfur. Inntur eftir því hvort Íslendingar geti nú horft fram á lægri flugfargjöld, segir Björgólfur erfitt að fullyrða um það.

Icelandair Group birti í síðustu viku uppgjör fyrir árið 2010. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir var sá mesti í sögu félagsins, eða 12,6 milljarðar. Afkoman var vel yfir áætlunum, sem höfðu þó nokkrum sinnum verið uppfærðar til hins hærra á síðasta ári.