Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
Eftir Einar Kristin Guðfinnsson: "„Það er því um tómt mál að tala að öðruvísi verði farið með aflaaukningu en aflaminnkun. Enda augljóst að slíkt fær engan veginn staðist.“"

Óvissan um fiskveiðistjórnunina hefur verið sem lamandi hönd í sjávarútveginum. Menn í greininni hafa haldið að sér höndum, fjárfesting hefur verið í lágmarki og það hefur síðan haft keðjuverkun í för með sér gagnvart öðrum atvinnugreinum. Um það er hægt að nefna mýmörg dæmi. Á meðan þessi óvissa ríkir er þess ekki að vænta að við rjúfum þá efnahagslegu stöðnun sem hér ríkir og veldur atvinnuleysi og verri lífskjörum.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra dró nokkuð úr óvissunni með yfirlýsingu sinni á Alþingi sl. fimmtudag. Þar svaraði hún Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og sagði að ekki hefði verið horfið frá því að fylgja samningaleiðinni svokölluðu sem mikil og breið samstaða varð um í fjölmennum starfshópi á vegum stjórnvalda þar sem sátu fulltrúar allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stjórnmálaflokkanna. Nefndinni var ætlað að móta tillögur um framtíðarfyrirkomulag við stjórn fiskveiða.

Ráðherrann áréttaði þetta enn er hún sagði að tryggt yrði að ekki yrðu farnar kollsteypur í sjávarútveginum. Slík yfirlýsing þarf engrar túlkunar við.

Þessi yfirlýsing forsætisráðherra skiptir máli og hlýtur að teljast stefnumarkandi um það sem koma skal. Hér talar sjálfur forsætisráðherrann.

En hvað felur þessi leið í sér? Í sem skemmstu máli þetta. Fiskistofnarnir eru í þjóðareigu/ ríkisins. Samningur verði gerður um afnotarétt útgerða til tiltekins tíma gegn gjaldi sem renni til eigandans. Þetta er algjörlega samkynja leið og nú virðist breið samstaða um varðandi nýtingu þeirra orkuauðlinda sem eru í eigu ríkisins, enda leituðum við einmitt í þá smiðju þegar tillögur voru mótaðar um samningaleið í sjávarútvegi. Forsætisráðherra lýsti því svo yfir í áramótaávarpi sínu að eðlilegt væri að samræmi gilti um nýtingu beggja þessara mikilvægu auðlinda.

Hver ætti þá að taka á sig kvótaskerðinguna?

Í niðurstöðu fyrrgreindrar endurskoðunarnefndar kom mjög skýrt fram að stuðst skyldi við aflahlutdeildarkerfi við fiskveiðistjórnun. Þetta var algjörlega ágreiningslaust í nefndinni. Það þýðir á mæltu máli að útgerðum er úthlutað tiltekinni hlutdeild í því aflamarki sem stjórnvöld gefa út á ári hverju. Þegar aflaheimildir aukast eykst sá veiðiréttur í tonnum talið sem útgerðirnar hafa til ráðstöfunar. Þegar þær minnka taka útgerðirnar á sig skerðinguna. Það er því um tómt mál að tala að öðruvísi verði farið með aflaaukningu en aflaminnkun. Enda augljóst að slíkt fær engan veginn staðist.

Tökum dæmi: Við upphaf núgildandi fiskveiðiárs ákváðu stjórnvöld að auka kvóta í þorski en minnka hann í ýsu. Ef ætlunin væri að fara öðruvísi að með aflaaukningu en aflaminnkun hefði útgerðin ekki átt að njóta ábatans af auknum þorskafla, en hins vegar taka á sig skerðingu í ýsunni. Það sjá auðvitað allir að það getur ekki gengið.

Best heppnaða samráðið

En meginmálið er að forsætisráðherrann segir að unnið sé að útfærslu nýs frumvarps á grundvelli samningaleiðarinnar, sem nefnd undir forystu tveggja þingmanna stjórnarflokkanna lagði til. Þar er gert ráð fyrir því að stuðst verði við aflahlutdeildarkerfi. Það er grundvallaratriði. Önnur praktískari mál, svo sem þau er lúta að færslu veiðiréttar á milli ára, framsalsheimildum og þess háttar kalla vitaskuld á frekari útfærslu. Aðalatriðin eru skýr og nú hefur forsætisráðherra sagt að þau verði lögð til grundvallar nýjum lögum um fiskveiðistjórnun.

Þetta er fagnaðarefni og gefur til kynna að niðurstaða best heppnaða samráðsins í tíð núverandi ríkisstjórnar verði lögð til grundvallar í einu þýðingamesta úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir.

Höfundur er þingmaður.

Höf.: Einar Kristin Guðfinnsson