Laxveiðiá Vötnin og hlunnindin koma eins og fleira við sögu í umræðunni um þjóðareign á auðlindum landsins.
Laxveiðiá Vötnin og hlunnindin koma eins og fleira við sögu í umræðunni um þjóðareign á auðlindum landsins. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Lögfræðingar sem höfðu framsögu um hugtakið þjóðareign á auðlindum á málþingi Landssamtaka landeigenda á Íslandi voru sammála um að hugtakið væri gildishlaðið og merkingarlítið og ónothæft í rökræðu.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Lögfræðingar sem höfðu framsögu um hugtakið þjóðareign á auðlindum á málþingi Landssamtaka landeigenda á Íslandi voru sammála um að hugtakið væri gildishlaðið og merkingarlítið og ónothæft í rökræðu. Málþingsgestur sem tók til máls við pallborðsumræður sagði að fyrst hugtakið hefði enga þýðingu væri fundurinn í raun um ekki neitt!

Umræða um að stjórnarskrárbinda ákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar hefur færst nær túnjaðrinum hjá bændum og öðrum landeigendum sem nýta margvíslegar auðlindir jarðar. Á leiðinni hefur umræðan fengið orku úr jarðhitanum og leitt út í vötnin. Landeigendur eru enn að glíma við afleiðingar þjóðlendulaganna og hrökkva við þegar aðgerðir sem líkja má við þjóðnýtingu eru nefndar upphátt. Orðræðan hefur verið áberandi að undanförnu meðal stjórnmálamanna og fyrir og eftir kosningarnar til hins andvana fædda stjórnlagaþings.

Helguðu sér atvinnuréttindi

Sigurður Líndal sagði að hugtakið þjóðareign væri með öllu merkingarlaust í rökræðum. Hins vegar gætu menn notað það í hátíðarræðum um tunguna, fornbókmenntir Íslendinga og annað slíkt. Hann gat þess að lönd og lóðir væru yfirleitt skýrt afmarkaðar eignir. Nytjastofnar sjávar væru ekki eins skýrt afmarkaðir. Eigi að síður hefðu útvegsmenn helgað sér þar atvinnuréttindi sem nytu verndar stjórnarskrár þótt verndin væri minni en á landi. Þessi réttindi hefðu ekki orðið til án kostnaðar því þeir hefðu lagt í kostnað við skip, kvóta, þjálfun starfsmanna og fleira. Sigurður sagði að eignarrétturinn væri vissulega háður takmörkunum. Þannig gæti löggjafinn breytt fiskveiðistjórnarkerfinu og innheimt gjald af afmörkun veiðiréttindanna og jafnvel afnumið kerfið en löggjafinn gæti ekki helgað íslenska ríkinu eignarréttinn.

Sigurður Tómas Magnússon átti að ræða um hvað tæki við ef ákvæði um þjóðareign yrði sett í stjórnarskrá. Hann viðurkenndi að erfitt væri að fjalla um það vegna þess að allar skilgreiningar vantaði til að hægt væri að átta sig á því hvað átt væri við.

Hann fór yfir stefnu nokkurra frambjóðenda til stjórnlagaþings og ummæli stjórnmálamanna. Fram hefur komið það mat að 22 af 25 fulltrúum vildu breyta stjórnarskránni. Sigurður Tómas vakti athygli á því að þeir töluðu ekki einum rómi, eða allt frá því að ræða um litlar breytingar til þess að tala fyrir þjóðnýtingarhugmyndum.

Sigurður Tómas tók undir orð Sigurðar Líndal um að þjóðareignarhugtakið væri merkingarlaust. Hann taldi það þó ekki skaðlaust því ef það væri sett inn gætu síðar komið valdhafar sem túlkuðu það bókstaflega og þá væri fjandinn laus.

Fullt verð komi fyrir

Sigurður lagði áherslu á að eignarréttindi yrðu ekki skert nema almannaþörf krefði og þá með lagastoð og fullt verð kæmi fyrir. Ef grundvallarbreyting yrði á fyrirkomulagi eignarréttar á Íslandi væri hætta á að eignir sem nú eru einstaklingseign hyrfu til ríkisins. Við blasti að þá myndi koma til málshöfðunar vegna eignaskerðingar, fyrir íslenskum dómstólum og Mannréttindadómstól Evrópu. Þar sem fullt verð kæmi fyrir eignirnar myndi breyting af þessu tagi væntanlega kosta mikið og velti Sigurður Tómas því fyrir sér til hvers væri þá verið að ráðast í breytingarnar.

LÍTILL KRAFTUR SAGÐUR Í UMSJÓN ÞJÓÐLENDNA

Einkaeign á landi hefur gefist best

Sigurður Jónsson, hæstaréttarlögmaður á Selfossi, sagði að eignirnar væru almennt betur komnar í höndum einstaklinga en ríkisins. Það hefði gefist best að þeir ættu landið sem hagsmuna hefðu að gæta við nýtingu þess.

Horfði hann til reynslu af þjóðlendunum þar sem íslenska ríkinu er áskilinn eignarréttur að landi og hlunnindum, utan eignarlanda. Nefndi Sigurður að lítill kraftur virtist í starfi nefndar sem hefði umsjón með þessum eignum fyrir forsætisráðuneytið. Þannig hefði Landsvirkjun afnot af þjóðlendum en hann kvaðst ekki vita til að hún hefði greitt fyrir þau afnot sem komið hefðu til eftir að lögin tóku gildi. Þá sagði hann að engin trygging væri fyrir því að ríkið ætti þessi lönd alltaf.