Björn Jóhannesson fæddist á Sturlu-Reykjum í Reykholtsdal 25. nóvember 1928. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 9. febrúar 2011.

Foreldrar hans voru hjónin Jóhannes Erlendsson, f. 8.8. 1888, d. 29.7. 1950, og Jórunn Kristleifsdóttir, 5.10. 1897, d. 21.5. 1972. ábúendur á Sturlu-Reykjum. Systkini Björns: 1) Andrea, f. 4.4. 1920, d. 3.6. 1921, 2) Erlendur Sturla, f. 3.4. 1922, d. 2.10. 1986, 3) Kristleifur, f. 1.9. 1923, d. 6.2. 1981. 4) Andrés, f. 20.12. 1931.

Björn giftist 8. maí 1953 Guðrúnu Gísladóttur, f. 12.8. 1923. Börn þeirra: 1) Gísli, f. 31.1. 1954, kvæntur Kristínu Hallsdóttur, f. 16.10. 1954, börn þeirra: a) Ingi Rúnar, f. 16.5. 1973, kona hans, María Pálsdóttir, f. 7.9. 1974, börn þeirra Tanja Rós, f. 13.8. 1994, Birnir Snær, f. 4.12. 1996, Aron Skúli, f. 28.10. 1998. b) Lára Björk, f. 15.4. 1978, maki Ólafur Lindberg Karvelsson, f. 31.3. 1975, börn þeirra Aldís Birta, f. 28.9. 2008, og Elmar Gísli, f. 17.12. 2010. c) Guðrún Lind, f. 28.5. 1979, maki Ármann Smári Björnsson, f. 7.1. 1981. Börn þeirra Andrea Kristín, f. 20.4. 2004, og Elín Birna, f. 31.7. 2008. 2) Helga, f. 11.11. 1966, gift Óla Öder Magnússyni, f. 30.10. 1966. Börn þeirra: Björn Öder, f. 3.8. 1993, og Friðrik Öder, f. 3.9. 2003. Fyrir átti Guðrún Lilju Leifsdóttur, f. 18.12. 1948, gifta Jens Ágústi Jónssyni, f. 25.6. 1949, barn þeirra Soffía Rúna Jensdóttir, f. 28.2. 1973, sambýlismaður Kristján Þórðarson, f. 31.5. 1969.

Björn stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti. Árið 1954 hófu Björn og Guðrún búskap á nýbýli frá Sturlu-Reykjum sem þau nefndu Laugavelli en fluttu þangað árið 1960. Þau bjuggu á Laugavöllum til ársins 1988 er þau brugðu búi og fluttu á Akranes.

Björn stundaði vinnu frá búi sínu alla sína búskapartíð. Hann vann hjá Vélasjóði við skurðgröft víða um land, hann rak jarðvinnuvélar og starfaði við skólaakstur í fjölda ára. Björn var mikill hestamaður, ræktaði sitt stóð, tamdi fyrir sjálfan sig aðra. Björn vann til fjölda verðlauna á hrossum sínum. Er Björn flutti á Akranes hóf hann störf sem lagermaður hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts, síðan gerðist hann afgreiðslumaður hjá Olís á Akranesi og vann hann þar þar til hann lét af störfum sakir aldurs. Björn var söngmaður góður, söng með m.a. með Karlakórnum Söngbræðrum og hafði yndi af fögrum söng.

Björn verður jarðsunginn frá Reykholtskirkju í Reykholtsdal í dag, 19. febrúar 2011, kl. 11.

Nú er þessu lokið hjá þér elsku pabbi minn. Mér eru efst í huga stundir okkar saman með hestunum. Snarfaxi, Smyrill, Neisti og Svaði koma strax upp í hugann, hvílíkir gæðingar. Þú varst sá fljótasti að járna, ekkert hangs þar og gerðir það vel. Þú varst líka einn sá besti að „leggja“ og átti Smyrill Íslandsmetið í 150 m skeiði á tímabili. Útreiðar á Reykjadalsá á ís voru einstaklega skemmtilegar. Smalamennska þar sem hestarnir sáu um það sjálfir svo að segja, maður var bara farþegi, og ef maður datt af baki þá snarstoppuðu hestarnir og biðu eftir að maður kæmist aftur á bak, en fyrst varð að finna nógu stóra þúfu til að ná upp í ístaðið. Færa hesta á milli hólfa, marka folöldin, ná í hestana, moka undan þeim, vatna, gefa ormalyf, allt ógleymanlegar stundir. Endalausir útreiðartúrar í náttúrunni, hleypa á skeið, alltaf svolítil keppni. Útreiðar í rigningu voru sérstaklega skemmtilegar, hestarnir voru svo kátir og lyktin æðisleg.

Þú seldir ófáa gæðingana til Þýskalands og ég man alltaf eftir Walter Feldmann gamla sem kom reglulega að Laugavöllum og keypti alltaf hross í hvert skipti, alltaf spenningur í kringum það. Hestar voru líf þitt og yndi og er ég mjög ánægð með að hafa átt þátt í því lífi pabbi minn með þér. Ég veit að nú ríður þú út með vinum þínum og ert alsæll – ég bið að heilsa Snarfaxa.

Helga.

Einn af góðvinum mínum í Borgarfirði, Björn Jóhannesson á Laugavöllum í Reykholtsdal, er horfinn frá okkur í síðustu ferð sína.

Hann var einn af þeim mörgu góðu starfsmönum sem unnu við Kleppjárnsreykjaskóla á árunum 1973 til 1988, annaðist hann akstur skólabarnanna. Auk þess hafði hann áður unnið við skólann bæði við holræsagerð og íþróttavöllinn. Í öllum verkum sínum var hann mjög samviskusamur, ósérhlífinn og sérstaklega verkhygginn. Öllum þessum atriðum fylgdi síðan vandvirkni og ráðhollusta við verkkaupendur

Mannkostir hans komu enn betur fram í framkomu hans við skólabörnin. Þeim féllu þessir flutningar misvel í geð. Sumum þótti þetta þægileg tilbreytni, en öðrum var þetta óþægilegur þáttur skólastarfsins. Björn sinnti flutningi þeirra af mikilli nærgætni, aðgæslu og tillitssemi. Tilfinning góðs föður gagnvart börnum kom berlega í ljós hjá Birni.

Það var alltaf notalegt að líta inn til þeirra Guðrúnar og Björns. Hafi þau bestu þökk fyrir gistingu í margar nætur og góðan beina. Saknaðarkveðja fylgir Birni í lokaáfangann. Blessuð sé minning hans.

Innileg samúð til fjölskyldu hans.

Hjörtur Þórarinsson.

Ég kynntist Bjössa fyrst árið 1959 þegar ég kom til sumardvalar hjá bróður hans Sturlu á Sturlu-Reykjum. Í fyrstu sniðgekk ég Bjössa því í hvert skipti sem ég átti við hann orðastað leiðrétti hann ambögur í máli mínu og ekki bætti úr skák þegar stríðnin gerði vart við sig. Fljótlega eftir að ég áttaði mig á að málvendnin var skóli og stríðnin aðeins sársaukalaus glettni tók ég Bjössa í sátt og eftir það þróaðist með okkur vinátta. Vinátta sem byggðist á gagnkvæmri virðingu og frelsi beggja til að vera þeir sjálfir. Við Bjössi náðum mestum samhljómi í ferðum fram á Arnarvatnsheiði. Best var þegar frambyggði rússajeppinn var farkosturinn og Siggi í Stafholtsey var með í för.

Bjössi var hestamaður af guðs náð og vann til margra verðlauna á hestum sínum. Hann átti ávallt úrvals reiðhesta og ber gæðingurinn Svaði þar af. Samspil þeirra var einstakt, sérlega hvað skapgerð varðaði, en þar mættust tvö stórveldi. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að Bjössa hafi liðið best á hestbaki í góðra vina hópi og stundaði hann hestamennsku meðan heilsan leyfði. Bjössi og Guðrún brugðu búi á Laugavöllum fyrir rúmum tveimur áratugum og fluttu á Akranes. Þótt þangað væri komið varð hluti af Bjössa eftir í Reykholtsdalnum enda taugarnar sterkar til æskustöðvanna. Hann skrapp oft heim í dalinn sinn til að vitja vina og ættingja. Á þessari stundu er mér ljósara en áður hvað vináttan er dýrmæt og gott er að eiga bara góðar minningar.

Aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð. Minningin lifi.

Jens Á. Jónsson.

Mig langar í fáeinum orðum að minnst Björns Jóhannessonar, oftast kennds við Laugavelli í Reykholtsdal. Kynni okkar hófust þegar hann gerðist vaktstjóri hjá Olíuverslun Íslands hf. á Akranesi í júlí 1988 og hafði starfsstöð hjá Olís-Nesti við Esjubraut. Björn starfaði hjá Olís í rúm 10 ár.

Það leyndist engum að Björn var mikill Borgfirðingur og áhugamaður um sveitastörf, og þá sérstaklega um hesta, en segja má að hestar og hestamennska hafi verið hans ær og kýr. Þótt fjölskyldan væri alltaf í fyrsta sæti hjá honum var hestamennskan þar aldrei langt á eftir, þetta fór ekki fram hjá okkur samstarfsmönnum Björns.

Olís og starfsmenn þess á Akranesi voru mjög heppin að hafa Björn sem vinnufélaga. Hann var ábyrgur stjórnandi og starfsmaður með skemmtilegan húmor, frásagnar- og sögumaður góður og skemmtilegur félagi sem var annt um samstarfsmenn sína og viðskiptamenn félagsins.

Ég vil fyrir mína hönd og Siggu konu minnar, Olís og starfsmanna þess á Akranesi þakka Birni samferðina um leið og við vottum eftirlifandi aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Gunnar Sigurðsson.

Hinsta kveðja

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.


(Sveinbjörn Egilsson)

Hvíldu í friði elsku afi og takk fyrir allt.

Þín

Soffía Rúna.