Hæstiréttur kvað upp dóma í 389 kærumálum á síðasta ári. Þar af var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 275 málum.

Hæstiréttur kvað upp dóma í 389 kærumálum á síðasta ári. Þar af var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 275 málum. Niðurstöðu héraðsdóms var hins vegar breytt að verulegu leyti eða snúið við í 80 málum og 34 málum var vísað frá héraðsdómi eða Hæstarétti eða meðferð þeirra var ómerkt.

Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu Hæstaréttar. Fram kemur að Hæstiréttur dæmdi í 240 einkamálum sem áfrýjað var til réttarins og þar af var niðurstaða héraðsdóms staðfest í 118 málum.

Í 28 málum var niðurstöðu héraðsdóms hins vegar breytt að einhverju leyti og í 60 málum var niðurstöðu í héraði breytt að verulegu leyti eða snúið við. Í 34 tilvikum var málum vísað frá eða héraðsdómur ómerktur.

Kveðnir voru upp dómar í 81 sakamáli sem áfrýjað var til hæstaréttar í fyrra. Í 32 málum var niðurstaða héraðsdóms staðfest en henni var breytt í 20 málum. Í 24 málum til viðbótar var niðurstöðu héraðsdóms breytt verulega eða snúið við.

Skráð mál hjá Hæstarétti í fyrra voru 726, sem er næstmesti fjöldi mála í sögu réttarins

44 sératkvæðum skilað á árinu

Fram kemur í ársskýrslu Hæstaréttar að dómarar Hæstaréttar skiluðu sératkvæði 21 sinni í munnlega fluttum málum í fyrra. Í kærumálum skiluðu dómarar 23 sinnum sératkvæðum og 22 sinnum var um aðra niðurstöðu að ræða en í héraði.

omfr@mbl.is

ÁLAG Á HÆSTARÉTT

Dómaraembætti auglýst

Innanríkisráðuneytið hefur auglýst laus til umsóknar þrjú embætti dómara við Hæstarétt Íslands í samræmi við ný lög þar sem m.a. er veitt heimild til að fjölga dómurum tímabundið um þrjá. Verða dómarar við réttinn 12 talsins til að bregðast við því aukna álagi sem orðið hefur hjá dómstólum. Umsóknirnar verða sendar dómnefnd sem fjallar um hæfni umsækjenda.

Umsóknir skulu berast innanríkisráðuneytinu fyrir 14. mars.