Eggert og Haukur „Ég reyndi að vera músíkalskari í málverkinu en ég er vanur að vera,“ segir málarinn.
Eggert og Haukur „Ég reyndi að vera músíkalskari í málverkinu en ég er vanur að vera,“ segir málarinn. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Caput-hópurinn, undir stjórn Guðna Franzsonar, flytur í dag klukkan 14 og 15 nýtt tónverk Hauks Tómassonar, Moldarljós , í Listasafni Íslands.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Caput-hópurinn, undir stjórn Guðna Franzsonar, flytur í dag klukkan 14 og 15 nýtt tónverk Hauks Tómassonar, Moldarljós , í Listasafni Íslands. Þar verða einnig til sýnis um helgina fjögur ný málverk Eggerts Péturssonar en listamennirnir veittu hvor öðrum innblástur.

„Þetta hefur verið hátt í tveggja ára ferli, síðan hugmyndin fæddist,“ segir Eggert þegar hann er spurður út í verkin og viðburðinn um helgina.

„Við Haukur höfum hist öðru hverju, sérstaklega síðasta árið og Gunnlaugur Sigfússon með okkur, en hann átti hugmyndina að leiða okkur saman.

Ég reyndi að vera músíkalskari í málverkinu en ég er vanur að vera,“ segir hann. „Haukur kom með lista af hljóðfærum sem hann vildi nota og ég tengdi þau við blóm. Fyrst datt mér blástjarnan í hug og síðan duttu fleiri inn, og ég fór að spyrða saman hljóðfærin og blómanöfn. Mörg blómanafnanna höfðu eitthvað með himininn að gera og málverkin fóru að hanga meira í lausu lofti, urðu meira abstrakt en ég er vanur.“

Eggert segir að það hafi gert sér gott að fara í samstarf sem þetta núna, eftir að hafa verið upptekinn í nokkur misseri við að ljúka stórum verkum úr Úthlíðarhrauni sem hann sýndi í Hafnarborg í haust.

„Ég þurfti að horfa upp í himininn,“ segir hann.

Samstarfið hafði áhrif

„Ég held að samstarfið hafi haft töluverð áhrif á tónlistina,“ segir Haukur. Ég hefði ekki samið nákvæmlega svona tónlist nema vegna þessara mynda. Þar kemur margt til, jafnvel sjálf blómin og nöfnin á þeim, fyrir utan myndirnar.“

Hljómsveitina skipa 14 manns og Haukur segist nota talsvert af björtum hljóðfærum, honum þykir það hæfa myndheimi Eggerts.

Tónverkið, sem er í fjórum hlutum og um 20 mínútna langt, er gefið út á geisladiski.

MOLDARLJÓS Í LÍ

Stutt sýning og tónleikar

Nú um helgina stendur yfir í Listasafni Íslands sýningin Moldarljós , laugardag og sunnudag frá kl. 11-17, aðeins þessa tvo daga. Eggert Pétursson myndlistarmaður og Haukur Tómasson tónskáld hafa lagt saman krafta sína fyrir tilstilli Gunnlaugs Sigfússonar.

Þeir Eggert og Haukur hittust reglulega, ræddu verkin, og horfði Haukur á Eggert mála en Eggert málaði með tónlist Hauks í eyrum.

Afraksturinn er fjögur málverk á sýningunni og tónverk sem verður flutt í safninu í dag, laugardag, kl. 14 og 15.