Tilþrif Lesley Manville sýnir hreint magnaðan leik í hlutverki Mary, vinkonu Gerri og Toms og tekst að búa til afar eftirminnilega persónu.
Tilþrif Lesley Manville sýnir hreint magnaðan leik í hlutverki Mary, vinkonu Gerri og Toms og tekst að búa til afar eftirminnilega persónu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn og handrit: Mike Leigh. Aðalhlutverk: Jim Broadbent, Lesley Manville, Ruth Sheen og Oliver Maltman. 129 mín. Bretland, 2010.

Breski leikstjórinn Mike Leigh hefur einstakt lag á því að ná því besta út úr leikurunum í kvikmyndum sínum. Hér sýnir hann enn og aftur hversu magnaður leikstjóri hann er, í kvikmyndinni Another Year. Í myndinni segir af hamingjusömum hjónum, Tom og Gerri, sem komin eru á sjötugsaldurinn. Allt er eins og best verður á kosið í þeirra hjónalífi en það sama verður ekki sagt um vini þeirra og vandamenn. Mary, samstarfskona Gerri, er klyfjuð af áhyggjum, með brotna sjálfsmynd og afar upptekin af aldrinum og þeirri líkamlegu hrörnun sem honum fylgir. Hún leitar huggunar í áfengi sem gerir heimsóknir hennar á köflum óþægilegar fyrir hjónin. Góðvinur Toms er ekki síður þjakaður og á hraðri leið í gröfina vegna slæmra lifnaðarhátta sinna, drykkjuskapar og ofáts. Sonur hjónanna, Joe, er hins vegar í ágætum málum en hefur þó ekki tekist að finna lífsförunautinn og er barnlaus, kominn á fertugsaldurinn. Eldri bróðir Toms og fjölskylda hans eiga svo við mikla ógæfu að stríða.

Eins og titill myndarinnar vísar til þá er í henni lýst einu ári í lífi hjónanna sem gæta þess að rækta garðinn sinn og þá bæði í huglægum skilningi og bókstaflegum því þau eyða löngum stundum við garðyrkju. Þó ekki sé beinlínis hægt að tala um eiginlegan söguþráð í myndinni þá er umfjöllunarefnið risastórt, þ.e. mannleg samskipti og hvernig við tökumst á við það sem að höndum ber á lífsleiðinni. Myndin er tragíkómísk á köflum og þó svo allir leikarar standi sig óaðfinnanlega ber leikkonan Lesley Manville algjörlega af sem hin brothætta Mary. Hún er hreint mögnuð. Mike Leigh er töframaður raunsæisins og eins og jafnan vill verða með kvikmyndir hans gleymir maður því alveg að maður sé að horfa á skáldskap. Maður er kominn inn á gafl hjá breskri fjölskyldu og deilir með henni sorgum og gleði. Myndin verður þó fullhæg á köflum, einkum þegar líða tekur á seinni hlutann.

Helgi Snær Sigurðsson