Bragi V. Bergmann
Bragi V. Bergmann
Eftir Braga V. Bergmann: "Forseta vorum ber skylda til þess að bera málið undir þjóðaratkvæði – öðru sinni."

Enn og aftur er meirihluti þingheims hlynntur því að íslenska þjóðin axli ábyrgð á Icesave – og enn á ný að henni forspurðri. Hvað er að þessu fólki? Bresk og hollensk stjórnvöld fóru offari – og langt fram úr sjálfum sér – þegar þau ákváðu að ábyrgjast innstæður þarlendra sparifjáreigenda í íslenskum einka banka. Einka , það er lykilorðið, ekki ríkis . Nú, þau um það. Það verður hver að vera ábyrgur gerða sinna.

Fullkomið glapræði

Þjóð minni ber alls engin skylda til að borga óráðsíu íslensku útrásarvíkinganna svonefndu. Dómstólar munu skera úr um það – og þess eigum við að krefjast. Þar er að mínum dómi aðeins ein niðurstaða í boði. Ef hins vegar svo ólíklega færi að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að íslenskum almenningi beri að greiða óreiðuskuldir áhættusólgins einkabanka og viðskiptavina hans, eigum við skaðabótakröfu á breska ríkið vegna hryðjuverkalaganna uppi í erminni. Hún er óheyrileg og hafin yfir vafa. Það, að falla frá þeirri skaðabótakröfu og axla ótilgreinda ábyrgð vegna Icesave í einni og sömu aðgerðinni, er í besta falli heimska en að mínum dómi fullkomið glapræði.

Fellt með þorra atkvæða

Forseta vorum ber skylda til þess að bera málið undir þjóðaratkvæði – öðru sinni. Ég treysti honum fyllilega til þess. Í þeirri atkvæðagreiðslu fellum við Icesave að nýju – að þessu sinni með þorra greiddra atkvæða. Eða eins og skáldið hefði getað orðað það:

Óreiðu borgum við ei!

Útrásarvíkingar: Svei!

Þorum, mín þjóð,

þrautseig og góð:

Samtaka segjum við nei!

Fjármálagerningar hinna föllnu banka eru vissulega flóknir. Þeir voru vísvitandi gerðir flóknir, enda spiluðu menn rúllettu, lögðu allt undir og bera skömm sína um ókomin ár. En tímar fjárhættuspils eru liðnir. Íslensk þjóð hyggst ekki sitja áfram við spilaborðið, með framtíð barna sinna, barnabarna og barnabarnabarna að veði – sem og velferðarkerfið sjálft. Gerum ekki einfalt mál flókið. Að sjálfsögðu segjum við nei! Samtaka segjum við nei! Áfram Ísland!

Höfundur starfar við almannatengsl.

Höf.: Braga V. Bergmann