Halldór Vilhjálmsson
Halldór Vilhjálmsson
Eftir Halldór Vilhjálmsson: "Athygli ráðuneytis virðist beinast helst að birki, fjalldrapa, fléttum og grámosa ..."

„Umhverfisráðuneytið“ hefur nýlega ungað út enn einni gæluhugmynd sinni, í þetta sinn frumvarpsdrögum sem lúta að breytingu á lögum nr. 44 frá 1999 um náttúruvernd. Frumvarpinu er beint gegn stórhættulegum plöntum af ýmsu tagi, gegn illgresi sem borist hafi inn í sæluríki þjóðlegra alíslenskra plantna, inn í ósnortið fyrirmyndar gróðurríki Íslands.

Fram er þá komið eitt af brýnustu viðfangsefnum ísl. stjórnvalda: að herja á vondar ágengar útlenskar plöntur, hefja plöntustríð! Annars reynast alíslenskar plöntur við nánari skoðun bæði aðfluttar og ágengar, komnar hingað á sínum tíma yfir úthafið af sjálfsdáðum, án þess að ráðuneytið hafi þar um vélað. Að sögn sérlega tilkvaddra sérfræðinga „umhverfisráðuneytis“, liggur hinsvegar beinlínis þjóðarheill við að hafið verði hið bráðasta reglulegt lúpínustríð á Íslandi, herjað á allar illa innrættar fjölærar plöntur, allar óþjóðlegar trjátegundir bannfærðar og þeim burtu rutt! Manni skilst að þar með sé reglulegt salamöndrustríð að skella á. Nú ætlar „umhverfisráðuneyti“ sér að gefa út ein allsherjar einræðislög (úkas) um bann við vondum útlendum grösum og svokölluðum ágengum trjátegundum. Grunlausir íbúar þessa lands taka nú að spyrja mann og annan, hvort eitthvert miðalda-ofsóknaræði hafi virkilega gripið um sig hérlendis og brjótist nú út í ljósum logum í stjórnkerfi þessa lands. Umrætt ráðuneyti var ekki beinlínis vinsælt fyrir. – Spyrjið Reyknesinga, Sunnlendinga, spyrjið Þingeyinga, Austfirðinga, spyrjið yfirleitt almenning í landinu. En nú trúi ég þó að taki steininn úr – fólki ofbýður.

Lagafrumvarp „umhverfisráðuneytis“ er fram komið til að binda sem rækilegast hendur þeirra tugþúsunda Íslendinga sem á undanförnum áratugum hafa lagt á sig ómælt erfiði, ómælda fyrirhöfn og ærinn kostnað við að græða upp með grösum og trjágróðri örfoka mela, gínandi moldarflög, grýtt holt og skriðulönd. Allt það fólk sem fæst við bráðnauðsynlega uppgræðslu þessa lands vissi sig þó vera að gera náttúru landsins til góða eftir aldalanga þrotlausa áníðslu og gjöreyðingu gróðurs af völdum manna og ýmissa náttúruhamfara, hélt sig vera horfa til framtíðar í grænna, skjólbetra Íslandi, í betra landi til búsetu. Sjálfskipað náttúruverndarlið hérlendis hefur greinilega tekið náttúrufar Jan Mayens til fyrirmyndar: auðnin, berangurinn, ördeyðan lifi og verði gerð friðhelg. Vilji menn rækta skóg og græða upp landið er því ætlunin, að fyrst eigi þá að spyrja hið alltsjáandi, stranga, einráða stórmenntaða og réttsýna bureaucratie í 101 Reykjavík hvað gera megi og hvað alls ekki megi, biðja allraþénustusamlegast um leyfi að mega t.d. umgangast og rækta sína eignarjörð að eigin vild: má lúpína vaxa þarna, má grafa skurð hérna, má planta furu í þennan mel?

Nei, þetta frumvarpsmál er ekki eins og ætla mætti einhver skrípaleikur fáránleikans, þetta eru í raun tillögur og ætlan ráðuneytis umhverfis sem þykist þess umkomið að gefa út lagaboð og bönn til almennings í landinu um ræktun og uppgræðslu, þykist geta kúgað almenning til að hlíta því sem ráðuneyti þessu er þóknanlegt. Ráðuneytið sýnir í þessu máli ótvíræða einræðistilburði, fer fram með vissum sjálfsþótta valdsins og óþolandi rembingi gagnvart þegnum þessa lands.

Athygli ráðuneytis virðist beinast helst að birki, fjalldrapa, fléttum og grámosa en hefur hingað til ekki lýst áhyggjum sínum af þeim augljósa usla sem vegalagning hefur þó um langt árabil valdið í náttúru landsins: Vegagerðin og undirverktakar hafa óátalið mátt þjösnast að vild á landinu með ýtum sínum og gröfum, hafa alls staðar rist djúp, herfileg sár í landið, rifið óátalið upp gróðurþekjuna vítt og breitt. Hervirkið blasir við allra augum um land allt og flennistór fleiðrin með tilheyrandi uppblæstri eru orðin hluti íslenskrar náttúru. „Umhverfisráðuneytið“ er væntanlega ekki ábyrgðarlaust embætti (sinekúre) eða hvað?

Nú skal sparað og útgjöld ríkisins skorin ákaft niður á sem flestum sviðum eins og skólar og heilbrigðisþjónusta hafa jú fengið að finna tilfinnanlega fyrir. Nú þykir því mörgum löngu, löngu tímabært að leggja af einmitt þetta „umhverfisráðuneyti“ og spara þannig tugi milljóna – losa fjármuni sem gjarnan mættu þá renna til fjársveltra sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila úti á landi. Hyrfi „umhverfisráðuneytið“ af stjórnarsviðinu, myndu fæstir taka eftir því en enginn sakna þess. Til málamiðlunar mætti þó vel hugsa sér umhverfismál komin sem deild í innanríkisráðuneytið nýja, eins og eitt skrifborð og fengin hæf kona í hálfu starfi til að sinna því embætti.

Höfundur er kennari og ísl. þegn.