Bjarney Ágústsdóttir fæddist í Hróarsholti í Hraungerðissókn 5. september 1920. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 13. febrúar 2011. Foreldrar hennar voru Ágúst Bjarnason, bóndi í Hróarsholti, f. 18. ágúst 1878, d. 27. júní 1928, og Kristín Bjarnadóttir, f. 8. desember 1877, d. 16. ágúst 1963. Systkini Bjarneyjar eru Halldór, f. 1912, d. 1992, Stúlka, f. 1914, d. 1914, Bjarni, f. 1914, d. 1997, Guðrún, f. 1916, Guðmundur, f. 1917, d. 2002, og Guðfinna, f. 1919, d. 1973.

Hinn 9. júní 1946 giftist Bjarney Ólafi Árna Guðundssyni, sjómanni og verkamanni, f. á Sæfoksstöðum í Grímsnesi 30. maí 1922, d. 31. janúar 1974. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Björnsson, f. 30. desember 1882, d. 31. janúar 1969, og Þóranna Theódóra Árnadóttir, f. 14. ágúst 1881, d. 7. febrúar 1954. Synir Bjarneyjar og Ólafs urðu Ágúst, f. 12. nóvember 1949, d. 2. mars 1976, Már, f. 11. janúar 1953, Þórarinn, f. 23. apríl 1954, og Óskar, f. í ágúst 1960, d. í september 1960.

Bjarney ólst upp í Hróarsholti við öll venjuleg sveitastörf og naut þeirrar tíðar skólagöngu til sveita, sem var nokkurra vetra farskóli. Auk þess sótti hún húsmæðranám hjá Árnýju Filippusdóttur í Hveragerði. Hún lærði einnig að spila á orgel og var fyrsti organisti við Hraungerðiskirkju eftir að kór var stofnaður þar. Hún hóf búskap með Ólafi manni sínum á Eyrarbakka eftir giftingu í viðbyggingu við heimili tengdaforeldra sinna á Strönd á Eyrarbakka. Fljótlega eða 1950 fluttu þau ásamt Halldóri bróður Ólafs og Ástu konu hans á Sæfell sem þeir bræður byggðu og bjuggu þar síðan alla tíð. Bjarney var að síðustu ein eftir á Sæfelli og flutti síðan í júní 2008 á Dvalarheimili aldraðra á Sólvöllum á Eyrarbakka. Eftir að synir Bjarneyjar komust á legg fór hún að vinna úti, fyrst í frystihúsinu og síðan allmörg síðustu starfsárin í þvottahúsinu í fangelsinu á Litla-Hrauni. Bjarney gegndi margháttuðum félagsstörfum, mest í Kvenfélaginu á Eyrarbakka þar sem hún var heiðursfélagi, ennfremur var hún mjög virk í félagi eldri borgara bæði á Eyrarbakka og Selfossi og söng mörg ár með Hörpukórnum, kór eldri borgara. Auk þess átti hún í nokkur ár sæti sem varamaður í hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps og sat þar fundi.

Útför Bjarneyjar verður gerð frá Eyrarbakkakirkju í dag, 19. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Mig langar að minnast Bjöddu tengdamóður minnar með nokkrum orðum. Okkar kynni hafa staðið í 36 ár, eða frá því að ég kom á Bakkann aðeins 19 ára unglingur. Hún kom mér fyrir augu sem mikilhæf kona. Bjadda varð snemma ekkja og eftir það þurfti hún að hafa talsvert fyrir lífinu með vinnu sinni, fyrst í frystihúsinu og síðan í þvottahúsinu á Litla-Hrauni, þar til starfsaldri lauk. Á frumbýlisárum okkar Þórarins bjuggum við á Tjörn, sem er næsta hús við Sæfell, og nutum nálægðar við Bjöddu sem var boðin og búin að hjálpa til með barnapössun og annað sem þurfti. Bjadda var iðin handavinnukona og held ég að flestir ef ekki allir afkomendur hennar eigi eitthvað í fórum sínum eftir hana. Félagsmál voru henni einnig hugleikin. Hún starfaði í Kvenfélaginu allan sinn búskap á Bakkanum og hefur verið heiðursfélagi þess síðstu tíu árin. Og ekki má gleyma hartnær sextíu ára veru hennar í kirkjukór Eyrarbakkakirkju. Auk þessa kom hún dálítið að störfum í hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps. Fáeinum árum eftir að ég kom á Bakkann gekk ég í kvenfélagið og áttum við Bjadda margar góðar stundir þar saman, t.d. ferðalög. Bjadda elskaði að ferðast og kynnast nýjum löndum. Mikið vorum við Bjadda flottar dömur þegar við spásseruðum í stórborginni Prag og litum á alla fegurðina þar. Gott var líka að fara bara stuttar ferðir, t.d. aðeins upp í Hróarsholtshverfi, setjast þar á þúfu með kók og prins og hlusta á hana tala um klettana sína og æsku, sem var mjög góð í stórum systkinahópi og með vinum sínum í Flögu, sérstaklega vinkonu sinni henni Stebbu. Það var ekki leiðinlegt að fara með þeim vinkonum á þorrablót og aðrar skemmtanir í gömlu sveitinni þeirra. Margs er að minnast í samskiptum okkar Bjöddu öll þessi ár.

Ég vil bara þakka þér Bjadda mín fyrir allt sem við gerðum saman og þú hjálpaðir mér við, t.d. sláturgerð, saumaskap og margt fleira. Þú varst mikil hvunndagshetja og lést ekkert buga þig, varst alltaf glæsileg og vel til fara. Og ekki má heldur gleyma öllum jólunum okkar saman. Stelpurnar okkar muna ekki önnur jól en að hafa þig hjá okkur og ekki síst síðustu jól með alla ungana okkar. Það var ógleymanlegt.

Við hittumst síðar.

Þín tengdadóttir,

Ragnheiður.

Elsku amma okkar á Sæfelli er látin. Hún lék stórt hlutverk í lífi okkar og um hana eigum við margar ljúfar minningar. Sæfell var okkar annað heimili og þar stóðu dyrnar alltaf opnar. Okkur fannst alltaf spennandi að koma til ömmu, við leituðum að ævintýrum í kjallaranum, spiluðum ólsen ólsen og síðar rommí svo tímunum skipti, bökuðum pönnukökur og alltaf átti amma handa okkur ís, oftast með núggatbragði. Sæfell var okkar ævintýraheimur og amma var sérlega lagin við sögusundir, hvort sem það voru sögur af barnæsku hennar eða búkollu.

Amma okkar var líka einstaklega handlagin og kenndi hún okkur öllum að hekla, við eigum alltaf eftir að muna eftir litlu skinnskónum sem hún bjó til og okkur þótti hún alveg einstaklega flink. Við munum líka eftir söngelskri ömmu, hún elskaði að syngja og við eyddum mörgum stundum við orgelið hennar og síðar við píanóið á Túngötunni syngjandi í röddum, amma söng alltaf alt.

Amma var okkur einstaklega góð fyrirmynd, hún var alltaf svo glöð, hlý og jákvæð. Við minnumst brosmildrar konu sem alltaf sýndi öllu sem við tókum okkur fyrir hendur mikinn áhuga og alltaf mætti hún á tónleika, útskriftir og aðra viðburði í okkar lífi. Hún var alltaf til staðar.

Jól án ömmu verða aldrei söm, hún var alltaf með okkur á aðfangadagskvöld og alla okkar barnæsku eyddum við öðrum degi jóla á Sæfelli. Síðustu jól verða okkur þó einstaklega minnisstæð, við komum allar heim, allar með dætur okkar og við áttum yndislegar stundir saman, alls ekki vitandi að þetta áttu eftir að vera okkar síðustu jól saman.

Amma á Sæfelli er fyrsta nána manneskjan sem við systurnar missum og það er erfitt til þess að hugsa að hún verði ekki lengur hjá okkur en eftir standa margar góðar minningar sem eiga eftir að lifa í hjörtum okkar að eilífu.

Ágústa, Ólöf og Kristín.

Allir eru einstakir, í dag kveðjum við einstaka konu, hana Bjöddu. Hún Bjadda skipaði stóran sess í lífi okkar systkinanna þegar við vorum að alast upp og eftir að við eignuðumst okkar fjölskyldur. Við bjuggum í sama húsinu, Sæfelli á Eyrarbakka, en Bjadda var konan hans Óla föðurbróður okkar. Og þarna bjó stórfjölskylda, þau með drengina sína og við systkinin og foreldrar okkar. Það var innangengt á milli heimilanna í gegnum búrin og var endinn hjá þeim kallaður „austrí“ en okkar „vestrí“, stundum var sagt að fara yfir. Alltaf var opið á milli nema á matmálstímum, þá var hurðin krækt aftur. Bjadda var afskaplega ljúf kona, kát, hjálpsöm, góður leiðbeinandi og góður uppalandi. Hún heyrðist aldrei hallmæla neinum en sagði stundum að það hefði nú kannski mátt reyna aðra leið eða það verður nú hver að fljúga eins og hann er fiðraður. Hún var mjög félagslynd og söngelsk og var í kirkjukórnum á Eyrarbakka, kvenfélaginu, leikfélaginu á meðan það starfaði og síðar í félagi eldriborgara. Bjadda vann í fiski og seinna meir á Litla-Hrauni og einnig starfaði hún mikið í búskapnum heima en það var verið með kindur, hesta, kýr og garðrækt. Bjadda tók aldrei bílpróf en tók stundum í jeppann hjá Óla ef þurfti að færa hann til á túnunum eða í görðunum. Seinna meir keypti hún sér fjórhjól sem hún ferðaðist talsvert á í lengri eða skemmri ferðir og hafði gaman af. En lífið er ekki alltaf auðvelt og það fékk Bjadda að reyna. Þau Óli misstu lítinn dreng sem hét Óskar en hann lést aðeins mánaðar gamall. Og síðan létust þeir feðgar Óli og Ágúst með mjög stuttu millibili. Bjadda tók þessum áföllum af miklu æðruleysi og sótti sinn styrk í trúna. En það kom sér líka vel að eiga gott skjól hjá Má, Þórarni og fjölskyldum. Ágúst lét eftir sig unga eiginkonu, Þórunni, og kornunga dóttur, Bjarneyju. Samband Bjöddu og Þórunnar var alla tíð mjög náið og reyndust þær hvor annarri vel. Bjadda var ekki vön að tjá sig um eigin líðan en þegar Þórunn lést fyrir nokkrum árum sagði Bjadda við eitt af okkur: „Þetta er svo ósanngjarnt.“

Í haust hélt Bjadda upp á 90 ára afmælið sitt og bauð til sín nánustu fjölskyldu og vinum. Það var yndisleg dagstund og ljúf minning. Við eigum margar góðar minningar til að ylja okkur við. Það var fastur liður á aðfangadagskvöld þegar búið var að borða að fara „austrí“ og Bjadda las jólaguðspjallið og sungið var Heims um ból og þegar því var lokið mátti loks opna jólapakkana. Þegar við vorum orðin lubbaleg um hárið var tekinn fram kollur og stundum þurfti að setja bækur á hann til að hækka okkur upp og Bjadda náði í flottu klippurnar sínar og snyrti okkur. Og svo bakaði hún heimsins besta „veiðimann“.

Við systkinin viljum þakka Bjöddu fyrir allt sem hún gerði fyrir okkur á lífsleiðinni. Hún var ankerið sem við höfðum í veikindum móður okkar. Við viljum þakka fyrir þolinmæðina, ástúðina og hlýjuna sem hún gaf okkur öllum. Við sendum Má, Þórarni, Bjarneyju og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur. Systkinin „vestrí“,

Böðvar, Ásta, Ólafía og Inga.