Það var að duga eða drepast fyrir leikmenn KFÍ í gær þegar þeir fengu Hamar í heimsókn í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Búið var að fresta leiknum tvisvar vegna veðurs á Ísafirði.

Það var að duga eða drepast fyrir leikmenn KFÍ í gær þegar þeir fengu Hamar í heimsókn í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Búið var að fresta leiknum tvisvar vegna veðurs á Ísafirði. Í gær var veðrið fínt en ekki staða KFÍ sem var í neðsta sæti og ekkert annað en sigur dugði til að halda liðinu í baráttunni um sæti í deildinni að ári. KFÍ byrjaði leikinn betur og hafði frumkvæðið fyrstu tvo leikhlutana, 22:17 eftir fyrsta leikhluta og 45:39 í hálfleik. Það var mikil grimmd í leikmönnum KFÍ sem vissu að sjálfsögðu hvað var undir. Hamar tók þó við sér eftir hálfleikinn og náði að jafna. Eftir það var jafnt á flestum tölum en fyrir síðasta leikhlutann var staðan 62:60 heimamönnum í vil.

Það fór svo að lokum eftir æsispennandi síðasta leikhluta að KFÍ tryggði sér dýrmætan sigur 86:83 og er nú aðeins 4 stigum á eftir Hamri sem hefði með sigri getað fjarlægst fallbaráttuna til muna þegar fjórar umferðir eru eftir. omt@mbl.is