Sorg Fjórir Bareinar, sem öryggissveitir urðu að bana í Manama, voru bornir til grafar í gær. Öryggissveitir beittu aftur byssum og táragasi þegar mótmælendur reyndu að safnast saman á torgi í miðborginni síðar um daginn.
Sorg Fjórir Bareinar, sem öryggissveitir urðu að bana í Manama, voru bornir til grafar í gær. Öryggissveitir beittu aftur byssum og táragasi þegar mótmælendur reyndu að safnast saman á torgi í miðborginni síðar um daginn. — Reuters
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Reiði og sorg einkenndi fjöldamótmæli í mörgum borgum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda í gær þegar fólk flykktist út á göturnar eftir föstudagsbænir í moskunum.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Reiði og sorg einkenndi fjöldamótmæli í mörgum borgum Norður-Afríku og Mið-Austurlanda í gær þegar fólk flykktist út á göturnar eftir föstudagsbænir í moskunum. Margir mótmælendanna voru bálreiðir yfir blóðugum árásum öryggissveita á mótmælendur í Líbíu og Barein fyrr í vikunni.

Gleðin var meiri í miðborg Kaíró þegar hundruð þúsunda manna söfnuðust þar saman til að fagna afsögn Hosnis Mubaraks, viku eftir að hann hrökklaðist frá völdum. Um tveir mánuðir eru liðnir frá því að mótmælabylgjan hófst í Túnis eftir að örvæntingarfullur ungur maður varð sjálfum sér að bana með því að kveikja í sér til að mótmæla því að lögreglan meinaði honum að selja ávexti og grænmeti. Af þessum neista varð bál sem hefur þegar orðið til þess að tveir einvaldar hafa hrökklast frá völdum. Ráðamenn í öðrum einræðisríkjum nötra þar sem þeim stendur mikill uggur af lýðræðiskröfunni sem farið hefur eins og logi yfir akur um heimshlutann.

Leyniskyttur skutu á fólkið

Í sumum arabalandanna hafa ráðamennirnir brugðist við mótmælunum með því að stokka upp í ríkisstjórnum og lofa efnahagslegum umbótum til að draga úr óánægju fólksins. Í öðrum löndum hafa yfirvöldin sýnt klærnar og sigað öryggissveitum á mótmælendur.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch höfðu í gær eftir ónafngreindum sjónarvottum að öryggissveitir hefðu skotið að minnsta kosti 24 mótmælendur til bana í Líbíu í fyrradag. Hermt er að leyniskyttur hafi skotið á fólkið í borgunum Benghazi og Al-Baida í austanverðu landinu. Hermenn voru sendir út á götur Benghazi í gær eftir að þúsundir manna mótmæltu manndrápum öryggissveitanna.

Mikil reiði er einnig meðal íbúa Barein eftir að öryggissveitir urðu minnst fjórum að bana þegar þær réðust inn á torg í höfuðborginni Manama til að binda enda á mótmæli. Mótmælendurnir eru úr röðum sjíta, sem eru í meirihluta í Barein, og segjast vilja afnema konungsstjórn súnníta.

Leiðtogar grannríkja við Persaflóa, sem eru einnig undir stjórn súnníta, lýstu yfir fullum stuðningi við stjórnvöld í Barein og árás öryggissveitanna á mótmælendur í Manama.

Frönsk stjórnvöld sögðust í gær hafa stöðvað sölu á frönskum vopnum og öryggisbúnaði til Líbíu og Barein vegna árásanna á mótmælendur.

Breska stjórnin kvaðst einnig ætla að endurskoða heimild breskra fyrirtækja til að selja yfirvöldum í Barein vopn og annan búnað sem notaður hefur verið til að kveða niður mótmæli. Breskir fjölmiðlar sögðu að fyrirtækin hefðu haft heimild til að selja slíkan búnað síðustu mánuði en breska utanríkisráðuneytið sagði að ekki hefðu komið fram vísbendingar um að breskum vopnum hefði verið beitt gegn mótmælendum.

Herinn hætti pyntingum
» Amnesty International hvatti í gær herinn í Egyptalandi til að hætta að pynta fanga og sagði að fram hefðu komið nýjar vísbendingar um að herinn beitti pyntingum.
» Að sögn mannréttindasamtaka ber herinn í Egyptalandi ábyrgð á pyntingum á a.m.k. tólf föngum og tugum mannshvarfa á síðustu vikum.
» Minnst 365 manns biðu bana og 3.500 særðust í mótmælunum í Egyptalandi.