Geir Jón Þórisson
Geir Jón Þórisson
Nokkuð er um að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé kölluð út vegna ósættis um tölvunotkun unglinga. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir að lögregla bregðist við útköllum sem þessum enda þótt hún hafi í nógu öðru að snúast.

Nokkuð er um að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé kölluð út vegna ósættis um tölvunotkun unglinga. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn segir að lögregla bregðist við útköllum sem þessum enda þótt hún hafi í nógu öðru að snúast. Hann segir ekki merki um aukið ósætti inni á heimilum, þrátt fyrir aukið atvinnuleysi, bæði meðal yngra fólks og eldra.

Í tilkynningu frá lögreglunni í gær segir að hún hafi verið kölluð að heimili í borginni vegna ágreinings um tölvunotkun. Þar hafi mæðgin átt í útistöðum vegna tölvunotkunar sonarsins. Móðirin taldi að tölvunotkunin bitnaði á náminu en pilturinn var á öðru máli. Lögregla reyndi að miðla málum áður en hún fór af vettvangi.

Hvattir til að setja mörk

Geir Jón segir að margir foreldrar hafi áhyggjur af tölvunotkun barna sinna. Af hálfu stjórnvalda hafi verið hvatt til þess að foreldrar fylgist með tölvunotkun barna sinna og stilli henni í hóf. Ýmsar hættur séu líka á netinu. Það sé e.t.v. ekki eitt af skylduverkum lögreglu að miðla málum í slíkum deilum en Geir Jón minnir á að lögregla sinni ótal verkefnum sem séu strangt til tekið ekki á hennar könnu. Í mörgum þessara tilvika eigi fólk þó ekki í önnur hús að venda. Lögregla sé jú á sólarhringsvakt.

Ef unglingar hafi tekið hliðarspor út af beinu brautinni sé einnig algengt að foreldrar óski eftir því að hann ræði við þá og segi þeim m.a. til hvers slík feilspor geti leitt. Lögregla líti á viðtöl sem þessi sem hluta af skyldum sínum enda séu forvarnir einn mikilvægasti þátturinn í hennar starfi.

Geir Jón segir að útköll vegna netnotkunar séu tiltölulega ný af nálinni. Á móti komi að ýmsum öðrum verkefnum sem tengist ungmennum hafi fækkað, t.a.m. sé ekki sama mannmergðin og unglingadrykkja í miðbænum um helgar og áður og ekki sú hópamyndun í hverfum sem áður tíðkaðist.

runarp@mbl.is