Jillian Útdeilir rósum til mögulegra verðandi eiginmanna í raunveruleikaþáttunum Bachelorette.
Jillian Útdeilir rósum til mögulegra verðandi eiginmanna í raunveruleikaþáttunum Bachelorette.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Og drengirnir grétu; einn af því að hann var of ungur og annar af því að vinur hans var sendur heim.

Af sjónvarpi

Birta Björnsdóttir

birta@mbl.is

Ég átti nokkuð stórfenglegt sjónvarpskvöld í vikunni þegar ég sá heilan þátt af Piparjónkunni (The Bachelorette). Fyrir þá sem ekki vita er það þáttur sem snýst um að hjálpa ungri stúlku að velja sér lífsförunaut úr hópi karlkyns þátttakenda.

Já, ósvikin skemmtun var þetta. Stúlkan Jillian skiptist á að fara á einstaklings- og hópstefnumót með hinum og þessum úr hópnum og var ekkert smávegis ánægð með hvern og einn. Einn hafði svo ómetanlegt viðhorf til lífsins, annar var svo drepfyndinn að hún náði vart andanum í návist hans og sá þriðji var svo fullkominn að það varð henni næstum um megn.

Allir grétu. Jillian grét af því að hún elskaði einn svo mikið, af því að hún þurfti að senda einn heim og af því að einn var svo ungur að hann var hugsanlega ekki tilbúinn að eiga börn alveg strax. Og drengirnir grétu; einn af því að hann var of ungur og annar af því að vinur hans var sendur heim.

Og piltarnir sem hún gat valið á milli, hvílíkt samsafn af gæðalegum mannsefnum! Einn var með yfirlýst fótablæti og trompaðist á stefnumóti þeirra þegar hann fékk að nudda tærnar á Jillian. Það var ákveðin sárabót því að fyrr um daginn varð hann frekar svekktur þegar hann fékk að binda á hana snjóþrúgur að hún skyldi ekki hafa verið á tánum í snjónum.

Annar var svo með skyrtuna samviskusamlega opna niður á nafla en um hann stóð þónokkur styr því að sumir félaganna sökuðu hann um að vera í þættinum á fölskum forsendum. Hann væri tónlistarmaður með plötu í bígerð og væri að nota frama sinn innan þáttarins til að koma plötunni á framfæri. Auðvitað, því hver vill ekki kaupa plötu af manninum sem var einn af þrjátíu keppendum í Piparjónkunni?

Já, þetta var upplifun sem seint verður metin til fjár.