Sverrir Ólafsson var fæddur á Selfossi 4. desember 1949. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 10. febrúar 2011.

Sverrir fæddist í Árgerði sem nú er Árvegur 4. Flutti með fjölskyldu sinni á Kirkjuveg 22 árið 1953. Foreldrar hans voru Ólafur Nikulásson, f. 23.3. 1920, d. 27.5. 1987 og Magnea Kristín Sigurðardóttir f. 13. ágúst 1921. Systur Sverris eru: Sigríður Ólafsdóttir, f. 1948, í sambúð með Sigurði Á. Þorsteinssyni. Hún á 3 börn með fyrri manni sínum Steina Þorvaldssyni. Ólöf, f. 1956, gift Skúla Einarssyni, þau eiga 4 börn og 1 barnabarn.

Sverrir kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni í ágúst 1978, hún heitir Guðveig Bergsdóttir, f. 1950. Foreldrar Guðveigar voru Pálína Þ. Theódórsdóttir og Bergur Sigurðsson, bæði látin. Systkini Guðveigar eru: Þorbjörg, f. 1939, Vigdís Theódóra, f. 1941, d. 2011, Margrét, f. 1942, d. 1994, Berglín, f. 1945, d. 1995, Einar, f. 1947, Hrönn, f. 1949, Valgerður Auðbjörg, f. 1952, Sigurður Skúli, f. 1959. Sverrir og Guðveig eignuðust synina a) Berg, f. 28. apríl 1979, hann er í sambúð með Hrefnu Garðarsdóttur og þau eiga tvo syni, Sverri Óla, f. 2004 og Garðar Frey, f. 2007. b) Ólafur Magni, f. 27. nóv. 1981.

Sverrir var í mörg sumur í sveit hjá móðursystur sinni Sigríði Sigurðardóttur og manni hennar Guðmundi Sigurðssyni í Sviðugörðum, Gaulverjabæjarhreppi. Sverrir nam mjólkurfræði í Danmörku, lauk námi 1975 og vann nánast allan sinn starfsaldur í Mjólkurbúi Flóamanna. Hann gerði þó hlé á þeim störfum og hélt til Minneapolis ásamt frænda sínum Hauki Guðjónssyni árið 1969. Þeir frændur voru undir verndarvæng frænku sinnar Laufeyjar Sigurðardóttur. Þeir unnu hjá henni í veitingarekstri, keyptu sér bíl saman og ferðuðust um Minnesota og nærliggjandi ríki. Sverrir var alla tíð mikill fótboltaunnandi, lék með Selfossliðinu og varð með því Íslandsmeistari árið 1966. Hann var líka valinn í unglingalandsliðið ásamt félaga sínum Gylfa Þór Gíslasyni sama ár. Uppáhaldsliðið hans var Arsenal. Hestamennska var eitt af áhugamálum hans. Hann var fyrst með hesta í samfloti með móður sinni og föður. Seinna varð Guðveig félagi hans í hestamennskunni. Golfíþróttin var líka uppáhaldssport og synirnir báðir fylgdu honum í því. Hann sagði reyndar að hann ætti tvo föðurbetrunga í því sporti. Sverrir og Guðveig byrjuðu að búa í blokkaríbúð í Fossheiði, seinna fluttu þau í Lágengi 1 og núna síðast bjuggu þau í Grenigrund 22. Alltaf fluttu þau í húsakynni sín nýbyggð.

Útför Sverris fer fram frá Selfosskirkju í dag, 19. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 11.

Tilfinningar síðustu daga verða vart tjáðar í orðum, þó svo ég ætli að reyna það, heldur tárum. Tilhugsunin um að ég hafi misst sterka, trausta og ljúfa pabba minn virkar enn frekar óraunveruleg og fjarstæðukennd. Þessi hrausti maður sem aldrei kenndi sér neins meins hefur nú kvatt okkur eftir erfiða þrautagöngu sem hann þurfti að ganga í gegnum á lokakaflanum í sínu lífi. Eftir standa minningarnar sem við fjölskyldan eigum sem betur fer nóg af og munu ylja okkur um ókomin ár.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og eyddi mestum tíma með okkur, hvort sem var í rólegheitum heima fyrir, í útilegu eða í hestum með mömmu eða í golfi eða horfa á fótbolta með okkur strákunum. Hvert sem við bræðurnir fórum þá fylgdi hann á eftir og studdi okkur í öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur, í íþróttum og lífinu sjálfu. Þó svo að tárin hafi verið við völd frá því að það var orðið ljóst í hvað stefndi þá eru það allar góðu minningarnar sem munu breyta tárum yfir í bros. Ég kveð nú pabba minn í hinsta sinn og þakka fyrir að hann er nú loks orðinn þrautalaus. Minning um góðan mann lifir.

Ólafur Magni Sverrisson.

Það er skrýtið að hugsa til þess að pabbi skuli vera dáinn. Hann sem alltaf var til staðar þegar á þurfti að halda og aldrei langt undan þegar allt lék í lyndi. Við áttum margar yndislegar stundir í gegnum tíðina. Hvort sem var á golfvellinum, útilegum eða bara heima við þar sem pabba leið alltaf best. Pabbi hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og stundaði fótbolta á sínum yngri árum ásamt hestamennsku og golfi til fjölda ára. Hann fylgdi okkur bræðrum í flestar ef ekki allar keppnisferðir hvort sem var í fótbolta, handbolta eða golfi á okkar yngri árum og aldrei þrýsti hann á okkur að velja eina íþrótt umfram aðra.

Pabbi vildi ekki troða sínum skoðunum upp á aðra, t.d. var það ekki fyrr en við Óli vorum orðnir harðir United-stuðningsmenn sem við komumst að því að hann væri Arsenal-maður.

Pabbi lét aldrei mikið á sér bera og mont var ekki til í orðaforða hans. Hann kunni best við sig heima við með mömmu og í faðmi fjölskyldunnar.

Mamma og pabbi voru ákaflega samrýnd og voru flestum stundum saman fyrir utan vinnu. Betri konu hefði pabbi ekki getað átt því hún stóð eins og klettur hjá honum í gegnum árin og svo nú síðast í gegnum mjög erfið veikindi hans.

Ég mun alltaf muna hvað pabbi var mikill afi. Þegar hann hélt á strákunum mínum litlum og labbaði með þá hvert sem þeir vildu og hló alveg út í eitt að þessum krílum sem gáfu honum svo mikið. Enda litum við Óli oft hvor á annan þegar þeir vöfðu afa um fingur sér og hugsuðum báðir: Þetta hefðum við aldrei fengið pabba til að gera þegar við vorum litlir.

Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk með pabba, tæplega 32 ár er meira en margir fá með foreldrum sínum og ekki lít ég til baka og hugsa: ég vildi að við hefðum verið meira saman, því við vorum alltaf mikið saman. Leiðinlegra finnst mér að synir mínir fengu ekki lengri tíma með afa sínum því hann var í sérstöku uppáhaldi þeirra.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð hann pabba í hinsta sinn. Jafnframt veit ég að honum líður mun betur en honum leið í veikindum sínum. Minning um góðan mann, föður og afa mun lifa með okkur um ókomin ár.

Bergur Sverrisson.

„Þegar þú ert sorgmæddur skoðaðu þá hug þinn og þú munt sjá að þú grætur vegna þess sem var gleði þín.“ (Khalil Gibran)

Heiðarlegur, traustur, tryggur, dulur, tilfinningaríkur, góður maður. Allt lýsingarorð sem lýsa Sverri bróður vel. Minningarnar um kæran bróður eru góðar. Hann var einu og hálfu ári yngri en ég og fyrstu æviárin leiddi ég hann helst hvert fótmál.

Við bjuggum á árbakkanum þar til ég var að verða fimm ára og ég tók pössunarhlutverkið alvarlega. Þegar við stálpuðumst vorum við til staðar hvort fyrir annað. Hann t.d. hjálpaði okkur Steina að mála áður en við fluttum á Engjaveginn og gerðist félagi í Foreldrafélagi þroskaheftra er við eignuðumst fatlaðan son.

Þegar skóla lauk á vorin var árvisst að Sverrir fór til Gísla rakara og fékk sína burstaklippingu, hélt síðan í sveitina í Sviðugörðum til Siggu móðursystur okkar og Guðmundar manns hennar. Hann var í mörg sumur hjá þeim hjónum, fyrst sem kúarektor og hænsnahirðir, seinna vélamaður og dráttarvélin var í uppáhaldi. Eftir fermingu fór Sverrir að vinna í mjólkurbúinu á sumrin og í fullri vinnu eftir gagnfræðaprófið. Hann fór á samning hjá búinu og nam mjólkurfræði við skólann í Óðinsvéum, þar sem hann lauk námi 1975. Má segja að alla sína ævi hafi hann unnið hjá MBF og núna síðast MS. Hann tók sér þó ársfrí frá þeim störfum haustið 1969 og fór til dvalar í Minneapolis ásamt Hauki frænda okkar frá Gaulverjabæ. Laufey móðursystir okkar sá þar um piltana, veitti þeim vinnu í veitingahúsi sem hún stýrði, kynnti þá fyrir vinum sínum og fallegum stöðum. Margt var brallað og þeir félagar keyptu sér Oldsmobile, amerískan kagga með krómi slegið stél, og nýttu frítímann til að ferðast. Fóru þeir m.a. í mikla reisu til Yellow Stone Park og Kanada með Trausta frænda sem kom í heimsókn til að skoða dásemdir Ameríku.

Sverrir hafði alltaf gaman af hestum. Fyrsta hestinn fékk hann í fermingargjöf og fékk sá nafnið Glæsir. Pabbi, mamma og Ólöf systir voru með honum í hestamennskunni á þessu fyrra skeiði hennar. Seinna skeiðið var svo með Guðveigu og sonunum. Knattspyrna, hestamennska, golf og góðir bílar voru helstu áhugamál hans. Hann náði þeim árangri að komast í unglingalandsliðið í knattspyrnu ásamt félaga sínum Gylfa Þ. Gíslasyni fyrstir Selfyssinga. Hann fékk líka margar viðurkenningar í golfinu sem ég kann ekki að nefna.

Hinn 13. ágúst 1978 kvæntist Sverrir konunni sinni Guðveigu Bergsdóttur. Það er óhætt að segja að það var hans mesta gæfa. Hún hefur fylgt honum gegnum súrt og sætt. Þau eignuðust tvo yndislega syni, Berg og Ólaf Magna. Aðdáunarvert er hversu þétt hún og strákarnir stóðu með honum í veikindunum, enda einstaklega samheldin fjölskylda.

Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til móður okkar, til Guðveigar, Bergs, Hrefnu og Óla Magna. Að ógleymdum afalingunum þeim Sverri Óla og Garðari Frey.

Hittumst fyrir hinum megin kæri bró.

Sigríður Ólafsdóttir.

Hann Sverrir er dáinn. Þannig hljóðuðu orð sonar míns þegar hann hringdi til að segja mér að Sverrir hefði andast kvöldið áður. Við þau tíðindi setti mig hljóðan þótt ég vissi að Sverrir hafði barist hetjulegri baráttu við illvígan sjúkdóm undanfarið. Það leit á tímabili út fyrir að Sverrir hefði betur en hann varð að játa sig sigraðan að lokum.

Við fyrstu kynni okkar vorum við báðir unglingar, ég átján ára og Sverrir sautján, en eins og segir í vinsælum dægurlagatexta „síðan eru liðin mörg ár“. Þegar sambúð okkar Sirrýjar systur hans hófst varð okkur strax vel til vina og þótt hin síðari ár hafi fundir okkar verið stopulir hefur aldrei borið skugga þar á, enda Sverrir einstakur maður.

Þegar litið er til baka er svo ótal margt sem kemur upp í hugann. Fyrsta ferðalagið og útilegan á Jeepsternum þar sem fall reyndist fararheill og síðan komu ótal önnur ferðalög í kjölfarið. Allir útreiðartúrarnir og samveran í kringum hestamennskuna, heyskapur, gegningar, járningar o.fl. Húsbyggingar og viðhaldsvinna sem því tilheyrði þar sem Sverrir var alltaf tilbúinn að taka til hendinni á Engjaveginum sem við reyndum svo að endurgjalda síðar á Fossheiðinni og í Lágenginu. Bílastúss alls konar, kaup og sala ásamt viðhaldi var hluti af því sem við brölluðum saman. Síðast en ekki síst störfuðum við saman hjá MBF í nokkur ár.

Á fyrstu hjúskaparárum okkar Sirrýjar skorti ýmislegt sem þykir sjálfsagður hlutur í dag og enginn var bíllinn á heimilinu. Það kom ekki að sök því Sverrir var alltaf tilbúinn að keyra okkur eða lána okkur bílinn sinn eða annað sem hann réð yfir en okkur skorti. Óeigingjarnari mann var vart að finna sem var alltaf boðinn og búinn að hjálpa til með það sem hann gat veitt, sem ekki var svo lítið.

Það er komið að kveðjustund. Þótt ég hafi reynt að rifja upp brot úr fortíðinni þá er svo margt ótalið en minningin lifir um góðan dreng.

Ég flyt nánustu aðstandendum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Steini Þorvaldsson.

Sverrir frændi var góður og traustur maður. Hann hafði þægilega nærveru, og það var alltaf stutt í hláturinn sem oftar en ekki hreif nærstadda með sér. Við munum eftir honum frá því við vorum lítil, þegar Sverrir bjó á Kirkjuveginum ásamt ömmu og afa. Þá var Sverrir nýkominn frá Ameríku, og átti skemmtilega tónlist á stórum 8 rása kassettum sem við fengum að hlusta á hjá honum. Má þar nefna t.d. Simon and Garfunkel, og tengjum við þessa minningu við Sverri þegar við heyrum Bridge over Troubled Water og fleiri góð lög sem voru á þessari kassettu.

Við systkinin eigum einnig góðar minningar úr hesthúsinu, þar sem löngum tíðum sá Óli um vatnið, Sverrir um moksturinn og afi eða amma um að gefa heyið, á meðan yngsta kynslóðin fékk að hjálpa til við að kemba. Gaman var að fara í útreiðartúra með Sverri og ömmu og afa, og ekki síst að ríða upp á Murneyrar, eftir einni skemmtilegustu reiðleið landsins upp bakka Þjórsár. Þá fannst Sverri gaman að láta gæðinginn Létti frá Sviðugörðum spretta úr spori. Við fengum síðar að njóta þessa stórkostlega hests í nokkur ár eftir að Sverrir dró sig um tíma í hlé frá hestamennskunni á 9. áratugnum og sneri sér að golfinu.

Þegar við urðum eldri varð fastur siður hjá okkur systkinunum að fara í heimsókn eftir hádegi á aðfangadag til þeirra í Lágengið og síðar Grenigrundina. Þar sátum við og spjölluðum um heima og geima yfir malti og appelsíni. Þótti okkur mjög vænt um að eiga þessa notalegu stund saman á aðfangadag og oft var haft á orði að það gætu hreinlega ekki komið jól án þess að við kíktum inn hjá þeim.

Síðustu árin hafa fjölskyldur okkar átt afskaplega ánægjulegar samverustundir í útilegu einu sinni á sumri. Höfum við þá tjaldað í 1-2 nætur á einhverjum góðum stað, leikið okkur og haft það notalegt saman.

Í dag kveðjum við Sverri móðurbróður okkar sem er látinn langt fyrir aldur fram eftir baráttu við erfið veikindi. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Guðveigar, Bergs, Óla Magna, Hrefnu, Sverris Óla, Garðars Freys og ömmu Kristínar, með línum úr textanum sem Ómar Ragnarsson samdi við lagið sem við minntumst á hér að ofan:

Ef þú átt erfitt,

sérð enga von,

þú veist þú átt mig að

óháð stund og stað.

Ég verð hjá þér,

vef þig í örmum mér,

og skal þér vísa veg.

Eins og brú yfir boðaföllin

ég bendi þér á leið.

(Ómar Ragnarsson.)

Við hittumst síðar, Sverrir minn, okkar huggun er sú að við vitum að nú ertu hjá afa og þið passið hvor annan.

Ólafur Steinason og Kristín Laufey Steinadóttir.

Þau hafa verið grimm örlögin okkur frændsystkinum liðinn áratug. Enn er höggvið í þann knérunn og við sem syrgjum stöndum í þögulli spurn, hvort ekki sé nóg komið. Nákomnir ættingjar burt kallaðir langt um aldur fram og þannig komið heilsu tveggja að þeim er örðugt um félagslega þátttöku. En þótt sorgin og söknuðurinn séu djúp höfum við lært hversu gott það er að orna sér við ljúfar minningar sem þetta góða fólk skilur eftir sig.

Við Sverrir frændi minn vorum jafnaldrar og nánast óaðskiljanlegir á yngri árum. Sterk tengsl sköpuðust milli okkar og lékum við okkur saman, í skóla og utan, þar til klukkan sagði til um að tími væri til að fara heim. Sjónvarpi var ekki til að dreifa og tefja fyrir en knattleikir af ýmsu tagi höfðu mikið aðdráttarafl og ófáar voru stundirnar sem við undum okkur við að sparka á mark, leika fótbolta eða körfubolta þegar hægt var að skipta í lið.

Sverrir var góður íþróttamaður og æfði knattspyrnu með Ungmennafélagi Selfoss. Hann var traustur varnarmaður og trúr því sem hann tók sér fyrir hendur. Að sjálfsögðu var það uppskrift að árangri. Íslandsmeistaratitlum var náð og ásamt Gylfa Þór Gíslasyni, skólabróður okkar og vini, varð hann fyrstur Selfyssinga til að verða valinn í landslið í knattspyrnu. Árið 1967 voru þeir tveir valdir í unglingalandslið er tók þátt í Norðurlandamóti. Ég samgladdist Sverri frænda mínum innilega. Fyrir mér var hann „varnarmaðurinn“ í knattspyrnuliðum Selfoss á þessum tíma. Það var svo margt spennandi að gerast í íþrótta- og æskulýðsmálum á Selfossi í þá tíð.

Ég hafði því ótal margar ástæður til að líta upp til Sverris. Hann var gætinn í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og hóf snemma störf á vinnumarkaðinum. Hann eignaðist snemma bíl og naut ég þess í hvert sinn er ég kom heim í helgarleyfi úr skóla en þá hringdum við Sverrir okkur saman, fórum á rúntinn á Selfossi og lögðum mat á landsins gagn og nauðsynjar. Margt var rætt og ýmis plön lögð þótt þau gengju fæst eftir. En hugir okkar stefndu í ólíkar áttir. Hann lagði stund á mjólkurfræði og festi ráð sitt í heimabænum. Báðir urðum við hamingju aðnjótandi í einkalífi og hvor um sig svo upptekinn af fjölskyldu sinni að trosnaði á hinum sterku böndum er tengdu okkur saman.

Síðasta sumar hittumst við Sverrir á fótboltavellinum á Selfossi. Hann var glaður í sinni því svo virtist sem hann væri að vinna sigur á illvígum sjúkdómi sem hann hafði glímt við. Ég hafði fylgst úr fjarlægð með baráttu hans og gladdist yfir að gamli varnarjaxlinn væri enn og aftur að hafa betur gegn skæðum sóknarmanni. Í þetta sinn reyndist það tálsýn, aðeins lognið á undan storminum, því nokkrum mánuðum síðar barst sú fregn að sjúkdómurinn hefði tekið sig upp að nýju, á enn erfiðari stað en áður. Öll varnarafbrigði urðu undan að láta, ekkert varð við ráðið.

Elsku Guðveig, Kristín frænka og ástvinir allir, Guð styrki ykkur í djúpri sorg. Minningin um góðan dreng lifir.

Trausti.

Þreyttir hvílast, þögla nóttin

þaggar dagsins kvein.

Felur brátt í faðmi sínum

fagureygðan svein.

Eins og hljóður engill friðar

yfir jörðu fer.

Sof þú væran, vinur,

ég skal vaka yfir þér.

(Kristján frá Djúpalæk)

Nú er ég kveð hann Sverri hennar Guðveigar móðursystur minnar minnist ég augna hans líkt og segir í ljóðinu hér að ofan, „fagureygðan svein“. Hann var með stór falleg blá augu og svo löng augnhár að hver kona hefði öfundað hann af. Þessi fallegu augnhár hafa erfst áfram hjá sonum hans og sonarsonum.

Sverrir var mikill fjölskyldumaður og sonum sínum mikill félagi ekki síður en faðir og ekki spillti fyrir að þeir höfðu sömu áhugamál, þ.e. fótboltann og golfið. Hann var góður afi og verður sárt saknað af sonarsonunum en þeir voru yndi afa síns og gátu fengið hann til að gera margt með sér þar til þrek hans fór að þverra og veikindin að segja til sín.

Þau Guðveig voru afar samhent og sinntu áhugamálum sínum saman. Um lengri tíma voru þau með hesta, þá stunduðu þau golf, ferðalög og sinntu húsverkunum saman. Ég man þegar Guðveig sagði mér að þau skiptu húsverkunum á milli sín, þá skildi ég betur hvað þau voru miklir félagar ekki síður en hjón.

Ég var svo lánsöm að fá að vera með annan fótinn inni á heimili þeirra hjóna fyrir átta árum er ég var að vinna á Selfossi. Það var alveg sama hvenær og hversu oft ég kom, aldrei fann ég annað en ég væri velkomin á heimilið og þakka ég fyrir það.

Um leið og ég þakka Sverri samfylgdina sendi ég móður hans, Guðveigu, Óla Magna, Bergi, Hrefnu og sonum samúðarkveðjur.

Vigdís Elísdóttir.

Þegar litið er yfir farinn veg verður minning æskuáranna böðuð dýrðarljóma. Eilíft sumar með sól og sumarleikjum eða vetur með snjókerlingagerð, sleðaferðum og skólanámi. Á frumbýlisárum Selfosshrepps fluttist margt ungt fólk til staðarins, settist þar að og stofnaði fjölskyldur. Flestir unnu hjá Mjólkurbúinu eða Kaupfélaginu, allir vildu byggja yfir sig og sína, þannig að hverfi mynduðust sem fylltust af börnum. Við Kirkjuveg, Sunnuveg og Engjaveg voru á þessum árum þrjú til fjögur börn í hverju húsi sem öll virtust á sama aldri. Á þessum árum bundust vinabönd sem ekki hafa slitnað þótt lengst hafi í taumnum. Einn af fyrstu vinum mínum var Sverrir Ólafsson, sem við nú kveðjum eftir alvarleg veikindi.

Á þessum árum voru mæðurnar yfirleitt heima og virtist það vera skylda hverrar móður að taka á móti soltnum börnum með kökum og smurðu brauði eftir ærslafulla leiki. Áhyggjur morgundagsins voru víðs fjarri. Götur og nýbyggingar voru vettvangur leikja, bílaleikir voru ofarlega hjá okkur strákunum og stelpurnar sem voru í mömmuleik tóku gjarnan á móti okkur með „kaffi og meðlæti“. Á þessum árum stofnuðum við einnig íþróttafélag sem litaðist af afrekum Vilhjálms Einarssonar í Ástralíu. Síðar breyttist það í knattspyrnufélag og þar var Sverrir traustur í vörninni.

Nú er einn af þessum æskuvinum mínum búinn að kveðja þennan heim langt um aldur fram. Fjölskyldu hans, móður og systrum sendi ég samúðarkveðjur og bið guð að veita þeim hjálp í sorginni.

Guðmundur Paul Jónsson.

Sverrir Ólafsson hóf störf hjá Mjólkurbúi Flóamanna á 15. aldursári við sumarafleysingar og tveimur árum seinna var hann orðinn fastráðinn starfsmaður í mjólkurbúinu. Hinn 1. janúar 1972 hóf hann nám í mjólkurfræði og útskrifaðist sem mjólkurfræðingur í árslok 1975. Sverrir starfaði nánast alla sína tíð hjá Mjólkurbúi Flóamanna, síðar MS Selfossi, og spannaði starfsaldurinn því rúmlega 45 ár. Sverrir starfaði við ýmis störf í mjólkurbúinu í gegnum tíðina en á seinni árum var hans aðalstarf í vélasal þar sem móttaka, meðhöndlun og gerilsneyðing á mjólk fer fram.

Það hafa átt sér stað miklar breytingar í framleiðsluferlum og tæknimálum í mjólkuriðnaðinum á liðnum árum, hvað þá á 45 árum. Tölvutæknin hélt innreið sína og breyttust störfin mikið með tilkomu iðnstýringar á öllum sviðum mjólkurvinnslunar. Það vafðist aldrei fyrir Sverri að takast á við breytingar og hafði hann einstakt lag á því að leysa öll þau verkefni sem honum voru falin af mikilli fagmennsku, metnaði og áhuga. Sverrir var mjög traustur starfsmaður og honum var umhugað um vinnustaðinn og að fyrirtækinu vegnaði sem best. Hann var ákaflega vel liðinn meðal starfsfólksins og átti marga góða vini og félaga á vinnustaðnum. Hann hélt góðum tengslum við vinnufélagana alveg fram á síðasta dag og verður nærveru hans sárt saknað. Minningin um góðan dreng mun lifa áfram í hjörtum okkar hjá MS Selfossi. Ég votta aðstandendum samúð mína og megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Guðmundur Geir

Gunnarsson, MS Selfossi.

Að hryggjast og gleðjast

hér um fáa daga,

að heilsast og kveðjast.

– Það er lífsins saga.

(Páll J. Árdal.)

Í dag er komið að kveðjustund, nú kveð ég kæran mág minn hann Sverri. Ekki finnst mér tímabært að kveðja mann á þessum aldri, en við í Bæjarskersfjölskyldunni höfum verið rækilega minnt á nú síðustu mánuði að maðurinn ákvarðar en Guð ræður. Það deilir enginn við dómarann eins og Sverrir hefur þekkt úr fótboltanum. Hann hafði mjög gaman af að fylgjast með boltanum, bæði þeim enska og íslenska, enda spilaði hann fótbolta á yngri árum og var meðal annars valinn í landsliðið á sínum tíma.

Við hjónin eigum góðar minningar frá ferðum sem við höfum farið í með Sverri og Guðveigu, þau með fellihýsið sitt og við í sumarbústað. Þau hjón voru dugleg að ferðast og var þá golfsettið oft með í för. Sverrir naut sín vel á golfvellinum, að spila sjálfur eða fylgjast með strákunum sínum, hann var stoltur af þeim og ef ekki gekk eins og allir óskuðu sagði hann: „það gengur bara betur næst“. Ekki var hægt að hugsa sér ljúfari ferðafélaga en Sverri og hún Guðveig systir sá um að við fengjum alltaf góðan hafragraut í morgunmat sem var hollt og gott í sólinni á Spáni. Við lögðum leið okkar á markaðina á Spáni að skoða mannlífið og varninginn sem þar var til sölu, keyptum einstaka hluti í poka og þegar pokarnir voru orðnir fullir fóru Sverrir, Elli og Geiri með þá í bílinn. Komu svo aftur ef þeir þurftu að bera meira, töldu það ekki eftir sér. Ég sagði Sverri eitt sinn að ég hefði alls ekkert gaman af búðarápi og markaðsferðum, þá hló hann sínum einstaka hlátri og greinilegt að hann trúði ekki orði af því sem ég sagði, enda ætlaðist ég ekki til þess. Ég er þakklát fyrir þessar ferðir og þær samverustundir sem við áttum. Í eina ferðina fóru Sverrir og Guðveig með alla fjölskylduna og var yndislegt að sjá hvað Sverrir bar mikla umhyggju fyrir drengjunum sínum stórum og smáum og tengdadótturinni. Þarna var afahlutverkið vel ræktað. Nú verða ekki fleiri ferðir með þér, félagi góður, og á ég eftir að sakna þess.

Aðdáunarvert var að fylgjast með æðruleysinu sem hann Sverrir sýndi í sínum veikindum. Þetta var verkefni sem honum var falið og úr því varð að vinna og aldrei kvartað. Fjölskylda hans stóð þétt við bakið á honum og studdi hann vel allt þar til yfir lauk.

Móður Sverris, Magneu Kristínu, Guðveigu systur, sonum og ástvinum öllum sendi ég og fjölskylda mín einlægar samúðarkveðjur. Minningin um ljúfan mann mun styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Sverri kveð ég að leiðarlokum með djúpri virðingu og þökk fyrir samveruna hér á jörðu.

„Far þú í friði

friður guðs þig blessi.“

Þín mágkona,

Valgerður Auðbjörg Bergsdóttir.