Helga Sigríður Þorsteinsdóttir fæddist á Öxl í Austur-Húnavatnssýslu 30. apríl 1915. Hún lést 7. febrúar 2011.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Björnsson, f. 10.12. 1886, d. 27.5. 1973, og Þuríður Þorvaldsdóttir, f. 25.5. 1892, d. 9.10. 1945. Systkini hennar: Gyðríður, f. 6.10. 1916, Björn, f. 20.3. 1918, d. 6.10.1986, Högni, f. 1.2. 1920, d. 3.10. 1935. Systkini samfeðra: Sigurður Hólm, f. 6.6. 1930, Jónína Kristín, f. 28.12. 1933, d. 15.7. 2004, Sigríður Guðrún, f. 8.1. 1935.

Maki Einar Björnsson, f. 23.3. 1897, d. 1.5. 1983. Börn þeirra: 1) Björn, f. 14.11. 1941, d. 23.7. 1992, maki Ólöf Pálsdóttir, f. 5.4. 1943. Börn: Guðný Helga, f. 21.5. 1969, Einar Friðgeir, f. 28.7. 1970, Páll Sigurður, f. 16.11. 1972, Ingunn, f. 16.5. 1974. 2) Högni Ófeigur, f. 20.12. 1944, maki Guðbjörg Ester Einarsdóttir, f. 6.3. 1946. Börn: Einar Loftur, f. 3.10. 1967, Bryndís Hrund, f. 3.9. 1971, Högni Þór, f. 10.4. 1979. 3) Bjarni Þór, f. 31.3. 1948, maki Árndís Alda Jónsdóttir, f. 7.5. 1948. Börn: Ingunn Helga, f. 16.10. 1972, Ragnhildur, f. 19.5. 1976, Jón Árni, f. 30.8. 1979. 4) Kristín Guðný, f. 6.10. 1949. Börn: Ólöf Birna, f. 3.8. 1982, Friðgeir Einar, f. 22.11. 1983. 5) Jón Ingi, f. 6.10. 1949, maki Vinbjörg Ásta Guðlaugsdóttir, f. 30.12. 1956. Börn: Bessi, f. 17.2. 1979, Lára Kristín, f. 27.8. 1982. 6) Þorsteinn, f. 1.12. 1952, maki Kari Nedgaard, f. 19.9. 1954. Börn: Einar Bragi, f. 12.4. 1983, Helga Björk, f. 5.5. 1986, Jóhannes Örn, f. 18.11. 1993.

Helga fluttist eins árs með foreldrum sínum að Þjótanda í Árnessýslu. Árið 1919 flytur hún við skilnað foreldra sinna að Barði í Miðfirði og ólst þar upp hjá móðurömmu sinni, Sigríði Jónasdóttur prestsekkju frá Melstað. Eftir barnafræðslu þess tíma fékk hún að njóta frekari tilsagnar með börnum prestshjónanna á Melstað. Hún stundaði nám í tvo vetur við Kvennaskólann á Blönduósi. 4. júní 1938 giftist hún Einari Friðgeiri Björnssyni, bónda á Bessastöðum, og þar bjuggu þau alla sína búskapartíð. Hún vann á Saumastofunni Drífu á Hvammstanga frá 1973 til 1983. Hún tók virkan þátt í félagstörfum í sinni sveit, var meðal annars í sóknarnefnd Melstaðarkirkju, í stjórn Kvenfélagsins Iðju og Kvennabands Vestur- Húnavatnssýslu, skólanefnd og áfengisvarnarnefnd Ytri-Torfustaðahrepps o.fl.

Útför Helgu verður gerð frá Melstaðarkirkju í Miðfirði í dag, 19. febrúar 2011, og hefst athöfnin kl. 14.

Elskuleg tengdamóðir mín Helga Sigríður Þorsteinsdóttir er látin og kveðjum við hana í dag. Hún var mikil kjarnakona og stórkostleg persóna. Mér er minnisstætt þegar ég hitti hana fyrst fyrir 42 árum. Ég var þá rúmlega tvítug og nýbyrjuð með syni hennar Bjarna Þór. Hann fór með mig í heimsókn til að hitta mömmu sína sem var þá stödd á Hótel Sögu á þingi Kvenfélagasambands Íslands. Hún var klædd íslenskum búningi, hló hátt og mikið og sló sér á brjóst og sagðist búa á hótelinu sínu og bauð mig hjartanlega velkomna í fjölskylduna. Eftir þetta varð hún og öll fjölskyldan á Bessastöðum hluti af mínu lífi. Að Bessastöðum var alltaf gott og koma. Þegar ég kom þangað fyrst voru Bjössi og Lóa að taka við búskapnum af Helgu og Einari, og það var gaman að koma inn í svona stóra og skemmtilega fjölskyldu og þar var Helga konan sem var alltaf eins og klettur og Einar maðurinn sem sagði okkur skemmtilegar sögur og var svo ljúfur og góður félagi. Börnin okkar Bjarna Þórs voru mikið í sveit á Bessastöðum hjá Lóu og Bjössa, Einari afa og Helgu ömmu enda líta þau á Bessastaði sem sitt annað heimili. Helga var mikil prjónakona og var alltaf að búa til eitthvað fallegt og einnig bjó hún til góðan mat og allt lék í höndunum á henni. Hún kenndi mér margt og var það ómetanlegt fyrir unga stúlku úr Reykjavík að fá að kynnast sveitabúskap og matargerð á Bessastöðum. Þegar ég eignaðist drenginn minn, hann Jón Árna, haustið 1979 kom hún til okkar á Húsavík til þess að passa telpurnar mínar tvær og fékk hún þá sitt fyrsta fæðingarorlof. Þegar hún var búin að bíða í tvær vikur og ekkert bólaði á barninu, þá tók hún til sinna ráða og við fórum allar fjórar í gönguferð upp í fjall. Seinna um daginn fæddist drengurinn. Þegar ég kom heim af sjúkrahúsinu var hún búin að búa til sultu, kæfu, rúllupylsu, kleinur og margt fleira. Það var alltaf gaman að fá hana í heimsókn. Þegar Jón Árni varð mikið veikur á fyrsta ári varð ég að vera lengi með hann á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þá hjálpaði hún okkur Bjarna Þór ómetanlega með því að taka að sér heimilið á meðan. Á hverju hausti kom Helga til Húsavíkur og við vorum í berjamó heilu dagana. Við vorum þá oft þreyttar en tíndum heil ósköp af berjum. Og þá var hún Helga mín glöð og kát. Eftir að við Bjarni Þór fluttum til Hvammstanga árið 1991 varð sambandið meira við Helgu tengdamóður mína. Alltaf var jafngaman að fá hana í heimsókn og eftir að hún flutti í íbúð fyrir aldraða í Nestúni á Hvammstanga varð sambandið enn nánara. Síðustu árin dvaldi hún á Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga og fékk hægt andlát hinn 7. febrúar sl. og var ég hjá henni þegar hún skildi við. Það var mjög gott fyrir mig og ég er ánægð að hafa getað verið síðustu stundirnar með henni. Ég þakka Helgu tengdamóður minni fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir mig og mína. Hún var stór kona. Megi guð og góðar vættir vera með henni.

Árndís Alda Jónsdóttir.

Helga amma mín er látin, vil ég minnast hennar með nokkrum orðum. Ég var þess aðnjótandi að vera í sveit á Bessastöðum, í fyrstu hjá afa og ömmu, síðar hjá Bjössa og Lóu. Þar fékk ég hluta af uppeldi mínu, þar tók maður þátt í daglegri vinnu og varð að standa sig, það var gott veganesti út í lífið. Það voru fleiri sem nutu góðs af veru sinni hjá afa og ömmu sem sýndi sig í heimsóknum margra sem komu í heimsókn á sumrin. Tengslin voru og eru sterk við þetta fólk sem reyndist litlum sálum sem fóru í fyrsta sinn að heiman afburðavel.

Að kveðja ömmu sína hinstu kveðju eru tímamót. Góðar minningar frá þessum árum eru meira og minna bundnar ömmu. Ég vil þakka henni alla velvild í minn garð og minnar fjölskyldu, ég minnist hennar með virðingu.

Einar Loftur Högnason.

Elsku amma. Væntumþykja og virðing eru bestu orðin til að lýsa tilfinningum mínum til þín. Við bjuggum lengi saman á Bessastöðum og þú tókst þátt í að ala okkur systkinin upp. Það hugnaðist engum annað en að hlýða því sem þú baðst um, ekki síst vegna þess að vel unnið verk var verðlaunað með góðu og réttmætu hrósi.

Þegar ég hugsa til baka og rifja upp samverustundir okkar koma fram mörg skemmtileg atvik. Ein elsta minningin er að hlusta á þig spila á gamla fótstigna orgelið uppi í Hrútakofa og syngja með. Ekki man ég hvaða lög þar voru á ferð en minningin er góð.

Sumarið sem ég sá um æðarvarpið fyrir þig var skemmtilegt. Þrátt fyrir að þú kæmist ekki út með sjó vildir þú fylgjast með öllum æðarkollum. Voru gömlu vinkonurnar mættar í dekkin sín aftur? Var gæfa kollan á sínum stað? Þá var nú eins gott að hafa svör á reiðum höndum.

Eftir að þú fluttist á Hvammstanga var ætíð gaman að koma til þín og fylgdist þú vel með því sem var að gerast hjá fjölskyldunni. Börnin voru ætíð spennt að koma því alltaf var von á góðgæti hjá langömmu. Gott var að láta vita af sér með smáfyrirvara því þá var pönnukökustaflinn kominn á borðið þegar við mættum. Yfir pönnukökunum og mjólkurglasinu flugu margar skemmtilegar sögur frá þinni bernsku og búskaparárum á Bessastöðum.

Elsku amma, mig langar að þakka fyrir allar okkar samverustundir. Hvíl í friði.

Þinn

Einar Friðgeir.

Í dag kveðjum við elsku Helgu ömmu okkar. Helga amma var fastur punktur í lífi okkar systkinanna. Á hverju sumri fór eitthvert okkar í sveitina til sumardvalar. Það var ekki amalegt að fara með ömmu út í varp að leita að hreiðrum, fá svo súkkulaði eða ávexti í kofanum hennar í varpinu á bakaleiðinni og hlusta á hana segja okkur sögur um lífið í gamla daga á Heggstaðanesinu. Hún gerði heimsins bestu kleinur og flatkökur og þegar hún var spurð að því hvað hún setti í þær sem gerði þær svona góðar svaraði hún að bragði, nú það sem var til auðvitað. Fjölskyldan flutti til Hvammstanga árið 1991 og það var einn af jákvæðu þáttunum við að flytja landshorna á milli að flytja nær sveitinni okkar og allra sem þar voru og þar með talið ömmu Helgu. Það hjálpaði okkur unglingunum að aðlagast nýjum aðstæðum og sætta okkur við að flytja burt frá Húsavík þar sem okkur hafði liðið svo vel. Þegar amma varð 80 ára flutti hún í íbúðir fyrir aldraða í Nestúni á Hvammstanga og þar leið henni vel. Hún hafði eldhús sem var í besta falli ætlað til að hita upp mat en henni tókst að elda þar dýrindisveislur og kökur og bauð gestum og gangandi. Hún hafði alltaf gott lag á því að tala við börn og unglinga og það var mjög gestkvæmt hjá henni í Nestúni og alltaf glatt á hjalla. Árið 2003 handleggsbrotnaði hún og fór inn á sjúkrahúsið á Hvammstanga. Brotið greri ekki og hún þurfti að fara í hjólastól og átti því ekki afturkvæmt í litlu íbúðina sína í Nestúni. Hún varð því vistmaður á sjúkrahúsinu á Hvammstanga upp frá því. Hún hefði getað syrgt það og orðið dauf og guggin, en eins og hún sagði sjálf þá ákvað hún þegar hún var ung að lifa sér ekki til leiðinda. Hún sætti sig við orðinn hlut og naut þess að búa á stað þar sem hún gat fengið þá aðstoð sem hún þurfti og dundaði sér við föndur og spil og tók af fullum krafti þátt í félagsstarfinu á sjúkrahúsinu á meðan hún hafði heilsu til. Það var afskaplega vel hugsað um hana á sjúkrahúsinu og fær starfsfólkið þar okkar bestu þakkir fyrir góða umönnun í gegnum árin. Síðustu tvö árin var Helga amma rúmliggjandi og sagði sjálf að þannig hefði hún aldrei séð sjálfa sig fyrir sér og sagði oft á kvöldin að nú mætti Einar afi fara að leggja á Grána gamla og sækja sig. Nú er hann búinn að því blessaður og við kveðjum stórkostlega konu með söknuði, en huggum okkur við að hún átti gott líf. Hvíl í friði elsku amma.

Ingunn Helga Bjarnadóttir, Ragnhildur Bjarnadóttir og Jón Árni Bjarnason.

Blessunin hún Helga amma hefur nú kvatt okkur. Afi hefur líklega lagt við Gand sinn og Grána hennar ömmu og sótt hana, eins og hún var farin að bíða eftir að hann gerði. Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast vel þeirri kjarnakonu sem Helga amma var. Að alast upp ekki bara í ranni foreldra, heldur einnig undir handleiðslu afa og ömmu, tel ég vera hollt öllum börnum, eftir þá góðu reynslu sem ég og systkini mín höfðum af því. Amma bjó á Bessastöðum í tæp 60 ár, flutti þaðan árið 1995 þegar við Jói keyptum jörðina af mömmu. Amma sagðist nú ekki ætla að fylgja jörðinni og flutti þá í elliíbúðirnar í Nestúni á Hvammstanga. Ég reyndi að vera dugleg að fara með börnin mín í heimsókn til ömmu út í Nestún og eins á sjúkrahúsið, eftir að hún flutti þangað. Hún söng og kvað við krakkana, kunni ógrynni af vísum og sögum. Alltaf þurfti maður að þiggja eitthvað gott í svanginn hjá henni, það var ómögulegt annað en að maður væri svangur eftir ferðina í kaupstaðinn. Henni var hugleikið að fólkinu í kringum sig liði vel, sagðist alltaf hafa óskað þess að kaupafólkið, sem kom í Bessastaði, drykki kaffi, því það væri svo gott að geta gert eitthvað gott fyrir það. Þegar ég kom til hennar á Hvammstanga sagði hún mér iðulega einhverjar sögur frá sínum yngri árum, t.d. af því þegar hún og Sigga frænka hennar voru sendar frá Barði að Melstað með skilaboð í símann. Þá spurði Sigríður amma þeirra hvort þær myndu nú örugglega skilaboðin og gætu komið þeim til skila. „Jú, ég man og Helga talar,“ sagði þá Sigga, því hún var mjög feimin, en amma ófeimin. Sögurnar voru svo skemmtilegar og vel sagðar að ég sé vel fyrir mér sögusviðið.

Amma var lífsglöð og kát og hafði sérlega hvellan og skemmtilegan hlátur. Á mannamótum var auðvelt að finna ömmu, því það glumdu iðulega hlátrasköll þar sem hún var. Á meðan krafta naut féll henni aldrei verk úr hendi, ef hún var ekki við heimilisstörf eða hannyrðir, var hún að leggja kapal. Oft kom maður að henni þar sem hún dottaði yfir kaplinum.

Með elju og dugnaði kom amma upp æðarvarpi hér heima á Bessastöðum. Margsinnis kom hún sár og svekkt heim eftir að vargurinn hafði spillt megninu af hreiðrunum. Ósköp sem hún gat verið reið við varginn, steytti hnefann að hrafninum og mávunum og sagði þeim til syndanna. Stundum kom hún heim með blóðtauma niður andlitið, en það var allt í lagi því það var bara eftir kríurnar, en þær voru miklar vinkonur hennar, enda hjálpuðu þær henni í baráttunni við vargana.

Mjög vel var hugsað um ömmu á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Nefndi hún stundum við mig að það væri nú meiri munurinn að vera þarna með þetta góða fólk að hugsa um sig, sem fengi svo meira að segja borgað fyrir það, heldur en að við værum bundin yfir henni heima. Hún hafði annast margt gamalmennið og sjúklinginn heima á Bessastöðum og eins í barnæsku á Barði, eins og tíðkaðist í þá daga.

Með þessum orðum og miklum og góðum minningum vil ég þakka elsku ömmu fyrir samfylgdina og leiðsögnina.

Guðný Helga og fjölskylda.

Þegar ég skrifa síðustu kveðjuorðin til Helgu systur, þá er ég þess fullviss að hún dó sátt við allt. Kynni okkar hófust þegar ég var 10 ára og kom til sumardvalar hjá þeim hjónum Helgu og Einari. Hún var elst en ég yngst okkar systkina, munaði 20 árum. Var ég hjá þeim næstu fimm sumrin en þá fór ég í iðnnám. Þetta var góður tími. Ég fékk að gera svo margt skemmtilegt eins og að reka stóðið með þrjá til reiðar sem var mikið ævintýri, slá með orfi og ljá, var kennt að elda, baka og búa til konfekt. Þessu bý ég að enn í dag, alltaf sömu gæðin og örvunin og hlýr faðmur sem ég þurfti á að halda og var hún í mínum huga mamma tvö, sem alltaf var hægt að leita til. Svo voru það stuttar heimsóknir á sumrin í nokkur ár.

Þegar við Sverrir giftum okkur og byrjuðum að búa og eignast börn reyndust þau hjónin okkur einstaklega vel, því þá þurfti ég oft að liggja á sjúkrahúsum um langan tíma. Elsta barn okkar var sex ára þegar hann fór fyrst í sveitina og var fram yfir fermingu, eitt sinn fram að jólum, því þá lá ég nærri fimm mánuði. Kom hann heim á Þorláksmessu með skreyttar tertur og smákökur til jólanna frá Helgu. Fannst honum hún vera mamma tvö eins og mér. Eins fór ég með yngri börnin norður og dvaldi um sumartímann, fór þá á bílnum, þar sem Sverrir var með hópa í vinnu úti á landi. Gat ég þá snúist og sótt fólk á rútuna, því það var alltaf mikill gestagangur og eitt sinn man ég eftir að það voru 25 manns um helgi. Gekk það bara vel því það hjálpuðust allir að.

1977 var ákveðið að fara í heimsókn til systur okkar og mágs, sem bjuggu í Noregi. Við fórum með Smyrli og vorum fimm manns; Helga, við hjónin og tvö yngri börnin. Þessi ferð varð fjögurra landa sýn og hringurinn á Íslandi. Þetta var fyrsta utanlandsferð Helgu, en ekki sú síðasta. Var hún vel heppnuð í alla staði og ógleymanleg fyrir okkur öll.

Það er í rauninni mjög mikilvægt í lífinu að eiga vináttu sem er svo einstök, fyrir það viljum við fjölskyldan þakka.

Sendum börnum, tengdabörnum og afkomendum Helgu samúðarkveðjur.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

Þökkum yndislegar stundir. Guð geymi þig.

Sigríður, Sverrir og börn.

Mig langar að minnast móðursystur minnar hennar Helgu. Hún var stór hluti af mínu lífi þegar ég var að alast upp þar sem við systkinin fórum mörg sumur norður með mömmu. Eitthvað hefur mér fundist Helga ömmuleg á þeim tíma sem ég fór að tala, þótt hún væri ekki orðin amma, svo ég kallaði hana ömmu. Var mér þá vinsamlega bent á að hún væri móðursystir mín en ekki amma. Þá á ég að hafa sagt að þá væri hún bara „Helga amma móðursystir mín“ og það hefur hún síðan verið í mínu hjarta. Helga var hress og glaðleg kona, það var alltaf mikið að gera hjá henni og mikill gestagangur. Það var alltaf pláss fyrir þá sem komu og allir velkomnir. Ég á óskaplega góðar minningar frá Bessastöðum og þar var gott að fá að vera sem barn. Nálægð við sjóinn var óskaplega spennandi og miklir fjársjóðir sem fundust í fjörunni. Það var líka flott bú við bæjarlækinn og hestar í heimahaga. Þær voru ófáar ferðirnar sem við krakkarnir fórum á „barnahestinum“ um túnin og meðferðin var ekki alltaf sem best þegar kappið fór með okkur og við vildum fara hraðar. Ekki má gleyma fjósinu en ég, gamla fjósið og fjóshaugurinn tengdumst á ógleymanlegan hátt. Þar gerðust tilraunir og of mikil nánd sem ekki þætti fínt í dag. Ég minnist „Helgu ömmu móðursystur minnar“ með mikilli hlýju og þakka fyrir að hafa fengið að kynnast henni á þann hátt sem ég gerði. Guð veri með þér.

Sóley Sverrisdóttir.

Heiðurskonan Helga á Bessastöðum er fallin frá. Hún er eflaust komin við hlið Einars síns eftir nokkra bið. Þegar fjölskylda mín fluttist að Söndum voru þau Bessastaðahjón Helga og Einar fyrstu nágrannarnir sem ég man eftir. Þannig var að Helga var á heimleið með Högna son sinn nýfæddan, og á Söndum þurfti að skipta um farkost því ekki var þá bílvegur vestur yfir hálsinn. Þetta var í desember og snjór á jörðu. Einar beið hennar með hest og sleða, en á sleðanum var útbúin aðstaða fyrir móður og barn. Fjölskyldan hélt síðan heimleiðis, en mér 6 ára stelpunni fannst þetta undarlegur ferðamáti.

Þær urðu fljótt góðar vinkonur móðir mín og Helga og hélst það meðan báðar lifðu. Það voru og mikil samskipti milli þessara tveggja heimila. Þeir Bessastaðabændur Einar og Bjarni áttu bát og faðir minn fór nokkrum sinnum með þeim í róður að veiða í soðið. Það kom fyrir á haustin að mjólkurlaust var á Söndum. Allar kýrnar snemmbærar. Þá var rölt yfir í Bessastaði eða farið á gamla Bleik að sækja mjólk eða að Helga sendi einhvern með mjólkurflöskur yfir að Söndum. Þegar börnunum fjölgaði á Bessastöðum var þörf fyrir snúningastelpu og ég var svo lánsöm að vera ráðin. Þetta var skemmtilegt þrátt fyrir að ég væri ekki mikið fyrir börn. Helga alltaf kát og skemmtileg og fólkið allt svo notalegt. Þá var mjólkin skilin, þ.e. í skilvindu, en fyrst tekin frá neyslumjólk fyrir heimilið þar á meðal í þrjú drykkjarmál fyrir strákana. Þetta fannst mér alveg fráleitt en Helga sagði að strákarnir vildu hafa rjómaskán ofan á könnunum sínum. Ekki öfundaði ég þá af þessu því ekki vildi ég mjólk með rjómaskán.

Ég var um áramót hjá Helgu þegar Nonni og Stína voru tveggja ára. Á gamlárskvöld var svo gengið í kringum jólatréð og sungið af hjartans lyst. Krakkarnir kunnu mörg lög og vísur. Ekki þurfti sérstakan forsöngvara því Jón Ingi tók það að sér óbeðinn. Ég hef aldrei heyrt svona ungt barn syngja svona hátt og snjallt.

Heimili þeirra Helgu og Einars var alltaf mannmargt og hún félagslynd og áhugasöm um allt sem gæti auðgað mannlífið. Kvenfélagið okkar og Kvennaband V-Hún. hafa notið verka hennar um áratugaskeið.

Helga og mamma nutu þess báðar að ferðast og gjarnan að komast í veiðiskap. Fyrri hluta sumars fyrir allmörgum árum var ákveðið að skreppa í veiðiferð fram á Arnarvatnsheiði. Þetta var áður en bílvegur var lagður fram að Arnarvatni og þá farið fram „Kjálka“. Hestar voru tiltækir og allur útbúnaður. Það var fríður flokkur Helga, mamma, og Dóra systir og svo leiðsögumaðurinn Jón Sveinsson, þá búsettur í Hnausakoti. Þessi ferð tók nokkra daga og til baka komu þau endurnærð með hesta klyfjaða silungi og fjallagrösum. Oft var minnst eftirminnilegra atvika úr þessu ferðalagi.

Er við kveðjum Helgu er margs að minnast en mér er efst í huga þakklæti fyrir vináttu og tryggð við mig og mína fjölskyldu. Einnig frá systkinum mínum og fjölskyldum þeirra. Í Guðs friði.

Sólrún K. Þorvarðardóttir.

„Margs er að minnast – margt er hér að þakka.“ Þessar ljóðlínur sálmaskáldsins eiga sannarlega vel við í dag þegar kvödd er heiðurskonan Helga á Bessastöðum, eins og hún var jafnan nefnd í sinni sveit. Langri og farsælli vegferð er lokið. Helga var merk kona og eftirminnileg fyrir margra hluta sakir. Henni fylgdi jafnan hlýr og hressandi blær. Hreinlynd og hispurslaus í framgöngu og allir, sem hana þekktu, muna hláturinn hennar hvellan og smitandi. Mannblendin og félagslynd gekk hún innan fermingar í ungmennafélag sveitarinnar og vann þar vel að ýmsum málefnum félagsins með öðru góðu fólki.

En æskan leið við leik og störf heima á Barði, þar sem hún ólst upp frá fjögurra ára aldri eftir skilnað foreldranna, hjá móðurömmunni og prestsekkjunni Sigríði Jónasdóttur. Við tók nám í Kvennaskólanum á Blönduósi og fljótlega upp úr því gifting og búskapur. Brúðguminn var ráðsettur bóndi í sveitinni, Einar Friðgeir Björnsson á Bessastöðum. Aldursmunur á þeim hjónum var að vísu allmikill, eða 18 ár, en það kom aldrei að sök því traust og samhent bjuggu þau góðu búi á Bessastöðum og eignuðust 6 börn.

Heimilið var jafnan mannmargt. Auk hinnar stóru fjölskyldu voru börn og unglingar í sumardvöl og fólk í kaupavinnu á árum áður. Öllum þótti gott að vera á Bessastöðum og margir komu þangað til dvalar ár eftir ár. Hér átti húsfreyjan sinn stóra þátt með sínu hlýja viðmóti og glaðværð og var það þeim hjónum báðum eðlislægt. Einnig var alkunn hennar gestrisni og rausn við að metta alla bæði heimafólk og gesti. Þótt búsannir og barnauppeldi tækju eðlilega mestan tíma á búskaparárunum tók hún virkan þátt í félagsmálum sveitarinnar. Í 40 ár starfaði hún í kvenfélaginu Iðju og var þar oft í forystusveit. Auk þess átti hún sæti bæði í skólanefnd og sóknarnefnd og er þó ekki allt talið í þeim efnum. Það geymist vel í minni okkar eldri karlakórsfélaga er við komum saman til æfinga á söngloftinu á Bessastöðum. Karlakór hafði verið endurvakinn í héraðinu, en söngstjóri var Ólöf tengdadóttir Helgu og húsfreyja á Bessastöðum. Allir voru ánægðir eftir vel heppnaða æfingu og góðar móttökur, þó held ég að enginn hafi verið glaðari en gamla húsmóðirin, sem hafði bæði verið veitandi og þiggjandi – veitt gestum af sinni alkunnu rausn og einnig verið áheyrandi að söngnum, þar sem helst mátti ekki missa af neinu lagi. Söngur var henni mikill gleðigjafi og lífsfylling og naut hún þess ætíð vel að hlusta á söng þó að ekki tæki hún sjálf þátt í þeirri list.

Við leiðarlok er ljúft og skylt að þakka. Ég og mín fjölskylda eigum hér miklar þakkir að gjalda. Ung að árum varð konan mín þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga vist hjá þeim Bessastaðahjónum. Fyrir þá dvöl var hún ævinlega ákaflega þakklát. Traust og gagnkvæm vinátta og virðing myndaðist, sem entist meðan báðar lifðu. Þessa nutu börn okkar líka í ríkum mæli. Öllum aðstandendum Helgu flyt ég hlýjar samúðarkveðjur.

Magnús Guðmundsson.

Hún hefur kvatt þetta líf hún Helga mín. Farin á vit ættfeðra sinna. Eflaust södd lífdaga og sátt við sitt framlag til okkar sem enn fáum að njóta þess að lifa lífinu og ylja okkur við minningar. Það fyrsta sem kemur upp í huga mér þegar ég hugsa um Helgu er stórt hjarta og breiður faðmur. Það var mikil gæfa fyrir mig að fá að fara í sveit til hennar Helgu og Einars sumarið 1967, þá sjö ára. Ekki er hægt að tala um eða minnast Helgu öðruvísi en að Einar fylgi með. Samrýndari og meira samtaka hjón er erfitt að finna. Fallegur koss í morgunsárið þegar þau hittust eftir að hvort um sig hafði sinnt sínum morgunverkum. Hann búinn að mjólka kýrnar og hún búin að útbúa morgunmat fyrir hann og þann fjölda fólks sem í kring um þau var. Hlýja og nærgætni þeirra hvors í annars garð var svo góð að helst vildi ég festast í aðstæðunum. Mikinn lærdóm má draga af samskiptum þeirra hjóna. Helga réð ríkjum innanhúss og fórst henni það einstaklega vel úr hendi. Í minningunni er þetta veisla frá morgni til kvölds. Já, gæði lífsins eru margbrotin. Gæfa mín var að komast í hendurnar á henni Helgu og fá að njóta þess að vera í sveitinni. Barnbetri manneskju hef ég ekki hitt. Svo yndislega góð og mikil virðing borin fyrir lífinu og þeim sem í kring um hana voru. Rúmið var eins og prinsessurúm með stórri þungri sæng sem umvafði mig á nóttunni eins og Helga gerði á daginn. Vakna upp við dásamlega kleinuilminn, dansa um allt húsið. Börn eru leiðinleg ef þau fá ekki að sofa var viðkvæði. Við fengum að leika okkur og gera tilraunir með allt og á öllu, leita að svörum, lesa spennandi bækur, spila á spil, ríða út og gleðjast. Þetta voru slík forréttindi að leitun er að öðru eins fyrir barnssálina. Það er hægt að gleyma sér við að rifja upp þessa dýrðardaga.

Hún var alltaf hrókur alls fagnaðar, tók á móti fólki hlæjandi og veitti vel. Var snillingur í að matbúa og baka. Hún prjónaði lopapeysur og annað prjónles eins og verksmiðja, féll ekki verk úr hendi. Svona var hún Helga, alltaf að gera eitthvað fyrir aðra og taldi ekki eftir sér. Lífið var eflaust ekki alltaf dans á rósum hjá henni Helgu. En það bar hún ekki á torg. Hún fékk að drekka af bikar sorgar. Erfitt hefur það verið þegar Einar kvaddi þennan heim, þá missti hún í leiðinni hluta af sjálfri sér. Þyngra en tárum taki hefur verið fyrir hana að horfa á eftir frumburði sínum á besta aldri kveðja. En Helga tók þessu með stóískri ró og æðruleysi. Bessastaðir voru í tíð Helgu félagsheimili fyrir ættingja og vini. 25 manns plús var ekkert óalgengt um helgar. Einu sinni man ég að ég taldi 42 næturgesti og þá svaf Einar bóndi á eldhúsborðinu. Já, og velgjörðirnar og gestrisnin var engu lík, allir glaðir. Já, glaðir. Það er mildi að Helga hefur nú fengið hvíld. Farin að hlæja með öllu sínu fólki sem horfið er, eflaust farin að steikja kleinur og prjóna. Hlæjandi sínum dillandi og smitandi hlátri. Takk fyrir að fá að ganga þennan vegstubb með þér.

Hví í friði elskulega vinkona.

Guðfinna Guðmundsdóttir.