Fjölskylda og veiðifélagar Skúla Péturssonar eiga aldeilis von á góðu í kvöld þegar hann býður þeim til matarveislu í tilefni þess að hann er fimmtugur í dag.

Fjölskylda og veiðifélagar Skúla Péturssonar eiga aldeilis von á góðu í kvöld þegar hann býður þeim til matarveislu í tilefni þess að hann er fimmtugur í dag. Fyrir utan sætabrauðið og meðlætið er einungis boðið upp á villibráð en Skúli er veiðimaður mikill. Meðal veislufanga eru grafnar heiðagæsir og reyktur lundi en einnig skarfur í tveimur útgáfum, annars vegar marineraður í appelsínulegi og með appelsínusósu og hins vegar marineraður í kókos og sojasósu. Þá ætlar Skúli að bjóða upp á selkjötspottrétt í maltsósu og selasteik með rjúpnasósu. Skúli segir að þegar búið sé að taka fitulagið af sé selskjötið alveg fitulaust og með fallegra kjöti sem fáist. „Það er svolítið sjávarbragð af honum eins og af hvalkjöti og af sjófugli. Og þetta er dökkt kjöt og svolítið járnbragð, eða lifrarbragð, sem kemur,“ segir Skúli.

Skúli veiddi ekki alla villibráðina sjálfur. Vitandi hvað til stóð höfðu veiðifélagar Skúla látið hann fá stærri hluta af fengnum í einstökum veiðiferðum, t.d. af selnum. „Svo á næsta ári, ef einhver annar er með fermingu eða eitthvað slíkt, þá tekur hann meirihlutann,“ segir Skúli. Hann var í fríi í gær til að undirbúa veisluna. runarp@mbl.is