Albert J. Kristjánsson fæddist að Sundstræti 33 á Ísafirði 3. október 1920. Hann lést 3. febrúar 2011.

Útför Alberts fór fram frá Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði 11. febrúar 2011.

Þegar ég settist niður og ætlaði að minnast afa míns í fáum orðum þá gerði ég mér gein fyrir því að það gæti orðið erfitt, því fá orð geta varla lýst jafnmiklum manni og hann var.

Við sem þekkjum hans lífshlaup vitum að það var ekki neinn dans á rósum, þessi mikli dugnaðarforkur barðist áfram veginn ásamt ömmu Laugu og eignuðust þau 6 börn. Ég var svo heppinn í mínu uppeldi að búa alltaf nálægt afa og ömmu. Þegar þau bjuggu í Kóngsgerðinu þá var leikur einn fyrir mig, guttann, að ganga yfir til afa og ömmu. Seinna meir fluttu þau á Sléttahraunið, þangað var alltaf spennandi að koma að hitta afa og ömmu, eins systkini pabba. Þar sat afi og prjónaði af kappi og amma með rjúkandi pönnsur, alltaf fór maður saddur heim og stundum í nýrri peysu.

Árin liðu og alla tíð hugsaði afi um sig og sína, reglulega var hringt til að fá fréttir af sínu fólki, já, hann afi minn hugsaði vel um sína stórfjölskyldu. Ég man eitt sinn þegar ég var nýbyrjaður að læra til smiðs þá skoðar hann mínar hendur og segir: Þú ert ekkert marinn eða blár, er ekkert að gera í vinnunni? Já, hann var glettinn.

En núna er afi vonandi búinn að hitta ömmu aftur. Ég vil þakka þér, afi minn, fyrir öll árin sem ég fékk með þér, allt á sér upphaf og endi og nú er víst komið að leiðarlokum. Takk fyrir okkur, afi minn, og hvíl þú í friði.

Þorsteinn I. Kristjánsson.

Elsku besti afi minn, nú ertu loksins kominn til ömmu eins og þú þráðir svo heitt.

Þið sameinuðust aftur á mínum degi og ég mun ævinlega minnast þess með gleði í hjarta fyrir ykkar hönd.

Það verður skrítið að hafa þig ekki lengur hjá okkur, ég á eftir að sakna stundanna okkar saman og bíltúranna. Það var ómetanlegt að heyra sögurnar þínar og hvað þú hefur reynt um ævina sem hefur ekki verið auðveld en þú lést ekkert á þig fá og gerðir það sem þú ætlaðir þér. Þú varst hörkutól en svo góður og blíður og vildir engum illt og hafðir fjölskylduna í fyrsta sæti og hugsaðir vel um þína.

Nú sitja eftir minningarnar um yndislegan afa og ylja mér um hjartarætur. Það verður erfitt að fylla það tómarúm sem þú skilur eftir en ég veit að þú ert hvíldinni feginn og færð loksins að hvíla hjá elsku ömmu.

Þið voruð einstök hjón og svo samhent, það var yndislegt að eiga ykkur að, það var alltaf svo gaman þegar þú og amma birtust í heimsókn eins var það alltaf mikið sport að heimsækja ykkur, þið voruð svo dugleg að rækta fjölskylduna og hvort annað. Það var yndislegt að sjá ykkur sitja saman hlið við hlið með prjóna í hönd bæði tvö, að prjóna peysur, sokka og vettlinga á fjölskylduna.

Ég á margar skemmtilegar sögur og minningar til að deila með litlu langafastelpunum þínum, Þóru Sillu og Árdísi Emblu, sem voru svo hrifnar af þér og mun óspart nýta mér það.

Elsku afi, nú er komið að kveðjustund hérna megin. Nú hefurðu líka hitt elstu börnin þín tvö aftur, hana Ingu Laugu og hann elsku pabba minn. Ég efast ekki um að þau hafi tekið vel á móti þér ásamt ömmu.

Ég bið góðan guð að geyma þig og minning þín mun lýsa mér um ókomin ár.

Takk fyrir allt, elsku afi.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín

Berglind Ósk (Óska).

Ég læt hugann reika rúmlega 40 ár aftur í tímann, ég sé þá fyrir mér háan og grannan mann mann sitja við eldhúsborðið á heimili sínu í Súðavík, gjarnan með pípu í hönd. Þessi maður átti eftir að verða tengdafaðir minn og reyndist hann mér sem besti faðir alla tíð, var alltaf til taks ef einhvers þurfti með, stóð fremstur í flokki að rétta öðrum hjálparhönd ef á þurfti að halda og hlífði sér hvergi.

Á seinni árum prjónaði hann ósköpin öll af lopapeysum ásamt Laugu sinni, ég hef oft hugsað að það hverfur margt dýrmætt með þessari kynslóð, en við reynum að varðveita eitthvað af því sem við lærðum af henni. Vestfirðingurinn er hertur af umhverfi sínu og mótast af því á margan hátt.

Að leiðarlokum vil ég þakka Alberti það sem hann var mér og mínum börnum og bið Guð að geyma hann.

Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,

og enginn stöðvar tímans þunga nið.

Í djúpi andans duldir kraftar bíða. –

Hin dýpsta speki boðar líf og frið.

Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.

Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk,

í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,

og hennar líf er eilíft kraftaverk.

(Sigurður Þórðarson/

Davíð Stefánsson)

Þóra B. Jónsdóttir.