[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson Gísli Baldur Gíslason Með tveimur olíugirðingum tókst í gærdag að ná tökum á olíulekanum úr Goðafossi, sem strandaði í fyrrakvöld nokkrar sjómílur út af Fredrikstad í Noregi.

Ágúst Ingi Jónsson

Gísli Baldur Gíslason

Með tveimur olíugirðingum tókst í gærdag að ná tökum á olíulekanum úr Goðafossi, sem strandaði í fyrrakvöld nokkrar sjómílur út af Fredrikstad í Noregi. Skipið situr enn fast á skeri um 100-200 metra frá landi, en undirbúningur að dælingu úr skipinu var hafinn í gær. Ekki er víst hvenær og hvernig reynt verður að ná skipinu af strandstað, en það verður að öllum líkindum gert snemma í dag.

Í fyrstu var óttast að olíumengunin myndi hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir náttúruna í kring. Afleiðingarnar virðast ekki ætla að verða jafnslæmar og haldið var í fyrstu.

Áhöfnin enn um borð

Fjórtán manna áhöfn er á Goðafossi og er hún ekki talin í hættu. Gott veður hefur verið á slysstað og talið að svo verði áfram næstu daga.

„Áhöfnin er öll um borð í skipinu ennþá. Hún mun halda kyrru fyrir um borð. Á meðan aðstæður breytast ekki þá telja menn ekki ástæðu til þess að annað verði,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.

Misreiknaði stefnuna

Skipstjóri Goðafoss var kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu í gær til að gera grein fyrir orsökum slyssins. Fjölmiðillinn Aftenposten í Noregi greindi frá því í gærkvöldi að skipstjórinn hefði viðurkennt að hafa misreiknað stefnuna og farið útaf réttri leið með þeim afleiðingum að skipið tók niðri á rifi. Þá hefði hann verið einn í brúnni þegar slysið átti sér stað.

Ólafur William segir að Eimskip hafi ekki fengið neinar upplýsingar um efni skýrslunnar enn og geti því ekki tjáð sig um rannsóknina að svo stöddu. Eimskip hafði ekki haft samband við skipstjórann eftir að frétt Aftenposten birtist, en hann var þá að hvílast.

Ekki liggur fyrir hvenær sjópróf verður haldið vegna slyssins.

Dýnamít en engin eiturefni

Um borð í Goðafossi eru 430 gámar. Að sögn Ólafs Williams innihalda þeir flestir almennan farm. Fram kom á heimasíðu norsku siglingastofnunarinnar í gær að um borð væru meðal annars tólf tonn af sprengiefni og auk þess hvellhettur. Sagt var að þessi efni sköpuðu ekki hættu við óbreyttar aðstæður, en ástæða væri til aðgæslu.

„Það er dýnamít í einum gámnum en svo er fiskur, neysluvörur, raftæki og annað. Það eru engin eiturefni um borð,“ segir Ólafur William. Hann segir að farmurinn sé öruggur um borð eins og er. „Viðskiptavinir okkar sem eiga farm í skipinu hafa sýnt mikla stillingu og bíða frekari fregna af farminum.“

Margra milljóna tjón

Eimskip hefur þegar gert ráðstafanir vegna slyssins og hefur félagið leigt skip til að sinna verkefnum Goðafoss.

„Það er annað skip komið í rútu fyrir Goðafoss og fyllir upp í það skarð sem skapast á meðan hann er ekki siglingarhæfur. Það er eitt skip núna á leið til Evrópu og mun halda þessari rútu áfram,“ segir Ólafur.

Ljóst er að Eimskip mun bíða mikið tjón af slysinu. Ólafur segir að tjónið hlaupi sennilega á tugum milljóna hið minnsta. Fjárhagslegt tjón vegna slyssins er þó ekki efst á baugi hjá Eimskip, að sögn Ólafs.

„Við einbeitum okkur fyrst og fremst að því að koma í veg fyrir umhverfisslys og að starfsfólk okkar og áhöfn sé örugg.“

Spila í takt á strandstað

Norskir ráðherrar voru upplýstir um slysið og fóru á vettvang til að skoða aðstæður. Norska strandgæslan, Eimskip og umhverfissamtök hafa unnið saman að björgunaraðgerðum. Eimskip sendi fjóra fulltrúa til Fredrikstad í gærmorgun. Norska strandgæslan hefur yfirumsjón með aðgerðum sem snúa að verndun náttúrunnar á staðnum. Ólafur segir samstarfið hafa gengið vel.

„Allur þessi hópur er að vinna saman eins og vel þjálfuð hljómsveit, það eru allir að spila í takt.“

Norskt björgunarfyrirtæki undirbjó í gær áætlun um hvernig hægt yrði að bjarga skipi og farmi. Áður en hafist verður handa þurfa yfirvöld í Noregi að yfirfara slíkar áætlanir og gæti það orðið fyrir hádegi í dag. Siglingaleiðin þar sem Goðafoss strandaði er opin, en sjófarendum er bent á að fara með gát.

Um 800 tonn af olíu voru í tönkum Goðafoss og virðist leki hafa komið að tveimur tönkum miðskips og jafnvel þeim þriðja. Eins og áður greinir voru tvær olíugirðingar settar umhverfis skipið í gær. Sú þriðja var til taks.

Í gær var verið að meta hvort og hvenær gámarnir yrðu fluttir frá borði. Norska siglingastofnunin aflaði í gær upplýsinga um hvaða farmur er í gámunum.

Mikið af skerjum

Goðafoss var á leið frá Fredrikstad í Noregi til Helsingborg í Svíþjóð þegar hann strandaði á áttunda tímanum í fyrrakvöld, nokkrar sjómílur út af Fredrikstad. Siglingaleiðin á svæðinu er mjög þröng og er mikið af skerjum þar, segir í frétt Eimskips. Þar sem skipið strandaði er þjóðgarður á landi, sjó og skerjum.

Stórt skip
» Goðafoss er stærsta skip íslenska flotans, ásamt Dettifossi, öðru skipi Eimskips. Skipið er 165 metrar á lengd. Það er sautján ára gamalt.
» Um borð í Goðafossi eru 430 gámar, meðal annars má þar finna tólf tonn af sprengiefni og hvellhettur.
» Um 800 tonn af olíu voru í tönkum Goðafoss þegar hann strandaði.

Risavaxið verkefni framundan við hreinsun

• Virðist hafa tekist að ná tökum á lekanum, segir forseti bæjarstjórnar í Hvaler

„Það lítur út fyrir að tekist hafi að ná stjórn á olíulekanum,“ sagði Eivind Norman Borge, forseti bæjarstjórnar í Hvaler, um miðjan dag í gær. „Það er hins vegar ljóst að mikið af olíu hefur lekið frá skipinu og framundan er gífurlegt verkefni við að hreinsa olíuna upp.“

Goðafoss strandaði í raun í sjálfum þjóðgarðinum í Ytri-Hvaler í skerjagarðinum yst við Óslóarfjörðinn í Noregi. Garðurinn var formlega opnaður 9. september 2009 (090909), en lífríkið þar er sérstakt og sjaldgæfar plöntur og sumarfuglar eiga þar griðastað. Stórt kóralrif innan skerja á sér vart hliðstæðu, en Goðafoss strandaði nokkuð frá rifinu.

Olía finnst í fuglum

Mikill viðbúnaður var á strandstað og í næsta nágrenni í gær. Olíugirðingar voru settar umhverfis skipið, en eigi að síður hafði olíubrák dreifst eitthvað og olía náð til skerja og tanga í nágrenninu.

„Það hjálpar að hér er gott veður, lítill vindur, sjólítið og kalt þannig að olíuna rekur minna, en ef veður væri verra,“ segir Eivind Borge. „Hér hafa fundist olíumengaðir fuglar, en aðstoðarfólk hefur í dag reynt að bjarga sjófuglum. Það er risaverkefni framundan við hreinsunarstörf. Við ætlum ekki að láta þetta slys skemma þetta einstaka svæði sem Hvaler er.“

Fjöldi sumarhúsa

Í sveitarfélaginu Hvaler eru 830 eyjar, hólmar og sker. Rúmlega fjögur þúsund manns eru með lögheimili í Hvaler. Þar eru um 4.700 sumarhús og þar er því að finna einn af vinsælli sumardvalarstöðum í Noregi. Íbúafjöldi staðarins fer yfir 30 þúsund manns yfir sumarmánuðina.

Á Kirkjueyju er ráðhús sveitarfélagsins og þar er að finna margvíslega þjónustu.

Helga Steingrímsdóttir, kennari í Fredrikstad í Noregi, segir að Goðafoss hafi strandað á versta stað sem hægt sé að hugsa sér. Þetta sé einn fallegasti staðurinn í Óslóarfirði og fjöldi fólks sæki þetta svæði á sumrin til að njóta einstakrar náttúru.

Einn fallegasti staðurinn í Óslóarfirði

„Þetta er einn fallegasti staðurinn í Óslóarfirði og algjör paradís á sumrin,“ sagði Helga. „Fólk kemur þarna til að liggja á ströndinni á sumrin. Það er margt af fólki sem kemur frá Ósló til að njóta náttúrunnar. Þetta er eitt dýrasta svæði fyrir sumarhús í Noregi,“ sagði Helga sem býr ásamt Eiríki Haukssyni tónlistarmanni stutt frá þeim stað þar sem Goðafoss strandaði.

Helga sagði að fólk á þessu svæði hefði eðlilega áhyggjur af olíumengun frá skipinu, en henni hefði skilist að ástandið væri ekki eins slæmt og óttast var í fyrstu. Hún sagði miklu skipta að tækist að koma í veg fyrir olíumengun.