Í bók sinni Séra Baldur segir Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði frá bernsku sinni á Hofsósi, en þar var faðir hans kaupmaður og póstafgreiðslumaður, en afgreiddi einnig skip Eimskips og „hafði svokallaðan bringingarbát til að flytja vörurnar í...

Í bók sinni Séra Baldur segir Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði frá bernsku sinni á Hofsósi, en þar var faðir hans kaupmaður og póstafgreiðslumaður, en afgreiddi einnig skip Eimskips og „hafði svokallaðan bringingarbát til að flytja vörurnar í land“. Af því tilefni orti karlinn á Laugaveginum:

Í Hofsós á bringingarbát

var Baldur og aldan er kát,

hann var þar sem gestur

en vígðist svo prestur

í Vatnsfjörð – og Kristur varð mát.

Jóhannes Hannesson orti:

Það er eitt sem ég aldrei fæ skilið:

ef ég ætla að ganga upp þilið

losna iljarnar frá

og fæturnir ná

ekki að fylla að gagni upp í bilið.

Ég hef alltaf ímyndað mér að þessi limra sé kveikjan að þessari limru Kristjáns Karlssonar:

„Víst er gaman að ganga upp þil,“

sagði Guðný og labbaði upp þil.

„Eða fyndist þér gaman

jafngreindum í framan

að geta ekki labbað upp þil?“

Í athugasemdum við bók sína Limrur segir Kristján: „En áður en limran fékk nafn og náði fótfestu hérlendis bregður hættinum eða að minnsta kosti líkum brag fyrir í íslenskum kveðskap, til dæmis í danslagatextum, en einkum í sálmum:

Hvað eru dauðlegir menn, að þú minnst þeirra getur,

mannanna börn, að þú vegsemdar slíkrar þau metur?

Manninn á jörð

máttugri englanna hjörð

lítið eitt lægra þú setur.

Þannig kvað séra Valdimar Briem í sálmi.“

Hér kemur limra eftir Kristján:

Það var veisla og geysilegt gaman

og gestirnir bjartir í framan

yfir lystugum orðum

en innst undir borðum

lá eilífðin hnipruð saman.

Halldór Blöndal

halldorblondal@gmail.com