Goðafoss Tvær olíugirðingar voru lagðar í kringum skipið til að koma í veg fyrir mengun. Sú þriðja er enn til taks, en ekki er talið að þörf verði á henni.
Goðafoss Tvær olíugirðingar voru lagðar í kringum skipið til að koma í veg fyrir mengun. Sú þriðja er enn til taks, en ekki er talið að þörf verði á henni. — Scanpix
Ágúst Ingi Jónsson Gísli Baldur Gíslason Goðafoss verður að öllum líkindum færður af strandstað í dag, en hann hefur setið fastur á skeri skammt frá Fredrikstad í Noregi síðan í fyrrakvöld.

Ágúst Ingi Jónsson

Gísli Baldur Gíslason

Goðafoss verður að öllum líkindum færður af strandstað í dag, en hann hefur setið fastur á skeri skammt frá Fredrikstad í Noregi síðan í fyrrakvöld. Um 800 tonn af olíu voru í tönkum Goðafoss og var í fyrstu óttast að slysið myndi hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir náttúruna á svæðinu. Með tveimur olíugirðingum tókst í gærdag að ná tökum á olíulekanum úr skipinu. Afleiðingarnar virðast því ekki ætla að verða jafnslæmar og haldið var í fyrstu. Undirbúningur að dælingu úr skipinu var hafinn í gær.

Fjórtán manna áhöfn er á Goðafossi og er hún ekki talin í hættu. Áhöfnin er öll um borð í skipinu ennþá og mun halda kyrru fyrir um borð.

Skipstjóri Goðafoss var kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu í gær til að gera grein fyrir orsökum slyssins. Norska dagblaðið Aftenposten greindi frá því í gærkvöldi að skipstjórinn hefði viðurkennt að hafa misreiknað stefnuna og farið út af réttri leið með þeim afleiðingum að skipið tók niðri á rifi.

Um borð í Goðafossi eru 430 gámar. Flestir innihalda almennan farm en dýnamít er þó í einum þeirra.

Eimskip hefur þegar gert ráðstafanir vegna slyssins og hefur félagið leigt skip til að sinna verkefnum Goðafoss.

Fjárhagstjón vegna slyssins hleypur sennilega á tugum milljóna króna, hið minnsta.

Skárra en fyrst var talið 18

Vel heppnaðar aðgerðir
» Norska strandgæslan, Eimskip og umhverfissamtök hafa unnið saman að björgunaraðgerðum.
» Eimskip sendi fjóra fulltrúa til Fredrikstad í gærmorgun.
» Norskir ráðherrar fóru á vettvang til að skoða aðstæður.