Madríd Umfjöllun spænskra fjölmiðla um Icesave-kosningar er jákvæð.
Madríd Umfjöllun spænskra fjölmiðla um Icesave-kosningar er jákvæð. — Reuters
Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is Spænskir fjölmiðlar hafa gert þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór síðastliðinn laugardag góð skil.

Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

Spænskir fjölmiðlar hafa gert þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór síðastliðinn laugardag góð skil. Dagblaðið El País hefur fjallað umtalsvert um Icesave-málið, hvort tveggja um aðdraganda atkvæðagreiðslunnar og jafnframt um eftirmál hennar.

Sérlega athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðum sem skapast hafa um fréttir blaðsins enda er nokkurn veginn hægt að ganga að því vísu að Íslendingar sjálfir nýti sér ekki þann vettvang til að miðla skoðunum sínum annað en t.d. umræður á vef breska ríkisútvarpsins BBC . Um tvær fréttir blaðsins; annars vegar að Íslendingar hafi fellt Icesave-samninginn og hins vegar að Bretar og Hollendingar hafi hótað málsókn í kjölfarið, hafa borist vel rúmlega þrettán hundruð álit.

Þótt vissulega sé varhugavert að draga of miklar ályktanir af slíkum umræðum er ljóst að flestir sem þar taka til máls hafa mikla samúð með Íslendingum. „Bravó Ísland! Íbúar þessa lands kunna að standa á rétti sínum,“ segja sumir. Aðrir benda á að þrátt fyrir að Íslendingar líti út fyrir að vera Davíð í Golíatsbaráttu hafi samfélagið hér verið eitt stórt píramídasvindl í áraraðir og nú þurfi að borga reikninginn. Margir álitsgjafar öfunda Íslendinga jafnframt af atkvæðagreiðslunni og óska eftir því að hið sama verði gert á Spáni. „Íslendingar vísa veginn. Tíma græðginnar, þar sem gróðinn fer til hinna fáu en tapið til allra hinna, verður að ljúka!“

Enn aðrir hafa rómantískar og einkennilegar hugmyndir um íslenskt líferni og telja að neitunin muni ekki hafa nein áhrif á Íslendinga enda séu þeir „nægjusamir fiskimenn sem kunni að nýta auðlindir sínar og hafi ekki þekkt lúxus fyrir 10 árum“. Þó ganga fáir lengra en sá sem hafði þetta að segja: „Stolt verður ekki metið til fjár. Í heimi þar sem allt fæst keypt standa Íslendingar óhagganlegir á sínu. Þeir gætu lent í erfiðleikum í kjölfar þessarar atkvæðagreiðslu en þeir hafa íþ.m. sýnt heiminum að enn eru til alvörumanneskjur sem ekki gefa auðveldlega eftir og vilja láta koma fram við sig af virðingu. Þeir færa manni til baka einhverja trú á mannkynið.“