Hlaup Brautarmet karla í Mývatnsmaraþoninu er 2:43:26 og það á Ingólfur Gissurarson en Bryndís Ernstsdóttir hefur hlaupið hraðast kvenna á 3:05:16.
Hlaup Brautarmet karla í Mývatnsmaraþoninu er 2:43:26 og það á Ingólfur Gissurarson en Bryndís Ernstsdóttir hefur hlaupið hraðast kvenna á 3:05:16. — Ljósmynd/Þorgeir Gunnarsson
Skjálfti er kominn í margan hlauparann enda styttist nú í tvö maraþonhlaup; Vormaraþon Félags langhlaupara og Mývatnsmaraþonið. Ekki er þó bráðnauðsynlegt að hlaupa alla 42,2 kílómetrana því í báðum tilfellum er boðið upp á styttri vegalengdir.

Skjálfti er kominn í margan hlauparann enda styttist nú í tvö maraþonhlaup; Vormaraþon Félags langhlaupara og Mývatnsmaraþonið. Ekki er þó bráðnauðsynlegt að hlaupa alla 42,2 kílómetrana því í báðum tilfellum er boðið upp á styttri vegalengdir.

Ræst verður í Vormaraþoni að morgni 30. apríl næstkomandi. Að venju undanfarinna ára hefst hlaupið í Elliðaárdal og lýkur þar sömuleiðis. Þeir sem hlaupa maraþon hlaupa tvívegis út á Ægisíðu og til baka en þeir sem hlaupa hálft maraþon snúa einu sinni við á hlaupaleiðinni.

Mánuði síðar, eða 28. maí, verður ræst í Mývatnsmaraþoninu. Í því hlaupi er hægt að velja milli þess að hlaupa maraþon umhverfis vatnið, hálft maraþon, 10 km hlaup og þriggja km hlaup.

Hlaupið hefst og lýkur við Jarðböðin í Mývatnssveit og hlaupið er réttsælis í kringum vatnið.

Jóna Matthíasdóttir, verkefnisstjóri hjá Mývatnsstofu sem aðstoðar Björgunarsveitina Stefán og Ungmennafélagið Mývetning við að halda hlaupið, segir erfitt að spá um fjölda þátttakenda. Mývatnsmaraþon hefur verið hlaupið frá árinu 1994 en fjöldi þátttakenda datt niður í fyrra. Jóna segir að fyrir því geti verið ýmsar ástæður, s.s. að kosningar bar upp á sama dag og jafnframt voru fermingar í sveitinni. „Vonandi koma sem flestir. Þetta er auðvitað mjög flott leið í kringum vatnið,“ segir Jóna.

Hlaupurum er í lok Mývatnsmaraþonsins boðið upp á grillveislu og ofan í Jarðböðin.

Skráning í Vormaraþonið og Mývatnsmaraþonið fer fram á hlaupasíðunni hlaup.is. Þar getur líka að sjá þéttskipaða hlaupadagskrá ársins. runarp@mbl.is