Reykjavíkurborg hefur ákveðið að ráðast í skuldabréfaútboð fyrir einn milljarð króna. Um er að ræða stækkun á útistandandi skuldabréfaflokknum RVK 09 1, sem stendur í tæplega 11 milljörðum króna í dag.

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að ráðast í skuldabréfaútboð fyrir einn milljarð króna. Um er að ræða stækkun á útistandandi skuldabréfaflokknum RVK 09 1, sem stendur í tæplega 11 milljörðum króna í dag. Kemur þetta fram í tilkynningu sem send var Kauphöllinni í gær. Heimild Reykjavíkur til stækkunar á flokknum á þessu ári nemur alls 6,3 milljörðum, en þegar hafa verið seld bréf fyrir tæplega 1,4 milljarða króna á árinu. Skv. útboðslýsingu er áætluð stækkun á flokknum á þessu ári tæplega fimm milljarðar króna.

Ekki er langt síðan Reykjavíkurborg réðst síðast í skuldabréfaútboð, en það var í lok mars síðastliðins. Þá tók borgin tilboðum fyrir um 1,1 milljarð króna á 3,93% vöxtum. Nafnvextir skuldabréfaflokksins eru 4,4% verðtryggðir vextir. Skuldabréfaflokkurinn RVK 09 1 er langur, en lokagjalddagi er 10. desember árið 2053. Engin uppgreiðsluheimild er á flokknum, en fyrsta vaxtagreiðslan var sumarið 2009.