Félagar Epic Rain og Beatmakin Troopa eru búnir að gera plötu saman.
Félagar Epic Rain og Beatmakin Troopa eru búnir að gera plötu saman.
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Útgáfufyrirtækið 3angle Productions hefur verið virkt í neðanjarðartónlistarsenu landsins um nokkurt skeið og gefið út tilraunakennda tónlist; jaðarrapp, raftónlist og óhljóðalist m.a.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Útgáfufyrirtækið 3angle Productions hefur verið virkt í neðanjarðartónlistarsenu landsins um nokkurt skeið og gefið út tilraunakennda tónlist; jaðarrapp, raftónlist og óhljóðalist m.a. Rain, Beatmakin' Troopa og Stereo Hypnosis eru á meðal þeirra listamanna sem hafa gefið þar út. Nú hafa tveir af forkólfum útgáfunnar, þeir Pan Thorarensen (sem Beatmakin Troopa) og Jóhannes Birgir Pálmason (Epic Rain) tekið höndum saman og gefið út plötuna Campfire Rumours. Kveður við nokkuð annan og jafnvel aðgengilegri tón á plötunni, innihaldið er kántrískotið og ljúft hipp-hopp, notalegt nokk og leitt áfram af sögum Epic Rain. Varðeldatengingin segir margt um útgangspunkt plötunnar enda segir í umslagi að varðeldurinn hafi í gegnum tíðina dregið að sér fólk með innihaldsríkar sögur og varðeldurinn beri jafnan með sér styrkjandi kyrrð og ró fyrir þá sem þar að koma.

Erfitt að kalla þetta rapp

„Já, þetta er sæmilegasti hrærigrautur,“ segir Pan. „Þetta er „laid-back“ og kántrískotið. Þessi stíll hefur verið að þróast hjá okkur Jóa undanfarið en platan hefur verið 2,3 ár í smíðum.“

Pan segir að það sér erfitt að kalla þetta rapp eða hipp-hopp.

„Jói er farinn að semja mjög djúpa texta og það má jafnvel finna fyrir anda Tom Waits þarna. Svo er það auðvitað Buck 65. En aðaláhrifavaldur hans er Tom Waits þannig að þetta er allt rétt einhvern veginn!“

Pan segir það rétt að jafnan sé 3angle Productions á tilraunakenndu nótunum og þessi plata sé poppvæn ef eitthvað er.

„Algerlega. Upphafslagið, „Lays of Sorrow“ gæti þess vegna farið í spilun á Rás 2. Við höfum verið að fá góð viðbrögð við þessu efni, bæði hér heima og erlendis.“

Pan segir að lokum að það sé mikilvægt fyrir merki eins og 3angle Productions að halda í stílinn. Þessi plata sé tilkomin vegna eðlilegrar þróunar þessa tiltekna verkefnis, ekki að merkið sem slíkt sé að taka einhverja u-beygju.

„Við erum opnir en um leið þarf að gæta að listrænum heilindum. Of margar útgáfur klúðra málum og fara of geyst í að breyta sér. Þetta snýst svolítið um þessa setningu hér: „Keep it Real“.