Önundur Páll Ragnarsson onundur@mbl.is Matsfyrirtækið Moody's mun ekki breyta lánshæfismati sínu á ríkissjóði fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi.

Önundur Páll Ragnarsson

onundur@mbl.is

Matsfyrirtækið Moody's mun ekki breyta lánshæfismati sínu á ríkissjóði fyrr en í fyrsta lagi eftir næstu helgi. Sendinefnd frá ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands hittir fulltrúa fyrirtækisins á fundi í Washington næsta sunnudag. Standard & Poor's hefur ekki breytt mati sínu heldur, en ekki frestað því um neinn tiltekinn tíma. Það gæti því gerst hvenær sem er.

Fitch Ratings mun að svo stöddu ekki breyta sínu mati, en það hefur Ísland nú þegar í ruslflokki. Það segir hins vegar í tilkynningu að líkur á hækkun hafi minnkað vegna synjunar Icesave. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir matsfyrirtækin vel upplýst um stöðu mála á Íslandi en bankinn miðli til þeirra öllum upplýsingum, bæði hagfræðilegum og lögfræðilegum.

Nýjar upplýsingar væntanlegar

„Við erum að reyna að vinna í þeim og tölum við þau á hverjum degi eða oft á dag. Það gætu líka komið fram nýjar upplýsingar á næstu dögum. Það er nú það sem við erum svolítið að veðja á og vonum að tíminn vinni með okkur í,“ segir Már. Spurður hvaða atriði þetta séu segist hann ekki geta upplýst það.

Már segir ekki hægt að gera lítið úr mikilvægi lánshæfismatsins, þó svo að orðspor matsfyrirtækja hafi beðið hnekki í augum almennings, frá því fyrir hrun. „Seðlabanki Íslands hefur til dæmis ákveðna stefnu um fjárfestingar. Þar er gerð krafa um að við fjárfestum ekki í pappírum fyrir neðan ákveðið mark. Og þannig er það víðast.“ Fjármögnun íslenska ríkisins og stórra fyrirtækja á því mikið undir matinu.

Margt mælir gegn lækkun

En hvað mælir með óbreyttu lánshæfi Íslands núna? Már svarar því til að árangur hafi náðst í stöðugleika efnahagslífsins, gengið sé 7,5% styrkara en fyrir ári og stöðugur viðskiptaafgangur styðji við það. Búið sé að ná verðbólgumarkmiði, áætlanir um ríkisfjármál gangi eins og að var stefnt, skuldastaðan sé betri en talið var og nú hafi Seðlabankinn stærsta gjaldeyrisforða sögunnar. „Við eigum leikandi fyrir þessum gjalddögum sem verða 2011 og 2012. [...] Þar að auki höfum við verið að kaupa gjaldeyri á markaði.“ Aukinheldur starfi bankarnir í skjóli hafta, með óbeina en altæka innlánatryggingu og ekki með þá erlendu skuldastöðu að hægt sé að gera áhlaup á þá hennar vegna. Fjármálastöðugleika sé því alls ekki ógnað.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að unnið verði að svarbréfinu til ESA á næstu dögum en að ekki sé búið að „setja punkt á það“ hvenær svarið verði sent.

  • ...og svo notum við bara allt. Þó þannig að það sem við segjum sé fullkomlega trúverðugt. Már Guðmundsson