Samstarf Ofurtölvuverkefni var kynnt af Kristínu Ingólfsdóttur háskólarektor, Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og fleirum í gær.
Samstarf Ofurtölvuverkefni var kynnt af Kristínu Ingólfsdóttur háskólarektor, Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og fleirum í gær. — Morgunblaðið/Kristinn
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Norrænt ofurtölvuver verður sett upp hér á landi á næstunni en Háskóli Íslands varð hlutskarpastur þriggja háskóla á Norðurlöndunum sem buðu í verkefnið. Skrifað var undir samning þess efnis í gær.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Norrænt ofurtölvuver verður sett upp hér á landi á næstunni en Háskóli Íslands varð hlutskarpastur þriggja háskóla á Norðurlöndunum sem buðu í verkefnið. Skrifað var undir samning þess efnis í gær.

Heildarfjárfesting við tilraunaverkefnið, sem standa mun yfir í þrjú ár, á að nema rúmlega 200 milljónum króna. Íslenska menntamálaráðuneytið mun meðal annars leggja fé til verkefnisins. Mun aðgangur íslenskra vísindamanna að sameiginlega tölvukerfinu bæta aðstöðu þeirra til rannsókna til muna.

Leggja til 120 milljónir króna

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að auk Háskólans standi þrjár erlendar stofnanir að verkefninu, Danish Center for Scientific Computing, Swedish National Infrastructure for Computing og UNINETT Sigma í Noregi. Þær stofnanir hafi yfirumsjón með uppbyggingu og rekstri ofurtölvuvera í heimalöndum sínum en þær hafi nú kosið að setja upp sameiginlegt ofurtölvuver hér á landi. Framlag þeirra til verkefnisins er um 750 þúsund evrur, jafnvirði um 120 milljóna króna.

Auk Háskólans og stofnananna þriggja verður verkefnið unnið í nánu samstarfi við gagnaverið Thor Data Center í Hafnarfirði en það mun hýsa ofurtölvuverið.

Líta til rafmagnsverðs hér

Háskólar og rannsóknastofnanir á Norðurlöndum munu samnýta ofurtölvuverið en það mun hýsa reiknifreka tölvuvinnslu til vísindarannsókna fyrir háskólana.

Í umsögn matsnefndar um umsókn Háskóla Íslands er sérstaklega bent á legu landsins, umhverfisvænan orkubúskap og verðlag orkunnar, en þau atriði eru sögð fordæmisgefandi fyrir verkefni af sama toga.

Skoða kosti sameiginlegs kerfis

Tilgangur tilraunaverkefnisins er sagður vera að kanna þær skipulagslegu og tæknilegu áskoranir sem sameiginleg uppsetning, rekstur og stjórnun á slíku tölvukerfi til vísindastarfa hefur í för með sér. Þá er annar mikilvægur liður þess sagður vera að gera slíka tölvuvinnslu hagkvæmari en hún er í dag. Er raforkuverð sagt vera stór þáttur þess.

Er verkefnið sagt vera til marks um þá auknu áherslu sem vísinda- og tækniráð víða um heim leggi á ofurtölvur sem framtíðartilraunastofu vísinda og nýsköpunar annars vegar og hins vegar sem hluta af áframhaldandi hnattvæðingu rannsóknasamstarfs.

Ofurtölvuver
» Háskóli Íslands mun reka ofurtölvuverið í samstarfi við þrjár norrænar stofnanir. Auk þess verður samstarf við menntamálaráðuneytið og Thor Data Center.
» Stofnanirnar þrjár munu leggja um 120 milljónir króna til verkefnisins. Heildarfjárfestingin er talin nema jafnvirði 200 milljóna króna.
» Tilraunaverkefnið mun standa yfir í þrjú ár en verið verður hýst í gagnaveri Thor Data Center.
» Ofurtölvuverið nýtist til flókinna útreikninga í hinum ýmsu vísindarannsóknum.