Vantraust ríkir á vilja og getu ríkisstjórnar til að gæta hagsmuna Íslands
Viðbrögð hinnar lánlausu ríkisstjórnar Íslands við kröftugu neii þjóðarinnar við uppgjafarstefnu hennar lofa ekki góðu. Árni Páll Árnason, sem er ósýnt um að leysa nokkurt mál, fór fljótt og illa af stað eftir neiið. Hann sagðist flýta sér við að koma ESA-málatilbúnaðinum áfram! Þessi viðbrögð eru hneyksli. Forstjóri ESA hefur orðið ber að yfirlýsingum og dómum á meðan málið er enn í meðferð í stofnun hans. Hann hefur gefið til kynna að EFTA-dómstóllinn sé ómerkilegur stimpilpúði og hann ráðstafi úrskurðum þess dómstóls að vild. Fyrsta krafan hlýtur að vera sú að þessi óhæfi ESA-maður víki þegar í stað. Auðvitað er hætta á að norsk yfirvöld skipi annan engu betri í staðinn, því vitað er að norskir fulltrúar í ESA fylgja fyrirmælum stjórnvalda í Osló í smáu og stóru. Ferill fulltrúanna fyrir og eftir veru þeirra í ESA styrkir það mat. Þótt hin lánlausa ríkisstjórn þráist við að víkja, og fyrirlitning þjóðarinnar á framgöngu hennar blasi við kemst hún varla hjá að sýnast gæta hagsmuna þeirrar sömu þjóðar út á við. Getur hún í það minnsta leitast við í smáu að fylgja fordæmi forseta Íslands.